Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Ungtyrkir („Jön Turkler“ á tyrknesku, dregið af „Les Jeunes Turcs“ á frönsku) voru stjórnmálaleg umbótahreyfing í byrjun tuttugustu aldar. Hreyfingin samanstóð af andófsmönnum sem höfðu verið sendir í útlegð frá Tyrkjaveldi, menntamönnum, embættismönnum og herforingjum.[1] Ungtyrkir kölluðu eftir því að einveldi yrði afnumið í Tyrkjaveldi og að stjórnarskrárbundinni ríkisstjórn yrði þess í stað komið á. Árið 1908 leiddu foringjar Ungtyrkja uppreisn gegn alræðisstjórn Abdúl Hamid 2. Tyrkjasoldáns í Ungtyrkjabyltingunni.[2] Með þessari byltingu komu Ungtyrkir á öðru stjórnarskrártímabili Tyrkjaveldis og leyfðu frjálsar fjölflokkakosningar í fyrsta sinn í sögu ríkisins.[3]
Eftir byltinguna árið 1908 byrjaði stjórnmálaflokkur Ungtyrkja, Samstöðu- og framfaranefndin („İttihat ve Terakki Cemiyeti“),[4] að koma á nútímavæðingu og félagsumbótum í Tyrkjaveldi. Ágreiningur fór þó fljótt að myndast innan flokksins og brátt klufu margir frjálslyndari Ungtyrkirnir sig úr honum og mynduðu Frelsis- og samlyndisflokkinn í stjórnarandstöðu. Þeir sem héldu sig í Samstöðu- og framfaranefndinni voru aðallega hlynntir tyrkneskri þjóðernishyggju og aukinni miðstýringu.[5] Eftir valdabaráttu milli flokkanna allt árið 1912 hafði Samstöðu- og framfaranefndin rangt við í þingkosningum til að ná fram kosningasigri. Frelsis- og samlyndisflokkurinn gripu til vopnaðrar uppreisnar í kjölfarið.
Baráttunni milli þessara tveggja fylkinga Ungtyrka lauk í janúar árið 1913 þegar miðstjórn Samstöðu- og framfaranefndarinnar framdi valdarán. Úr valdaráninu varð til einræðisstjórn þremenningabandalags Talaat Pasja innanríkisráðherra, Enver Pasja hermálaráðherra og Djemal Pasja flotamálaráðherra. „Pasjarnir þrír,“ eins og þeir urðu kallaðir, fóru með öll völd í Tyrkjaveldi frá árinu 1913 til 1918. Á þeim tíma komu þeir á nánu samstarfi við þýska keisaradæmið og gengu að endingu í bandalag við Þjóðverja gegn bandamönnum í fyrri heimsstyrjöldinni[6] Á meðan Tyrkjaveldi barðist í styrjöldinni stóð stjórn pasjanna þriggja einnig fyrir þjóðarmorði Tyrkja á Armenum.[7] Eftir ósigur Tyrkja í stríðinu byrjaði baráttan milli fylkinga Ungtyrkja á ný. Frelsis- og samlyndisflokkurinn náði aftur höldum á ríkisstjórn Tyrkjaveldisins og neyddi pasjana þrjá til að flýja land. Frelsis- og samlyndisstjórnin var þó stuttlíf því Tyrkjaveldi hrundi stuttu síðar.
Hugtakið „Ungtyrki“ er í dag notað um „framfarasinna, byltingarmenn eða uppreisnarsama meðlimi í samtökum eða stjórnmálaflokki, sérstaklega þeim sem kalla eftir róttækum umbótum.“ [8] Því eru til ýmsir flokkar í mörgum löndum sem kenna sig við Ungtyrki.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.