Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Gnúpverjaafréttur er sá hluti Miðhálendisins sem bændur í hinum forna Gnúpverjahreppi reka fé sitt á. Afrétturinn nær frá Þjórsárdal inn með Þjórsá alla leið inn að Hofsjökli. Vesturmörk hans eru Fossá, síðar Öræfavatn og Öræfahnjúkur í hátind Arnarfells hins mikla. Gnúpverjar hafa í nokkurn tíma stundað samsmölun með Flóa- og Skeiðamönnum. Réttir í Skaftholtsréttum eru á föstudegi í 22. viku sumars.
Lengsta leit á Gnúpverjaafrétt kallast Langaleit eða Sandleit. Seinna nafnið kemur til vegna þess að fjallmenn fara inn fyrir svokallaðan Fjórðungssand, alla leið inn að Arnarfelli hinu mikla. Svæðið byrjar frá Hnífá. Í austri afmarkast svæðið af Þjórsá og því er stærstur hluti Þjórsárvera innan Lönguleitar. Í Lönguleit fara þrír menn; fjallkóngur, einn fjallmaður og trússari. Með þeim fara líka einn Flóamaður og einn Skeiðamaður. Leggja Lönguleitara af stað á þriðjudegi, 9 dögum fyrir réttir. Lönguleitarar stunda ekki bara smalamennsku heldur dytta að kofum og lagfæra vegi á afréttinum. Áður fyrr eitruðu þeir einnig fyrir tófu, en því hefur nú verið hætt.
Fjallmannakofi er við Þjórsá, á Bólstað, á móts við Sóleyjarhöfða. Langaleit er nokkuð ströng leit fyrir fjallmenn, því nær allar jökulkvíslar Þjórsár renna um hana, á leið sinni frá Hofsjökli. Þessar ár geta vaxið hratt og þarf fólk að þekkja vel til þeirra.
Næst lengsta leit kallast Norðurleit og er lagt af stað laugardeginum fyrir réttir. Norðurleitarar eru 4 frá Gnúpverjum og 4 frá Flóa- og Skeiðamönnum. Þeir fara alla leið í Bjarnalækjarbotna.
Dalsármenn kallast þeir sem leggja af stað á sunnudegi. Að Dalsá fara 18 menn og oft aukamenn. Þeir fara í Gljúfurleitarkofann og ríða á þriðjudeginum inn að Dalsá, í svokallaða Skiptibrík, þar sem þeir hitta fjallkónginn. Hann skipar í leitir.
Í eftirleit árið 1917 hrepptu eftirleitarar moldöskubyl. Þeir voru heppnir að koma lífs af.[1]
Sigurgeir Runólfsson í Skáldabúðum, þá fjallkóngur Gnúpverja, lést 10. september 1976 þegar hann drukknaði í jökulkeri í leit sinni að lambi upp undir jökli.
Haustið 2005 kom maður ríðandi vestur yfir Þjórsá er hann taldi sig vera að ríða yfir bergvatnsáanna Svartá á Holtamannaafrétti. Hann komst í hendur Gnúpverja og fylgdu þeir honum yfir Sóleyjarhöfðavað daginn eftir.
Hólaskógur kallast landspilda neðarlega á Gnúpverjaafrétti, austan undir Stangarfjalli. Þó nafnið bendi til trjágróðurs er þar engan skóg að finna, þó það sé talið að þarna hafi áður verið skógur og skógarítök Gnúpverja. Hólaskógur stendur milli Karnesings og Hafsins.
Í Hólaskógi er fjallmannakofi sem byggður var 1998.
Ófærutangi heitir klettabelti vestan við Þjórsá, innst í Gljúfurleit. Fram af Ófærutanga þurfa fjallmenn að klífa til að hefja göngur sínar um Þjórsárgljúfur. Ófærutangi samanstendur af þremur háum stöllum sem gangnamenn þurfa að stökkva niður. Verk þetta er nokkuð hættulegt. Fossinn Dynkur er stuttan spöl ofar í Þjórsá.
Starkaðsver heita gróðurlendur á Gnúpverjaafrétti fyrir innan Skúmstungur og Innri-Skúmstungnaá. Í verinu miðju er steinn einn stór þar sem þjóðsögur segja að Bárðdælingur nokkur að nafninu Starkaður hafi orðið úti. Hafi hann ætlað að hitta unnustu sína í Gnúpverjahreppi. Nótt eina þennan vetur dreymdi stúlkuna draum þar sem maðurinn vitjaði hennar og fór með vísubrot.
Angur og mein fyrir auðarrein
oft hafa skatnar þegið;
Starkaðar bein und stórum stein
um stund hafa legið.“
— .
Um Starkaðsver lá Sprengisandsleið hin forna.
Nautalda er 669 metra hátt móbergsholt milli Hnífár og Miklukvíslar, sunnan Nauthagajökuls í Hofsjökli. Austan Nautöldunnar er Nauthaginn. Um Nauthaga og Nautöldu lá leiðin inn í Arnarfell hið mikla en í Nauthaga eru volgrur sem ferðalangar gátu baðað sig í.
Austan við Nautöldu er Nauthagi (hnit: 64°37′37″N 18°47′5″V). Nauthagi kallast gróðursvæðið upp af Illaveri á Gnúpverjaafrétti. Í Nauthaga eru 25-45°C heitar laugar. Nauthaginn er í um 600 metra hæð en þó er mikil gróska í blómjurtum á þessu svæði.
Nafn sitt dregur Nauthaginn af því að árið 1847 fundust þarna tvö naut sem höfðu týnst frá Jóni Guðmundssyni ritstjóra þegar hann flutti frá Kirkjubæjarklaustri til Reykjavíkur. Þarna hafa nautin fundið góðan haga, þó skjóllaus sé.
Fjórðungssandur er landflæmi á Gnúpverjaafrétti, milli ánna Kisu og Hnífár. Fjórðungssandur er gróðurlaus að mestu nema í Eyvafeni og Hnífárveri en við það síðarnefnda hefst óslitið gróðurbelti inn að Arnarfelli hinu mikla — er því hægt að segja að Þjórsárver hefjist hér.
Fjórðungssandur dregur nafn sitt af því að þegar Sprengisandsleið var farin milli landsfjórðunga þurfti að ríða yfir sandinn og tók það að jafnaði 3 tíma. Nafnkunnugasta kennileyti á sandinum er Norðlingaalda en síðan um 1970 hefur verið talað um að stífla Þjórsá á þessum stað.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.