From Wikipedia, the free encyclopedia
Miklibær er kirkjustaður og prestssetur í Blönduhlíð í Skagafirði. Elsta heimild um kirkju á Miklabæ er frá 1234, en í Sturlungu segir frá því að þá lét Kolbeinn ungi vega þar Kálf Guttormsson og Guttorm son hans.[1][2]
Miklibær kom töluvert við sögu á Sturlungaöld, einkum í Örlygsstaðabardaga. Þar gisti Sturla Sighvatsson með hluta af liði sínu nóttina fyrir bardagann og þangað flúðu bræður hans, Kolbeinn og Þórður, og leituðu griða í kirkjunni en neyddust að lokum til að koma út og voru þá teknir og höggnir ásamt fleirum.[1]
Þekktasti prestur sem verið hefur á Miklabæ er án efa Oddur Gíslason (1740-1786) sem varð prestur þar 1768. Hann tók sér ráðskonu sem Solveig hét og varð hún ástfangin af honum en hann vildi hana ekki og eftir að hann kvæntist annarri konu 1777 varð Solveig sinnisveik og reyndi hvað eftir annað að fremja sjálfsmorð. Það tókst henni að lokum 11. apríl 1778, er hún skar sig á háls. Hún var jarðsett utan kirkjugarðs eins og þá var gert við þá sem förguðu sér sjálfir. Sagt var að hún gengi aftur. Nokkrum árum seinna, þann 1. október 1786, fór séra Oddur til messugjörðar á Silfrastöðum en skilaði sér aldrei aftur úr þeirri ferð. Miklar þjóðsögur urðu til um hvarf séra Odds og var sagt að Solveig hefði dregið hann og jafnvel hestinn einnig ofan í gröf sína en raunar fannst hesturinn strax morguninn eftir og í bréfi sem skrifað er 1789 kemur fram að lík séra Odds hafði fundist þá um vorið í læknum Gegni fyrir neðan bæinn.[3]
Núverandi kirkju á Miklabæ teiknaði byggingameistarinn Jörundur Pálsson en hún var reist árið 1973 eftir að eldri kirkja brann. Í kirkjugarðinum á Miklabæ er leiði Bólu-Hjálmars Jónssonar og Guðnýjar konu hans.[1]
Gottskálk Þorvaldsson (1741-1806), faðir Bertels Thorvaldsen myndhöggvara, var prestssonur frá Miklabæ.[4]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.