Réttindaskrá Bandaríkjanna (enska: The Bill of Rights) var frumvarp sem lagt var fram af James Madison árið 1789 en þar voru lagðar fram breytingartillögur á stjórnarskránni sem hafði verið tekin í notkun árið 1787. Madison sem er talinn til „landsfeðra“ Bandaríkjanna átti stóran þátt í mótun samfélagsins á þessum tíma.

Thumb
Réttindaskrá Bandaríkjanna
(e. The Bill of Rights)
Rituð: árið 1789
Samþykkt: árið 1791
Höfundur: James Madison
Tilgangur: Að efla réttindi einstaklinga gagnvart ríkinu

Réttindaskrá (e. The Bill of Rights USA)

Frumvarpið var hugsað til að bæta réttindi almennings sem þóttu ekki nægilega vel varðveitt í upprunalegu stjórnarskránni, því voru ritaðir viðaukar sem innihéldu mun ýtarlegri útlistun á borgaralegum réttindum. Svo frumvarpið gæti orðið að veruleika og tekið gildi sem viðbót við stjórnarskránna þurfti að fá samþykki 3/4 hluta aðildarríkja Fyrsta sameinaða ríkjaþingsins (e. First United State Congress). Breytingarnar voru síðar samþykktar þar þann 15 desember árið 1791. Með frumvarpinu var öryggi almennings gagnvart ríkinu aukið og vald ríkisins gagnvart borgurum takmarkað verulega.

Uppruni

Þegar hafið var vinnu við að rita réttindaskránna var horft aftur og meðal annars stuðst við Magna Carta frá árinu 1215 og réttindaskrá Englands frá árinu 1689. Þegar stjórnarskráin hafið verið samþykkt höfðu andstæðingar hennar áhyggjur af þeim möguleika að ríkisstjórnin gæti beitt þegna landsins harðræði og þar með gengið á borgaraleg réttindi þeirra. Hafði þar mikið að segja hvernig framkoma Breta hafði verið á byltingartímanum og brot þeirra gegn almenningi í landinu. Nokkur ríki höfðu meðal annars sett það sem skilyrði fyrir undirritun stjórnarskráarinnar að viðauki líkt og réttindaskráin yrði settur.[1] Til að auka enn á mikilvægi þess að réttindaskrá yrði rituð þá hafði Thomas Jefferson skrifað bréf til James Madison þar sem hann lýsti því yfir að réttindaskrá væri eitthvað sem allir einstaklingar ættu rétt á gagnvart ríkisstjórnum hvar sem er í heiminum.[2]

Gagnrýni

Alexander Hamilton gagnrýndi frumvarpið með skrifum sínum í grein bandalagsmanna nr. 84, þar beitti hann meðal annars þeim rökum að með því að tilgreina þau réttindi sem nytu verndar gæti komið upp sú staða að þau réttindi sem ekki væru nefnd myndu ekki vera virt og þar af leiðandi ekki njóta sömu verndar og önnur. Hamilton vildi halda því fram að með stjórnarskránni væri fólk ekki að afsala sér réttindum sínum og því væri í raun ekki nauðsynlegt að bæta réttindaskránni við stjórnarskránna þar sem stjórnarskráin veitti í raun borgaraleg réttindi.[3]

Réttindi almennings

Réttindaskráin er safn tíu greina þar sem tilgreint er um réttindi almennings gagnvart ríkinu en þau eru.

  1. Fyrsta grein kveður á um að Bandaríkjaþingi sé óheimilt að setja lög sem hindra trúfrelsi, málfrelsi, prentfrelsi eða friðsamleg mótmæli.
  2. Önnur grein kveður á um rétt almennings til að eiga vopn.
  3. Þriðja grein verndar almenning frá hermönnum bæði á friðar- og ófriðartímum og að ríkið megi ekki hýsa hermenn á heimilum almennra borgara.
  4. Fjórða grein verndar borgarana fyrir húsleitum og handtöku, og kveður á um að handtökuskipanir eða húsleitarheimildir skuli gefnar út af dómstól, fyrir skuli liggja rökstuddur grunur um tiltekinn glæp.
  5. Fimmta grein tryggir að borgararnir skuli dæmdir af kviðdómi jafningja, nema þegar kemur að málefnum land, sjó eða borgaralegs hers á tímum stríðs. Sömuleiðis að enginn skuli kærður fyrir sama brot tvisvar (e. double jeopardy), ekki megi þvinga menn til að vitna gegn sjálfum sér og að ekki megi svipta menn lífi, frelsi eða eignum án dóms og laga og að séu eignir manna teknar eignarnámi skuli koma réttmætar bætur fyrir.
  6. Sjötta grein tryggir að hver sá sem sætir ákæru í sakamálum eigi rétt á fljótri málsferð fyrir og opnum réttarhöldum. Hinn ákærði eigi rétt á því að vita hver ákæran sé og halda uppi vörnum í eigin máli. Allir eigi rétt á aðstoð lögmanns við vörn sína.
  7. Sjöunda grein kveður á um réttinn til að höfða einkamál fyrir kviðdómi og niðurstöðum kviðdóms skuli ekki áfrýjað til æðra dómsstigs nema í samræmi við hefðir fordæmisréttar (e. Common Law).
  8. Áttunda grein kveður á um að ekki megi krefjast óhóflegar tryggingar í sakamálum, né að leggja megi á óhóflegar sektir, né beita ómanneskjulegum eða grimmúðlegum refsingum.
  9. Níunda grein kveður á um að upptalning réttinda borgaranna í stjórnarskránni sé ekki tæmandi, eða að túlka megi hana þannig að borgararnir njóti ekki réttinda séu þau ekki sérstaklega nefnd í stjórnarskránni.
  10. Tíunda grein takmarkar völd alríkisins við þau völd sem það hefur samkvæmt stjórnarskránni, og að öll völd sem því eru ekki færð í stjórnarskránni tilheyri fylkjunum eða borgurunum.[4]

Tilvísanir

Wikiwand in your browser!

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.

Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.