From Wikipedia, the free encyclopedia
Platonismi er heimspeki forngríska heimspekingisins Platons en þó einkum eins og hún var í meðförum eftirmanna hans, sem gjarnan litu á hana sem kerfisbundna heimspeki eða heimspekikerfi. Stundum er orðið „platonismi“ einnig notað um hluthyggju, einkum hluthyggju um altök eða tölur.
Platonismi hafði gríðarlega mikil áhrif á vestræna hugsun, heimspeki og trú, þar á meðal gyðingdóm, frumkristni og íslamska hugsun.
Megin uppistaðan í platonisma er frummyndakenningin.[1] Kenningin kveður á um að raunveruleikinn samanstandi af óbreytanlegum frummyndum sem ekki verða skynjaðar með skynfærum en sem mögulegt er að kanna og skilja með hugsun. Á hinn bóginn er efnisheimurinn samkvæmt kenningunni eins konar eftirmynd af heimi frummyndanna. Frummyndirnar gegna fjórþættu hlutverki í kenningu Platons: frumspekilegu, þekkingarfræðilegu, merkingarfræðilegu og siðfræðilegu hlutverki. Þær eru raunverulegar og stöðugar verundir, ólíkt efnisheiminum sem er sífellt verðandi en er aldrei neitt og þannig eru þær frumspekileg kjölfesta. Af því að þær eru í orðsins fylltsu merkingu eru þær viðföng þekkingar en efnisheimurinn er á hinn bóginn einungis viðfang brigðulla skoðana og þannig gegna þær þekkingarfræðilegu hlutverki. Frummyndirnar eru einnig merkingarmið hugtaka og gegna þannig merkingarfræðilegu hlutverki. Að lokum gegna þær siðfræðilegu hlutverki en eins og fram kemur í 6. bók Ríkisins er stigskipting meðal frummyndanna og efst trónir frummynd hins góða. sem allir góðir hlutir líkjast eða eiga hlutdeild í; þannig er hið góða, sem er gildishlaðið altak, í raun orsök og undirstaða annarra frummynda sem saman mynda raunveruleikann og eru orsakir og undirstöður efnisheimsins.
Frummyndakenningin kemur fyrir í nokkrum samræðum, þar á meðal í Fædoni, Ríkinu, Samdrykkjunni, Parmenídesi og Tímajosi en er einnig afar mikilvæg í ritum síðari platonista og nýplatonista, sem töldu að frummynd hins góða væri sama frummyndin og hið eina, sem um er rætt í Parmenídesi.
Hin svonefnda upprifjunarkenning Platons, sem er sett fram í samræðunni Menoni, er nátengd frummyndakenningunni. Kenningin kveður á um að allt nám sé upprifjun sálarinnar á meðfæddri þekkingu á frummyndunum.[2] Hugmyndin um ódauðleika og endurfæðingu sálarinnar tengist meðal annars upprifjunarkenningunni en Platon taldi, líkt og aðrir platonistar síðar, að sálin væri ódauðleg og að hún endurfæddist í nýjan líkama að lífinu loknu.[3] Í Fædoni er ódauðleiki sálarinnar til umræðu. Þar er líkamanum meðal annars lýst sem fangelsi sálarinnar. Platon hafði einnig kenningu um þrískiptingu sálarinnar, sem hann setti fram í Ríkinu og notaði þar meðal annars til að útskýra breyskleika.[4] Þessir þrír hlutar sálarinnar voru skynsemi, skap og löngun. Það er eðli skynseminnar að sækjast eftir sannleika og þekkingu og henni er líka eðlislægt að stjórna. Skapið leitar eftir viðurkenningu og er því er eðlilegt að styðja skynsemina en löngunin leitar eftir ánægju, einkum í formi matar, drykkjar og kynlífs en sækist einnig eftir peningum.[5] Hugmyndina um þrískiptingu sálarinnar er ekki að finna í Fædoni og Menoni þar sem sálin virðist vera lögð að jöfnu við það sem Platon kallar í Ríkinu skynsemishluta sálarinnar. Í Fædoni virðist á hinn bóginn margt af því sem gjarnan er talið til sálarlíf mannsins eignað líkamanum, þar á meðal lystin í mat, drykk og kynlíf.[6]
Öll siðfræði platonista byggir einnig á frummyndakenningu og sálarfræði Platons. Samkvæmt siðfræði þeirra er dygð þekking, þar sem þekking á frummynd hins góða er megin uppistaðan. Sálarhlutarnir þrír, skynsemi, skap og löngun, hafa hver um sig sína dygð, þ.e. viska, hugrekki og hófsemi en réttlætið er sú dygð sem sameinar hinar dygðirnar.
