From Wikipedia, the free encyclopedia
Áhættubréf (hávaxtaskuldabréf eða ruslskuldabréf) er skuldabréf sem lánshæfismatsfyrirtæki meta í lágum fjárfestingarflokki. Þessi skuldabréf hafa meiri áhættu á vanskilum en gefa hærri ávöxtun en venjuleg skuldabréf til að vega upp á móti aukinni áhættu.
Til eru margar gerðir Skuldabréfa sem virka á misjafnan hátt. Þegar einstaklingar taka lán fá þeir skjal í hendurnar sem staðfestir að lán hafi verið tekið með samþykki um að lánið verði greitt til baka að fullu. Skuldabréf eru til dæmis gefin út þegar fólk tekur íbúðarlán. Þar kemur fram hversu hátt lánið er, hvað miklir vextir eru á láninu og hversu langur afborgunartíminn er. Einnig eru til ríkisskuldabréf. Ríkið gefur út bréfin og eru þar með að fá lánaðan pening hjá þeim sem kaupa þau. Slík bréf, líkt og önnur skuldabréf, bera vexti, hafa lánstíma og ákveðna lánsupphæð. Þannig virka kaup á ríkisskuldabréfum í raun eins og góð sparnaðarleið sem stendur einstaklingum, fyrirtækjum og jafnvel öðrum ríkjum til boða. Þeir sem fjárfesta í ríkisskuldabréfum lána því í raun ríkinu einhverja ákveðna upphæð og ávaxta hana yfir ákveðinn tíma. Einnig er hægt að kaupa bréf hjá sumum fyrirtækjum sem, líkt og ríkið, lofar að borga umrædda upphæð til baka eftir ákveðin tíma, auk þess sem bréfið hefur ávaxtað. Geta fyrirtækisins til að standa við loforð sitt veltur á lánshæfiseinkunn/áhættumati bréfsins. Hvort fyrirtækið standi í skilum við bréfhafa fer eftir því hvort það hafi tök á að borga skuld sína til baka.[1][2]
Matsfyrirtækið Moody's, ásamt fleirum, sér meðal annars um að meta fjárfestingar á borð við skuldabréf. Þá er vanskilahætta fyrirtækja ákvörðuð með einhvers konar lánshæfiskerfi. Ef útgefandi skuldabréfs borgar ekki á tilskildum tíma hefur það áhrif á lánshæfiseinkunn skuldabréfsins þar sem kerfið er byggt á einmitt þessari áhættu. Lánshæfiseinkunn skuldabréfa eru frá skalanum AAA en það eru bréf sem munu ólíklega fara í vanskil, til „D“ fyrir þau sem munu pottþétt gera það. Áhættubréf, stundum kölluð ruslbréf, hafa einkunnina BB eða lægra.
Áhættubréf draga nafn sitt af því hversu mikil áhætta getur skapast ef verslað er með slík bréf. Sökum mikillar vanskilahættu teljast viðskipti með áhættubréf til spákaupmennsku. Flestir fjárfestar vilja síður kaupa slík bréf en þar sem bréf þessi hafa mjög háa vexti getur það reynst ágætlega. Þrátt fyrir vanskil geta áhættubréf mögulega haldið verðmæti sínu.[3][4]
Áhættubréf urðu vinsælasta fjárfestingin á Wall Street á níunda áratugnum. Þrátt fyrir að áhættubréf hafi verið til lengi þá var það ekki fyrr en um byrjun 9. áratugarins sem þau urðu gríðarlega vinsæl. Og ekki lengi, því eins og sagan segir okkur, þá eru endurteknar bólur og hrun með þessar tegundir bréfa. Aðrar bólur fyrir utan bóluna á 8. áratugnum áttu sér stað á árabilunum 1912 – 1919 og aftur nokkrum árum seinna frá 1928 – 1931. Bólan á áttunda áratugnum var þó sú stærsta, hafði mikil áhirf og lifði lengst, frá 1977 en hrundi tólf árum seinna, árið 1989. Þá má rekja áhættubréf aftur um hundruði ára, allt til 17. aldarinnar.[5]
Michael Miklen vann fyrir fjárfestingarbankann Drexel Burnham Lambert og hann var fljótur að átta sig á gríðarlegum fjárhagsmöguleikum sem kom með rise í áhættubréfum á níunda áratugnum. Hann trúði statt og stöðugt að ávinningur áhættubréfa var meiri en líkurnar á vanskilum og með því að ráðleggja bréfaútgefundum (bond issuers) og fjárfestum að nýta sér þau til fulls, gerði hann bréfin gríðarlega vinsæl.
