From Wikipedia, the free encyclopedia
Jón (Jónsson) Espólín (22. október 1769 – 1. ágúst 1836) var sýslumaður, fræðimaður og íslenskur annálaritari og er einna frægastur fyrir að hafa tekið saman Íslands Árbækur í söguformi.
Hann var fæddur á Espihóli í Eyjafirði og kenndi sig við þann bæ. Foreldrar hans voru Jón Jakobsson sýslumaður og kona hans Sigríður Stefánsdóttir. Jón lærði í heimaskóla hjá Jóni presti Jónssyni í Núpufelli og fór síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Hann var skipaður sýslumaður í Snæfellsnessýslu frá 19. september 1792. Hann tók við sýslunni seint í nóvember sama ár. Árið 1797 hafði hann sýsluskipti við Finn Jónsson sýslumann í Borgarfjarðarsýslu og var þar í fimm ár en þá skipti hann um sýslu við Jónas Scheving og fékk Skagafjarðarsýslu, þar sem hann var síðan sýslumaður til dauðadags. Hann bjó fyrst á Flugumýri í Blönduhlíð 1803–1806, síðan í Viðvík í Viðvíkursveit til 1822 og síðast á Frostastöðum í Blönduhlíð. Kona Jóns var Rannveig Jónsdóttir (6. janúar 1773 – 8. ágúst 1846). Sonur þeirra, Hákon, gaf út þrjár bækur með efni eftir föður sinn að honum látnum.
Jón hafði mikinn áhuga á sagnfræði og ættfræði frá unglingsárum og skrifaði mikið um þau efni. Annállinn Íslands Árbækur í sögu-formi, sem venjulega gengur undir nafninu Árbækur Espólíns, kom út í 12 bindum á árunum 1821–1855. Árbækurnar eru yfirlit yfir sögu Íslands frá því um 1262 til samtíma höfundarins, og eru beint framhald af Sturlungu. Þær höfðu mikil áhrif, enda um langt skeið eina prentaða yfirlitið um sögu Íslands eftir 1262.
Jón var afkastamikill höfundur. Eftir hann liggja meiri ættfræðiupplýsingar en nokkurn annan mann frá fyrri tíð og við hann er kennt ættfræðiforritið Espólín. Hann tók saman fjöldamörg rit um mannkynssögu, einkum sögu fornaldar, en einnig sögu síðari alda. Langbarða sögur, Gota og Húna og þýðingarnar eftir Plútarkos eru sýnishorn af því safni. Hann orti sálma og skrifaði einnig eina fyrstu skáldsögu á íslensku, þ.e. Sagan af Árna yngra ljúfling.[1]
Sagt hefur verið um Jón að hann hafi skrifað óvenju góða íslensku á tíð þegar málfar embættismanna var æði dönskuskotið. Gísli Konráðsson, lærisveinn og vinur Jóns Espólíns, lýsti honum svo:
Eftir Jón Espólín liggja fjöldamörg ritverk, bæði frumsamin og þýdd. Flest þeirra hafa aldrei verið gefin út og eru aðeins til í handritum.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.