Platonismi á rætur að rekja til þeirra kenninga og raka sem sett eru fram í samræðum Platons. Í samræðunum er Sókrates oftast aðalpersónan og annaðhvort rannsakar skoðanir annarra eða reifar eigin kenningar. (Á hinn bóginn kemur Platon aldrei sjálfur fyrir í samræðum sínum og talar því aldrei í eigin persónu). Enn fremur eru til heimildir um óskrifaðar og óbirtar kenningar Platons, sem einungis þeir kynntust sem hlýddu á samtöl hans og fyrirlestra í Akademíunni en það var skóli sem Platon stofnaði í Aþenu. Skólinn hélt áfram starfsemi sinni öldum saman eftir andlát Platons. Sögu hans má skipta í þrjú tímabil: gömlu Akademíuna, mið-Akademíuna og nýju Akademíuna.
Helstu hugsuðir gömlu Akademíunnar voru fyrrum samstarfsmenn Platons en þeir tóku við stjórn skólans að honum látnum: Spevsippos, frændi Platons, var fyrsti forstöðumaður skólans að frænda sínum látnum og stýrði honum til ársins 339 f.Kr. Þá tók Xenókrates við stjórn skólans til ársins 314 f.Kr. Pólemon tók við af honum og stýrði skólanum til ársins 269 f.Kr. en þá tók Krates við stjórninni og stýrði skólanum til ársins 266 f.Kr. Meðal annarra heimspekinga sem störfuðu við gömlu Akademíuna má nefna Aristóteles, Evdoxos, Herakleides frá Pontos, Krantor og Filippos frá Ópús. Allir þessir hugsuðir voru sammála Platoni um margt en sumir þeirra geta þó ekki talist platonistar nema í víðum skilningi (til dæmis Aristóteles). Spevsippos og Xenókrates reyndu báðir að tvinna saman pýþagóríska talnaspeki og ýmsar hliðar á heimspeki Platons.
Árið 266 f.Kr. varð Arkesilás forstöðumaður Akademíunnar. Þá breyttust áherslur skólans mjög og hann varð efahyggjuskóli. Mörgum af samræðum Platons, einkum þeim elstu, lýkur án neinnar niðurstöðu. Akademísku efahyggjumennirnir töldu að hér væri að finna kjarnann í heimspeki Platons: í raun væri ekki hægt að komast að niðurstöðu um neitt. Þetta skeið skólans er nefnt mið-Akademían. Það einkenndist fyrst og fremst af deilum við stóumenn, þar sem Arkesilás og fylgjendur hans gagnrýndu stóíska þekkingarfræði, sem lýsti því hvernig öðlast mætti óhagganlega þekkingu. Arkesilás færði rök fyrir því að samkvæmt kenningum stóumanna væri ekki hægt að vita neitt en sjálfur tók hann aldrei undir forsendur þeirra og hélt engum fram sjálfur. Lakýdes, Evandros, Telekles og Hegesínos fylgdu í kjölfar Arkesilásar sem stjórnendur Akademíunnar. Tímabil nýju Akademíunnar hófst árið 155 f.Kr. þegar Karneades varð skólastjóri. Nýja Akademían var enn efahyggjuskóli en þó var áherslumunur á afstöðu Arkesilásar og Karneadesar; samkvæmt sumum túlkunum (þegar í fornöld) hélt Karneades fram einhvers konar sennileikahyggju, sem leyfði að eitthvað þætti sennilegt þótt möguleikanum á fullvissu (og þar með eiginlegri þekkingu) væri ætíð hafnað. Kleitomakkos tók við af Karneadesi og Fílon frá Larissu tók við af honum. Þá tók við Antíokkos frá Askalon, sem að endingu beindi Akademíunni frá efahyggjunni en akademísk efahyggja hafði þá þegar mildast mjög og orðið fyrir áhrifum frá stóuspeki. Fílon og Antíokkos voru síðustu akademísku heimspekingarnir sem störfuðu innan Akademíunnar sem stofnunar.
