From Wikipedia, the free encyclopedia
Í kenningum Sigmunds Freud eru varnarhættir sjálfsins ferli sem bæla átök milli þaðsins og yfirsjálfsins. Þessir varnarhættir krefjast sálarorku og því meiri eftir því sem togstreitan milli þaðsins og yfirsjálfsins er meiri.[1]
Afneitun (e. denial) er að halda ytri atburðum frá meðvitund. Ef einstaklingurinn á erfitt með að meðhöndla einhverja aðstöðu getur hann notað afneitun til þess einfaldlega að neita tilvist hennar. Einstaklingurinn getur bæði neitað atburði eða þeim tilfinningum sem tengjast honum.[2] Dæmi um afneitun er ef maður sem skuldar pening í banka lætur sem hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af skuldinni og heldur í stað þess áfram að eyða peningum.
Afturhvarf eða bakrás (e. regression) er að hverfa aftur til hegðunar sem einkennist af minni þroska (fyrra þroskastigi). Samkvæmt kenningunni gæti t.d. fullorðinn einstaklingur sem byrjar að sjúga puttann hafa orðið fyrir afturhvarfi til munnstigs.[3][2]
Andhverfing (e. reaction formation) er að breyta óviðunandi hvöt í andstæðu sína. Dæmi um þetta er einstaklingur sem finnur til hvata gagnvart eigin kyni og, í stað þess að viðurkenna þær hvatir, tekur að hata samkynhneigða.[2]
Bæling (e. repression) leitast við að gera óæskilegar hugmyndir, minningar, tilfinningar eða skyndihvatir ómeðvitaðar. Þannig geta sársaukafullar tilfinningar sem skapast af togstreitu milli vellíðunarlögmálsins og veruleikalögmálsins togast niður í dulvitundina. Þar virðast þær gleymdar en geta þó haft áhrif á atferli og sálarlíf.[4][3]
Frávarp (e. projection) er að sjá sínar eigin óviðunandi kenndir í öðrum.[2] Til dæmis gæti gift kona sem langar til að sofa hjá samstarfsmanni sínum farið að fylgjast náið með hegðun eiginmanns síns og sýna afbrýðisemi.
Göfgun (e. sublimation) er umbreyting kynferðislegra eða árásargjarnra eðlisávísana í félagslega samþykkt form. Sálarorkan fær þá útrás í starfsemi sem stjórnast ekki af eðlisávísunum. Til dæmis gæti einstaklingur fengið útrás fyrir árásarhvöt með því að yrkja ljóð. Kenningin segir að göfgun geti fremur en ýmsir aðrir varnarhættir stuðlað að geðheilbrigði.[5][2]
Réttlæting (e. rationalization) er að réttlæta eigin hvatir eða hegðun með því að leita skýringa í öðru fólki eða ytri aðstæðum. Til dæmis gæti nauðgari réttlætt fyrir sér verknaðinn með því að hugsa sem svo að fórnarlambið hafi verið fáklætt og þar með boðið nauðguninni heim.[2]
Samsömun (e. identification) felur í sér að taka upp persónueinkenni annarra til að leysa úr eigin tilfinningalegum vanda.[2]
Tilfærsla (e. displacement) er að beina tilfinningu og viðhorfum að einhverju sem getur þjónað sem staðgengill fyrir annað. Dæmi um það er að sýna reiði gagnvart einstaklingi sem hefur ekki orsakað reiðina, t.d. vegna þess að sá sem reiðin ætti að beinast að er of ógnvekjandi. Maður sem hefur verið skammaður af yfirmanni sínum í vinnunni og sparkar í hundinn þegar hann kemur heim hefur orðið fyrir tilfærslu á tilfinningum sínum.[6][2][7]
Vitsmunavörn (e. intellectualization) er að skapa sér fjarlægð frá erfiðleikum með því að meðhöndla þá eins og hvert annað viðfangsefni fyrir vitsmunina. Til dæmis gæti krabbameinssjúkur maður sökkt sér ofan í fræðilegt lesefni um sjúkdóminn.[2]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.