Dalur í Húnabyggð á Norðurlandi From Wikipedia, the free encyclopedia
Svartárdalur er dalur í Húnabyggð (áður Austur-Húnavatnssýslu) á Norðurlandi á Íslandi. Er hann austastur húnvetnsku dalanna, ásamt Laxárdal fremri, sem liggur norður af honum. Dalurinn er fremur grunnur en þröngur og þar er undirlendi lítið. Hann er veðursæll og grösugur og þar eru allnokkrir bæir.
Dalurinn dregur nafn af Svartá, sem rennur eftir honum. Nyrst í dalnum sveigir áin til vesturs og rennur í Blöndu gegnum skarð sem liggur milli Langadalsfjalls að norðan og Tunguhnjúks, sunnan við skarðið, en hann er nyrst á fremur lágum hálsi sem liggur milli Svartárdals og Blöndudals. Skarðið er nú oft talið norðurendi Svartárdals en hét áður Ævarsskarð og er sagt kennt við Ævar gamla Ketilsson landnámsmann. Þar er bærinn Bólstaðarhlíð, sem ýmist hefur verið talinn til Svartárdals eða Langadals. Þjóðvegur 1 liggur um skarðið og síðan um Bólstaðarhlíðarbrekku og upp á Vatnsskarð. Sést vel inn eftir dalnum af veginum.
Svartárdalur er um 25 km langur. Innst í dalnum er bærinn Stafn og þar er Stafnsrétt, ein þekktasta skilarétt landsins. Skammt þar fyrir framan klofnar Svartárdalur í tvo dali. Annar liggur til suðausturs, er nokkuð djúpur og svo þröngur að hann kallast Stafnsgil og endar í gljúfrum sem ná fram undir Buga. Svartá kemur upp í Bugum og rennur um Stafnsgil og liðast síðan um Svartárdal þar til hún fellur í Blöndu.
Hinn dalurinn, Fossárdalur eða Fossadalur, sem er í raun beint framhald af Svartárdal þótt nafnið breytist, gengur til suðsuðvesturs inn í Eyvindarstaðaheiði og endar í Fossadalsdrögum. Hann er einnig djúpur og þröngur, þó ekki eins og Stafnsgil. Á milli dalanna kallast Háutungur. Neðst í dalnum vestanverðum er einn bær, Fossar. Bærinn á Fossum er í 320 m hæð yfir sjávarmáli og í um 60 kílómetra fjarlægð frá Blönduósi. Enn framar er eyðibýli, Kóngsgarður, sem var í byggð fram undir lok 19. aldar.
Kirkja er á Bergsstöðum í Svartárdal og þar var áður prestssetur en það fluttist svo að Æsustöðum í Langadal eftir að Gunnar Árnason varð þar prestur 1925. Síðar var reist prestsetur að Bólstað sunnan við Húnaver, í landi Botnastaða.
10. febrúar 1609 féll snjóflóð að nóttu til á bæinn Leifsstaði þar í dalnum og tók af helming bæjarhúsa og fjósið. Fimm létu lífið: ung hjón sem höfðu gift sig fyrir fáeinum dögum, barn, piltur og vinnukona sem svaf í fjósinu. Bónda og konu hans sakaði ekki.[1]
Árið 1657 var bjarndýr „stórt sem naut“ unnið í fjárhúsinu á Eiríksstöðum.[2]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.