Saga mið-platonisman (sem ekki má rugla saman við mið-Akademíuna) hófst um 90 f.Kr. þegar Antíokkos frá Askalon hafnaði efahyggjunni. Platonisminn hafði þá þegar orðið fyrir áhrifum frá stóuspeki samtímis því sem efahyggjan mildaðist en varð nú einnig fyrir áhrifum frá aristótelískri heimspeki. Í mið-platonisma voru frummyndirnar taldar innbyggðar í mannlega skynsemi og efnisheimurinn var talinn vera lifandi vera, gædd sál — heimssálinni. Plútarkos var mikilvægastur mið-platonistanna. Á þessum tíma hafði platonisminn áhrif á pýþagóríska heimspeki hjá Númeníosi frá Apameu) og gyðinglega heimspeki hjá Fíloni frá Alexandríu).
Á þriðju öld e.Kr. varð til ný og öflug útgáfa af platonskri heimspeki sem hefur síðan á 18. öld tíðkast að kalla nýplatonisma. Upphafmaður nýplatonismans var Plótínos en hann kvaðst hafa lært frá Ammóníosi Sakkas. Þá voru ýmsar dylhyggjukenningar prjónaðar saman við kenningar mið-platonismans. Samkvæmt nýplatonismanum trónir hið Eina eða frummynd hins góða (sem er sama verundin) á toppi stigveldis raunveruleikans. Hið Eina — eða veran sjálf — er uppspretta alls sem er og getur af sér, líkt og spegilmynd af sjálfri sér, Hugann (nous) — en Hugurinn geymir heim frummyndanna. Heimssálin er svo eftirmynd Hugans rétt eins og Hugurinn er afurð hins Eina. Heimssálin getur síðan af sér verundir efnisheimsins, sem annars er ekki til. Raunveruleikinn er því ein heild, lifandi og gædd sál. Sálin vill sleppa úr haldi efnisheimsins og snúa aftur til uppruna síns, Hugans.
Nemandi Plótínosar, Porfyríos, og eftirmaður hans, Jamblikkos, þróuðu áfram nýplatonska heimspeki í andstöðu við kristni. Akademían var sett á fót á ný en mikilvægasti stjórnandi hennar bar Próklos (dáinn 485). Akademían starfaði áfram til ársins 529 en þá lét Jústiníanis Rómarkeisari loka henni.
Platonismi hafði áhrif á kristni í gegnum Klemens frá Alexandríu og Origenes og kirkjufeðruna frá Kappadókíu, Basil frá Caesareu, Gregoríos frá Nyssa og Gregoríos frá Nazianzos.[7] Ágústínus frá Hippó var einnig undir miklum áhrifum frá platonisma, einkum í gegnum Marius Victorinus. Platonismi var á miðöldum ríkjandi heimspekistefna. Margar platonskar hugmyndir eru nú rótgrónar í kristinni trú.[8] Kristnir álitu frummyndirnar vera hugsanir guðs og að hið Eina væri guð, líkt og platonistar höfðu haldið fram. Platonismi hafði einnig áhrif á bæði austrna og vestræna dulhyggju, sem og á vestræna og íslamska heimspeki. Aristóteles varð á hinn bóginn áhrifamikill á 13. öld ekki síst í gegnum Tómas af Akvínó sem þó var í mörgum atriðum platonsk. Á 16., 17, og 19., öld höfðu samræður Platons sjálfs mikil áhrif á trúarlega hugsuði á Englandi.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.