Remove ads
Breskur flotaforingi (1758–1805) From Wikipedia, the free encyclopedia
Horatio Nelson, fyrsti vísigreifinn af Nelson (29. september 1758 – 21. október 1805) var flotaforingi í breska konungsflotanum. Hann var rómaður fyrir leiðtogahæfni sína, herkænsku og frumleika sem gerðu honum kleift að vinna marga frækna sigra í sjóorrustum, sérstaklega í Napóleonsstyrjöldunum. Hann særðist nokkrum sinnum á vígvellinum: Hann missti sjónina á öðru auga í Korsíku og mestallan hægri handlegginn í misheppnaðri tilraun til að hertaka Santa Cruz de Tenerife. Hann var skotinn til bana eftir að hafa unnið sinn hinsta sigur í orrustunni við Trafalgar árið 1805.
Horatio Nelson | |
---|---|
Fæddur | 29. september 1758 |
Dáinn | 21. október 1805 (47 ára) Trafalgar, Spáni |
Störf | Flotaforingi |
Trú | Enska biskupakirkjan |
Maki | Frances Nisbet |
Undirskrift | |
Nelson fæddist inn í sæmilega efnaða fjölskyldu í Norfolk og gekk í sjóherinn undir leiðsögn frænda síns, Maurice Suckling, sem sjálfur var hátt settur sjóliði. Hann kleif metorðastigann fljótt og vann með mörgum helstu sjóliðsforingjum síns tíma áður en hann varð sjálfur foringi árið 1778. Hann vann sér inn góðan orðstír vegna hugrekkis síns og herkænsku en var oft veikur og atvinnulaus eftir lok bandarísku byltingarinnar. Byrjun frönsku byltingarstríðanna gerði Nelson kleift að snúa aftur í flotann, þar sem hann var sérlega virkur á Miðjarðarhafinu. Hann barðist í ýmsum minniháttar bardögum við Toulon og tók þátt í hertöku Breta á Korsíku. Árið 1797 vakti Nelson mikla athygli sem skipstjóri HMS Captain í orrustunni við Sankti Vincent-höfða.
Stuttu eftir orrustuna tók Nelson þátt í árás Breta á Santa Cruz de Tenerife en var sigraður og illa særður: Hann glataði hægri handleggnum og neyddist til að snúa aftur til Englands til að jafna sig. Næsta ár vann hann frækinn sigur gegn Frökkum í orrustu á Nílarfljóti og var síðan áfram á Miðjarðarhafinu til að styðja Konungsríkið Napólí gegn hugsanlegri innrás Frakka. Árið 1801 var hann sendur til Eystrasalts og vann annan sigur, í þetta sinn gegn Dönum í sjóorrustu við Kaupmannahöfn. Stuttu síðar sat hann um fyrir frönsku og spænsku flotunum við Toulon og elti þá til og frá Vestur-Indíum en tókst ekki að ginna þá til bardaga. Eftir stutta heimsókn til Englands tók hann við forystu á hafnarbanni við Cádiz árið 1805. Þann 21. október 1805 sigldu frönsku og spænsku flotarnir úr höfn og Nelson mætti þeim í orrustunni við Trafalgar. Úr varð mesti hernaðarsigur Breta á sjó fyrr og síðar en í bardaganum var Nelson, um borð á herskipinu HMS Victory, ráðinn af dögum af franskri leyniskyttu. Lík hans var flutt heim til Englands, þar sem honum var veitt ríkisútför.
Sigur Nelsons og dauði við Trafalgar gerði hann að þjóðhetju í augum Breta. Enn í dag er oft vitnað í kjörorð hans, „England væntir þess að sérhver maður sinni skyldu sinni“. Fjölmörg minnismerki standa í Bretlandi til heiðurs Nelson, þ.á.m. Nelson-súlan á Trafalgar-torgi í London og Nelsonsminnismerkið í Edinborg.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.