From Wikipedia, the free encyclopedia
Hallormsstaðaskógur er einn stærsti skógur á Íslandi. Þótt bærinn heiti Hallormsstaður er málvenja að nota „Hallormsstaða-“ (ekki „Hallormsstaðar-“) í samsettum orðum. Það helgast líklega af því að upphaflega hét bærinn Hallormsstaðir, en nafnið breyttist þegar hann varð „staður“ (staðamál), eins og flestir kirkjustaðir hér á landi. Árið 1903 stofnaði Skógræktin skógræktarstöð við Hallormsstað. Skógurinn er einn af þjóðskógum Íslands. Í skóginum er trjásafn þar sem finna má sum elstu og hæstu tré sinnar tegundar á Íslandi. Þar má meðal annars finna eik, lindifuru, marþöll, fjallaþöll, degli, fjallaþin, blágreni, stafafuru, lerki, broddfuru, risalífvið, blæösp og gráelri. Í Hallormsstaðaskógi eru tjaldsvæði, meðal annars á hinum fornfræga samkomustað Atlavík.
Hann er austan við Lagarfljót um 25 km sunnan við Egilsstaði. Upp af skóginum er Hallormsstaðaháls sem skilur á milli Fljótsdals og Skriðdals.
Hallormsstaðaskógur er gjarnan sagður stærsti skógur á Íslandi. Hann nær yfir um 740 ha og í honum er að finna lítið þorp, það eina í skógi á Íslandi. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði í fjölbreyttu landslagi. Í honum eru um 40 km af gönguslóðum og trjásafn með yfir 80 trjátegundum. Í skóginum eru vinsæl tjaldsvæði og Hótel Hallormsstaður. Þar er auk þess að finna leiktæki og góð grillsvæði. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum, víðs vegar um heiminn.
Friðun Hallormsstaðaskógar hófst 1905 og varð skógurinn þar með fyrsti þjóðskógur Íslands. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Stór svæði hafa bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfgræðsla birkis er í algleymingi. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum, víðs vegar um heiminn.
Skógurinn sér fuglum fyrir mat, hreiðurstæðum og vernd fyrir ránfuglum. Meðal algengra fugla í Hallormsstaðaskógi eru auðnutittlingur, músarrindill, glókollur, rjúpa og hrafn. Á sumrin eru þar einnig skógarþröstur og hrossagaukur og stundum sjást þar flækingar eins og svartþröstur, bókfinka og hringdúfa.
Margir leggja leið sína í Hallormsstaðaskóg til jurtaskoðunar, sveppa- og berjatínslu. Í skóginum má finna marga bragðgóða matsveppi, s.s. lerkisvepp, kúalubba og furusvepp. Hrútaber er að finna víða í skóginum og hindber finnast einnig á nokkrum stöðum. Úr berjunum má gera saft og sultur.
Meðal fléttna í Hallormsstaðaskógi eru fleiðurdumba, lítil brúnleit flétta sem vex á berki trjáa í skóginum en finnst annars á klettum á Vesturlandi.
Um verslunarmannahelgi árið 1984 sótti einn meðlima Bítlanna, Ringo Starr, hina árlegu Atlavíkurhátíð sem þar fór fram og steig á svið með hljómsveitinni Stuðmönnum.Í tilefni af 100 ára afmæli friðunar Hallorms-staðaskógar árið 2005 kom út bókin Hallormsstaður í skógum: Náttúra og saga höfuðbóls og þjóðskógar eftir þá Hjörleif Guttormsson og Sigurð Blöndal.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.