From Wikipedia, the free encyclopedia
Stytta af Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni á Arnarhóli í Reykjavík, var hönnuð af Einari Jónssyni myndhöggvara. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavik reisti styttuna og var hún afhjúpuð þann 24. febrúar 1924. Hugmyndir um styttuna, sem er eitt merkasta kennileiti Reykjavíkur, má rekja til miðrar nítjándu aldar.
Ingólfur Arnarson var landnámsmaður frá Noregi. Talið er að hann hafi sest að í Reykjavík nálægt 870. Hann er oftast talinn fyrsti landsnámsmaður Íslands.
Aðdragandinn að gerð þessa líkneskis af Ingólfi Arnarssyni landnámsmanni var mjög langur. Sveinbjörn Hallgrímsson og Magnús Grímsson vöktu fyrstir máls á því um miðja nítjándu öld að reisa þyrfti fyrsta landnámsmanni á Íslandi einhverskonar minnismerki.
Þjóðernisrómantík 19. aldar
Á fyrstu árum sjöunda áratugs nítjándu aldar fór fram talsverð umræða um þjóðararfleifð Íslendinga og hvernig menn skyldu fagna þúsund ára afmæli Íslands byggðar. Í ritinu Þjóðólfi var á árunum 1862-4 talsvert rætt um „Fornmenja og þjóðgripasafn.“ Sú umræða bar sterkan keim þjóðernisrómantíkur Íslendinga á þessum tíma.
Umræða í „Kvöldfélaginu 1860“
Um 1860 var stofnað í Reykjavík félag, sem nefndist „Leikhús andans“ en var seinna kallað „Kvöldfélagið.“ Í félaginu voru margir af fremstu andans mönnum bæjarfélagsins og komu þeir saman vikulega til þess að kappræða, eða flytja erindi um merkileg málefni.
Á félagsfundi þann 10. janúar 1863, hvatti Jón Árnason þjóðsagnasafnari, og þá varaformaður félagsins, menn til að hugleiða hvernig Ingólfs Arnarsonar skyldi minnst, er 1000 ár væri liðin frá því að hann nam land. Vildi hann að félagið hefði forgöngu í þessu máli. Urðu um þetta miklar umræður og ákveðið var að Sigurður málari Guðmundsson skyldi flytja erindi í félaginu um þetta mál, en þeir Jón Þorkelsson rektor og Jón Árnason skyldu gera athugasemdir við tillögur hans.
Halldór Friðriksson skólakennari í Reykjavík hreyfði því í Þjóðólfi, að í tilefni þúsund ára af mæli Íslands byggðar skyldi með fjársamskotum Íslendinga reisa hús í Reykjavík til geymslu menningargripa og fornmenja. Það væri til minningar um landnám Ingólfs og ætti að ljúka fyrir afmælið 1874.
Hugmyndir Sigurðar málara
Árið eftir, eða 12. ágúst 1864, birtist í sama blaði grein undir heitinu „Hugvekjur út af Þúsund ára landnámi Ingólfs og fyrstu byggingu Íslands,“ undirrituð af „Nokkrum Íslendingum“, en talin vera eftir Sigurð málara, þar sem lagt var til, að reisa líkneski af Ingólfi á Austurvelli. Kemur þar fyrst fram hugmyndin um líkneski Ingólfs. Greinarhöfundur vildi ...
Aðgerðir Iðnaðarmannafélagsins 1906
Eftir þetta var oft talað um Ingólfsmyndina, en ekkert varð úr framkvæmdum fyrr en Iðnaðarmannafélagið tók málið að sér. Þann 17. september 1906 flutti Jón Halldórsson málið á fundi. Einar Jónsson, myndhöggvari, var þá kominn á sjónarsviðið sem þekktur listamaður og farinn að gera drög að líkneski Ingólfs. Nefnd var kosin, fé veitt úr félagssjóði og fjáröflun hafin. „En margir voru erfiðleikarnir og þó verst sundurlyndi manna um málið,“ segir í Jólahefti Tímarits iðnaðarmanna árið 1941.
Líkneskið afhjúpað árið 1923
Það var fyrst í janúar 1923, að hafist var handa fyrir alvöru að steypa líkneskið og undirbúa staðinn á Arnarhóli. Og ári síðar eða í 24. febrúar 1924, kl. 3 eftir hádegi var líkneski Ingólfs afhjúpað að viðstöddum miklum mannfjölda. Formaður Iðnaðarmannafélagsins afhenti landsstjórninni það sem gjöf frá Iðnaðarmannafélaginu, en forsætisráðherra þakkaði. Um kvöldið hélt Iðnaðarmannafélagið síðan mikla veislu í húsi sínu.
Höggmyndin er verk Einars Jónassonar (1874 -1954) sem talinn er fyrsti íslenski myndhöggvarinn. Hann nam við Konunglega listaakademíuna í Kaupmannahöfn á árunum 1896-1899 hjá Wilhelm Bissen og Theobald Stein. Einar sýndi fyrst opinberlega verkið Útlagar á Vorsýningunni í Kaupmannahöfn árið 1901 og lagði þar grunninn að íslenskri höggmyndalist. Þjóðernisrómantík skilaði sér inn í verk Einars. Þjóðsagnararfurinn þjóð- og goðsöguleg minni, varð honum innblástur í mörgum verkum. Hann hafnaði gagnrýndi opinberlega klassíska list. Listamanninum bæri fremur að ryðja eigin brautir, þroska frumleika sinn og hugmyndaflug en feta ekki í fótspor annarra. Hugmyndir hans tengdust þýskri táknhyggju (symbolisma) og þróaði Einar myndmál sem birtist í þýðanlegum táknum, persónugervingum og allegóríum.
Enda þótt viðfangsefni Einars væru af hugmyndalegum toga hélt hann sig ævinlega við hlutbundið myndmál sem gerði mönnum auðveldara en ella að nálgast verk hans á eigin forsendum. Fjölmargar afsteypur af höggmyndum Einars prýða Reykjavíkurborg. Auk höggmyndarinnar af Ingólfi Arnarsyni, sem lítur yfir landnámsjörð sína frá Arnarhóli, má þar nefna „Útlaga“ við Hólavallarkirkjugarð (gamla kirkjugarðinn) við Suðurgötu og styttu af sjálfstæðishetju þjóðarinnar, Jóni Sigurðssyni, fyrir framan Alþingishúsið á Austurvelli.
Ingólfsmyndin kostaði á þeim tíma fjörutíu þúsund krónur, sem töldust þá miklir fjármunir. Langmestur hluti þess fjár var greiddur úr sjóði Iðnaðarmannafélagsins. En það eru rúmlega tíu milljónir nýrra króna á raunvirði.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.