Guðbrandur Þorláksson (1541(?) – 20. júlí 1627) var biskup á Hólum frá 8. apríl 1571 til dauðadags.

Thumb
Guðbrandur Þorláksson á málverki frá 17. öld

Guðbrandur var sonur séra Þorláks Hallgrímssonar, prests á Mel í Miðfirði og víðar, og Helgu Jónsdóttur, sem var dóttir Jóns Sigmundssonar lögmanns og Bjargar Þorvaldsdóttur konu hans. Guðbrandur lærði í Hólaskóla á árunum 1553 til 1559 og fór svo í Kaupmannahafnarháskóla árið 1560 sem þá var óvenjulegt, þar sem flestir Íslendingar fóru í háskóla í Þýskalandi. Þar lagði hann stund á guðfræði og rökfræði. Eftir heimkomuna varð hann rektor í Skálholtsskóla 1564–1567 og síðan prestur á Breiðabólstað í Vesturhópi uns Friðrik 2. Danakonungur skipaði hann biskup á Hólum eftir meðmæli frá Sjálandsbiskupi, sem verið hafði kennari hans í háskólanum, þrátt fyrir að prestastefna á Íslandi hefði kjörið annan mann.

Biskupstíð

Guðbrandur var biskup á Hólum í 56 ár og hefur enginn Íslendingur gegnt biskupsembætti lengur. Hann setti því mikinn svip á samtíð sína. Hann þótti vera einn mesti lærdómsmaður á Íslandi, einn af fulltrúum húmanismans og hafði mikinn áhuga á landafræði, stærðfræði og stjörnufræði. Hann vildi festa lútherska trú betur í sessi og í því skyni keypti hann prentsmiðjuna sem Jón Arason hafði flutt til landsins og hann hafði sjálfur unnið við á Breiðabólstað þegar hann var prestur þar, og lét flytja hana til Hóla. Hann stóð að umfangsmikilli prentun á guðsorðabókum og öðru trúarlegu efni á Hólum en þar ber hæst Guðbrandsbiblíu, sem kom út árið 1584 og var að hluta til þýdd af Guðbrandi sjálfum, auk þess sem hann notaði þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu og aðrar eldri þýðingar. Hún var prentuð í 500 eintökum og kostaði hvert þeirra tvö til þrjú kýrverð, eftir efnahag kaupandans. Með þýðingunni og útgáfunni á biblíunni og öðrum ritum stuðlaði Guðbrandur að varðveislu íslenskrar tungu. Hann skrifaði margar bækur sjálfur og þýddi aðrar og gerði ákveðnar gæðakröfur til þess efnis sem hann gaf út, meðal annars um að íslenskum bragvenjum væri fylgt, auk þess sem kenningin þurfti að vera rétt.

Guðbrandur hafði sem fyrr segir mikinn áhuga á stjörnufræði og landmælingum og tókst að reikna út hnattstöðu Íslands og einnig Hóla af meiri nákvæmni en áður hafði verið gert. Hann gerði líka landakort af Íslandi og leiðrétti önnur eldri. Var Íslandskort Guðbrandar lengi fyrirmynd annarra korta. Nánasti samstarfsmaður Guðbrandar mestalla biskupstíð hans var Arngrímur Jónsson lærði.

Morðbréfamálið

Nokkru áður en Guðbrandur varð biskup fékk fjölskylda hans hann til að endurheimta jarðeignir sem fyrirrennari hans, Gottskálk Nikulásson Hólabiskup, hafði kúgað út úr afa hans, Jóni Sigmundssyni lögmanni eftir 1505. Guðbrandur fékk, samkvæmt umboðsbréfi Helgu móður sinnar, ákveðinn hlut þeirra eigna sem hann næði að endurheimta. Honum varð í fyrstu vel ágengt, en þegar hann reyndi að ná tveimur jörðum í Skagafirði, sem afkomendur Kristínar dóttur Gottskálks biskups héldu, lenti hann gegn Jóni Jónssyni lögmanni af Svalbarðsætt. Jarðirnar voru seldar Jóni og Markúsi Ólafssonum og um 1590 komu fram fjögur bréf sem hermdu morð upp á Jón Sigmundsson. Jón lögmaður stóð gegn því að Guðbrandur fengi bréfin dæmd fölsuð. Við svo búið beitti biskup prentverkinu á Hólum fyrir sig og lét prenta þrjá bæklinga máli sínu til stuðnings árin 1592, 1594 og 1608. Morðbréfamálið stóð allt til 1624 og lyktaði með því að Guðbrandi var gert að greiða 1000 ríkisdala sekt fyrir rógburð.

Fjölskylda

Um það leyti sem Guðbrandur varð biskup eignaðist hann barn með Guðrúnu Gísladóttur vinnukonu á Hólum. Var það Steinunn Guðbrandsdóttir (1571—1649), sem giftist Skúla Einarssyni bónda á Eiríksstöðum í Svartárdal og í Bólstaðarhlíð. Þau áttu fjölda barna og eitt þeirra var Þorlákur Skúlason biskup, sem varð eftirmaður afa síns.

Guðbrandur kvæntist 7. september 1572 Halldóru Árnadóttur (1547 — 30. september 1585), dóttur Árna Gíslasonar sýslumanns á Hlíðarenda og síðar klausturhaldara í Þingeyraklaustri og konu hans Guðrúnar Sæmundsdóttur. Börn þeirra voru Páll Guðbrandsson (1573—1621) sýslumaður og klausturhaldari á Þingeyrum, Halldóra Guðbrandsdóttir (1574—1658), sem giftist ekki en stóð fyrir búi á Hólastól þegar faðir hennar gerðist aldraður og veikur, og Kristín Guðbrandsdóttir (1574—1652) kona Ara Magnússonar sýslumanns í Ögri við Ísafjarðardjúp.

Tenglar


Fyrirrennari:
Ólafur Hjaltason
Hólabiskup
(15711627)
Eftirmaður:
Þorlákur Skúlason


Wikiwand in your browser!

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.

Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.