Hólavallaskóli eða Reykjavíkurskóli var starfræktur í Reykjavík frá 1785 (kennsla hófst raunar ekki fyrr en 1786), þegar ákveðið var að leggja Skálholtsstól niður og Skálholtsskóla um leið en flytja biskupsembættið og skólann til Reykjavíkur, og til 1804, en 1805 var hann fluttur til Bessastaða.

Húsakynni

Upphaflega hugmyndin var að byggja skólann á Austurvelli en hann reyndist of blautur og var þá ákveðið að reisa húsið á Melshúsalóð en kennarabústaði á Hólakotslóð þar við hliðina. 1600 ríkisdalir voru veittir til að koma upp skólahúsi úr timbri en það fé dugði ekki til og var því húsið minnkað og því breytt til að spara sem mest. Þó varð húsið tvöfalt dýrara en áætlað hafði verið. Kennsla hófst þar haustið 1786.

Í húsinu voru fimm stofur niðri en þær nýttust þó verr en fyrirhugað hafði verið því að fé sem ætlað hafði verið til kennarabústaða dugði hvergi nærri til og kennararnir bjuggu því hvor í sinni stofu. Skólasveinar, sem voru um 30, sváfu í átta rúmum uppi á lofti. Húsið var illa smíðað, var ákaflega kalt og gisið, hriplekt og einnig dimmt, því gluggarnir voru litlir.

Aðbúnaður

Þegar skólinn var fluttur var ákveðið að kennarar fengju laun sín greidd ársfjórðungslega í peningum og þeir nemendur sem nytu ölmusu (skólastyrks) skyldu líka fá hana greidda í peningum en sjá sér sjálfir fyrir mat. Áður hafði ölmusan verið í formi fæðis. Skólapiltar urðu því að lifa á skrínukosti eða koma sér sjálfir í fæði í einhverjum af kotunum í kring og ganga þangað í hvaða veðri sem var.

Ölmusan sem skólasveinar fengu dugði hvergi nærri til framfæris og séra Árni Helgason sagði seinna: „Fátækt þekkti ég að heiman, en sultinum kynntist ég fyrst í skóla." Fæðið var svo lélegt og einhæft að margir skólapiltar fengu skyrbjúg. Þegar við bættist kuldinn og aðbúnaðurinn í húsinu var ekki að furða þótt sumir þeirra biðu varanlegt heilsutjón af skólavistinni.

Kennsla og nám

Skólameistari Hólavallaskóla var Gísli Þórðarson Thorlacius. Hann var mjög drykkfelldur og mætti oft ekki til kennslu dögum saman og þegar frá leið hætti hann alveg að mæta. Páll Jakobsson, sem verið hafiði konrektor og settur skólameistari í Skálholti var áfram konrektor í Hólavallaskóla en hann var einnig drykkfelldur og orðinn roskinn og þar kom að hann flutti burt úr bænum og að Esjubergi en hélt þó starfi sínu að nafninu til.

Skólastjórn og kennsla var því að mestu í höndum settra kennara, fyrst Jakobs Árnasonar, systursonar Páls, sem síðar varð prestur í Gaulverjabæ, og síðar Guttorms Pálssonar, sem varð prestur í Vallanesi. Einnig kenndu við skólann um lengri eða skemmri tíma þeir Brynjólfur Sigurðsson, Arnór Jónsson og Jóhann Árnason. Þegar þeim Gísla og Páli var veitt lausn frá embætti 1804 hafði hvorugur þeirra sést í skólanum í mörg ár.

Í skólanum var kennd latína, gríska, Nýjatestamentisfræði og svolítið í sögu, landafræði og reikningi. Engin kennsla var í íslensku eða dönsku en piltunum þó sagt að þeir ættu að læra þetta. Bókakostur var svo lítill að stundum voru 8 skólasveinar um eina bók. Verst mun ástandið hafa verið fyrstu árin, þegar Gísli og Páll áttu að heita að vera við kennslu, en skánaði þegar settu kennararnir tóku við.

Skólinn fluttur

Af öllu þessu var skólinn illa þokkaður og margir voru tregir til að senda syni sína þangað vegna lélegs aðbúnaðar. Og þegar konungsboð kom um það haustið 1801 að leggja skyldi Hólaskóla niður og Hólavallaskóli varð eini skóli landsins varð óánægjan svo mikil að farið var að leita annarra úrræða. Á endanum varð úr að flytja skólann á Bessastaði og var það gert árið 1805, en veturinn 1804-1805 var enginn opinber skóli á Íslandi.

Heimildir

  • „Reykjavíkurskóli. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 1893“.
  • „Hólavallarskóli. Lesbók Morgunblaðsins, 25. febrúar 1951“.

Wikiwand in your browser!

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.

Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.