Milken varð einn af ríkustu mönnum í heimi vegna brasks síns með áhættubréf. Hann var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir innherjaviðskipti og verðbréfafalsanir og þurfti að borga háar skuldir. Milken fékk þá einnig lífstíðarbann frá verðbréfaviðskiptum og hefur síðan þá snúið sér að lyfjarannsóknum og hefur verið kallaður „Maðurinn sem breytti lækningum“.[6]
Þegar kemur að því að fjárfesta í áhættubréfum er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem slíkri fjárfestingu fylgir, sér í lagi ef vanskil eiga sér stað en þá stendur skuldabréfaútgefandinn ekki í skilum og þú færð peningana þína aldrei aftur.
Einnig er mikilvægt að átta sig á því hvað verið er að fara út í vegna þess að áhættubréf eru flókin fyrirbæri sem krefjast sérlega góðrar kunnáttu, einkum þekkingu á sértækri lánshæfni. Þess vegna eru stofnanafjárfestar ráðandi á markaðnum, umfram almenna fjárfesta þrátt fyrir að einstaka auðjöfrar og áhugasamir einstaklingar fjárfesti beint í áhættubréfum. Eini möguleikinn fyrir almenning til að fjárfesta í áhættubréfum er í gegnum svokallaða áhættuskuldabréfasjóði. Með því getur fólk verið öruggt um að það séu sérfræðingar, sem hugsa vel um fjárfestinguna þína sem fylgjast með breytingum á virði áhættubréfa allan liðlangan daginn. Annar kostur áhættuskuldabréfasjóða er sá að fólk dregur úr áhættunni sem það tekur með því að dreifa fjárfestingunum sínum á margar ólíkar fjárfestingar.
Auk þessa er brýnt að fylgjast vel með dreifni ávöxtunar á milli áhættuskuldabréfa og bandarískra ríkisskuldabréfa. Ef litið er til sögunnar eru áhættuskuldabréf með 4-6% hærri ávöxtun en bandarísk ríkisskuldabréf. Ef ávöxtunin fer undir 4% er óskynsamlegt að fjárfesta í áhættuskuldabréfinu.[7]
Fátækt hagkerfi og hækkandi vextir geta dregið úr ávöxtun skuldabréfa, ef vextir hækka þá lækkar verð skuldabréfa. Áhættuskuldabréf fylgja vanalega langtíma vöxtum.[8]
Að lokum er mikilvægt að skoða vel grunnvaxtaálag áhættuskuldabréfa. Upplýsingar um það er að finna á netsíðum lánshæfismatsfyrirtækja á borð við Moody's og Standard's and Poor's.[9]
Áðurnefnd fyrirtæki, Moody's og Standard's and Poor's hafa sérstakan hátt á því hvernig þau meta áhættu áhættubréfa en öllum skuldabréfum er skipt í tvo flokka eftir lánshæfi þeirra: Fjárfestingarflokkur og áhættubréf. Fyrirtæki sem eru örugg fjárfesting hafa hátt lánshæfismat á meðan áhættusöm fyrirtæki hafa lágt lánshæfismat.
Moody/'s | Standard and Poor/'s | Flokkur | Áhætta |
---|---|---|---|
Aaa | AAA | Fjárfesting | Minnsta áhætta |
Aa | AA | Fjárfesting | Lítil áhætta |
A | A | Fjárfesting | Lítil áhætta |
Baa | BBB | Fjárfesting | Meðaláhætta |
Ba, B | BB, B | Áhætta/Rusl | Mikil áhætta |
Caa/Ca/C | CCC/CC/C | Áhætta/Rusl | Mest áhætta |
C | D | Áhætta/Rusl | Í vanskilum |
Hér má sjá töflu sem sýnir mismunandi lánshæfismat á skuldabréfum. Skuldabréf í fjárfestingaflokki eru gefin út af lánveitendum sem teljast áhættulitlir eða með meðaláhættu. Skuldabréfin fá þá einkunnina AAA til BBB. Ávöxtun þessara skuldabréfa er yfirleitt ekki mikil en hættan á því að lántakandinn lendi í vanskilum á vaxtagreiðslum lánveitanda er mun minni.
Áhættubréf veita skuldabréfahöfum mun hærri ávöxtun vegna þess að lántakendur hafa yfirleitt enga aðra kosti. Lánshæfismat þeirra er lágt og gerir þeim erfiðara að afla fjár með ódýrum hætti. Áhættubréfum er yfirleitt gefin einkunnin BB/BA eða lægri.[10]
Áhættubréf er hægt að flokka í tvennt. Annars vegar eru það „fallnir englar“ og hins vegar eru það „rísandi stjörnur“. Fallinn engill er skuldabréf sem áður hefur verið örugg fjárfesting með lítilli sem enginni áhættu en hefur síðan fallið niður í stöðu áhættubréfs vegna lélegs/lágs lánshæfismats fyrirtækisins sem gaf út skuldabréfin.
Rísandi stjörnur eru aftur á móti andstæða fallinna engla, skuldabréf frá útgáfufyrirtækjum sem eru með vaxandi/aukið lánshæfismat. Rísandi stjörnur geta verið metnar sem áhættubréf en seinna meir þróast yfir í fjárfestingarflokk.[11]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.