Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Októberbyltingin var bylting í Rússlandi árið 1917, hluti af hinni stærri rússnesku byltingu.
Hún er kölluð svo vegna þess að hún fór fram í október skv. júlíanska tímatalinu sem þá var í gildi í Rússlandi en samkvæmt gregoríska tímatalinu var dagsetninginn 7. nóvember, og er miðað við þann dag þegar byltingarinnar er minnst. Októberbyltingin var vopnuð uppreisn í Petrograd (núna Sankti Pétursborg) og kom í kjölfar Febrúarbyltingarinnar sem hafði gerst sama ár. Októberbyltingin, steypti af stóli bráðabirgðastjórn Aleksandr Kerenskij og færði völdin í hendur ráða sem var stjórnað af bolsévikum. Í kjölfar byltingarinnar kom fram nýtt stjórnarkerfi byggt á nýjum hugmyndum sem leiddi af sér stofnun Sovétríkjanna.
Um miðja 19. öld náði Rússaveldi undir forystu keisarans fullri stærð en þá tilheyrðu Finnar, Eistar, Lettar, Litháar, Pólverjar og Úkraínumenn ríkinu til vesturs og í austurátt réð keisarinn yfir allri Síberíu, strandhéruðunum við Kyrrahafið sem fengin voru frá Kína, Kákasus, Alaska og landsvæðum í Mið-Asíu. Á aðeins þremur öldum hafði Rússaveldið dreift úr sér frá landsvæðunum í kringum Moskvu og orðið að stærsta ríki heims og stimplað sig í sögunni sem heimsveldi.[1] Þrátt fyrir stærð var staða Rússa sem heimsveldi ekki byggð á nægilega sterkum grunni og kom það best fram í Krímstríðinu 1854-1856 þegar þeir tókust á við stórveldi Vestur-Evrópu, Bretland og Frakkland, og biðu ósigur. Gagnrýnisraddir heima fyrir vildu rekja ósigurinn til vanþróun Rússlands á öllum sviðum og í kjölfarið var hafist handa við verulegar breytingar og umbætur í Rússlandi. Bar þá hæst umbætur á efnahagslífi, samfélagsháttum, skólamálum og aflagningu bændaánauðarinnar sem varð til þess að ýta undir iðnvæðingu en þrátt fyrir það mátti enn heyra óánægjuraddir meðal ungra menntamanna. Meðal þeirra sem þóttu umbætur keisarastjórnarinnar of litlar mátti finna menntamenn sem höfðu stundað nám í Vestur-Evrópu og tileinkað sér frjálslyndar og sósíalískar hugmyndir og þó nokkrir trúðu því að með fræðslu gætu rússneskir bændur byggt upp sósíalískt samfélag. Þessi hugmyndafræði náði hámarki 1881 þegar hópur anarkista myrti Alexander 2. keisara í sprengjutilræði í von um að hvetja til uppreisnar gegn keisarastjórninni. Morðið hafði þveröfug áhrif og í stað uppreisnar uppskáru tilræðismenn lögregluríki þar sem leynilögregla keisarans ógnaði öllum lýðræðissinnum og frjálslyndum öflum. Þrátt fyrir tilraunir keisarans til að kveða niður óánægjuraddir skall á bylting í Rússlandi árið 1905 en upphaf hennar var kröfuganga þar sem krafist var verðlækkunar á matvælum en verð hafði hækkað eftir ósigur Rússa gegn Japönum sama ár. Byltingin árið 1905 er oftar en ekki kölluð lokaæfing fyrir byltinguna 1917.[2]
Árið 1917 er mest litað af tveimur byltingum, febrúarbyltingunni og októberbyltingunni, en landið hefði beðið mikla hnekki af stríðsrekstri í fyrri heimstyrjöldinni og óánægjuraddir urðu sífellt háværari og fengu hljómgrunn meðal vaxandi flokks bolsévika sem gerði í því að magna þær upp. Þær náðu svo hámarki þegar röð verkfalla skall á í janúar og febrúar þess árs en á þeim tíma voru meira en 650 þúsund verkamenn víðsvegar um landið búnir að leggja niður vinnu. Um miðjan febrúar tók síðan ástandið að þróast og 26. febrúar breyttist þetta í vopnaða byltingu gegn keisarastjórninni þar sem verkamenn og hermenn tóku höndum saman og snérust gegn stjórn landsins. Í kjölfarið brást Dúman við og myndaði bráðabirgðastjórn undir stjórn Aleksandr Kerenskij sem krafðist afsagnar keisarans og varð Nikulás 2. við kröfu þeirra 2. mars 1917 og við tóku tvær ráðandi hreyfingar uppreisnarsinna undir stjórn bráðabirgðarstjórnarinnar.[3] Þrátt fyrir að keisaraveldinu hafði verið kollvarpað voru ekki öll vandamál Rússa leyst enda var stríðið í vestri enn í fullum gangi og bág kjör bændastéttarinnar urðu að sívaxandi vandamáli. Verkföll voru enn tíð eftir fall keisarans og mikil spenna myndaðist milli bolsévika og stjórnar landsins sem síðar náði hámarki í júlí 1917 þegar tví-stjórn landsins leystist upp (bráðabirgða stjórnin tók alfarið við stjórnartaumunum) og skotið var á friðsamleg mótmæli stuðningsmanna bolsévika, bylting virtist óhjákvæmileg. Sú varð raunin. Þann 10. október 1917 samþykkti miðstjórn bolsévika með 19 atkvæðum gegn 2 undirbúning fyrir vopnaða byltingu í Rússlandi. Það var síðan 25. október að öllum undirbúningi var lokið og vopnuð bylting varð að veruleika. Byltingunni lauk síðan þegar sveitir bolsévika tóku Vetrarhöllina nóttina eftir.[4]
Eftir að miðstjórn bolsévika ákvað 10. október 1917 að nú væri tími fyrir vopnaða byltingu í Rússlandi gekk undirbúningur byltingarinnar mjög fljótt fyrir sig en hann hófst með stofnun hernaðarráðs byltingarsinna. Þetta nýskipaða herráð hóf svo samstarf með miðstjórn bolsévika að skipuleggja og finna þá sem voru viljugir að taka upp vopn með þeim gegn stjórn landsins. Byltingin sjálf hófst síðan 25. október klukkan 1:25 eftir miðnætti í Petrograd (St. Pétursborg) þegar sveitir bolsévika skipaðar sjóliðum, rauðliðum og hermönnum tóku yfir aðalpósthúsið. Klukkan 2:00 tóku sjóliðar og hermenn úr Izmailov herdeildinni yfir Eystrasaltsstöðina og 6. varadeild herverkfræðinga yfir Nikolayev stöðina. Á sama tíma sendi herráð bolsévika fulltrúa í orkuver borgarinnar og samþykkt var að taka rafmagnið af byggingum stjórnarinnar. Klukkan 3:00 tók Keksgol herdeildin yfir aðalsímstöðina og skar á símalínur stjórnarinnar. Klukkan 3:30 lagði Aurora niður akkeri við Nikolayev brúna og undirbjó landgöngu átta þúsund sjóliða frá Helsingfors, Kronstadt og Revel inn í höfuðborgina. Um sex leytið tóku rauðliðar, hermenn og sjóliðar banka í eigu ríksins og skrifstofur aðal dagblaða borgarinnar. Klukkutíma síðar tóku þeir hallarbrúna til að leyfa tundurspillum frá Helsingfors að taka sér stöðu í Hebu gegnt Vetrarhöllinni. Að morgni 25. október höfðu sveitir byltingarsinna mest alla borgina undir sinni stjórn og flestar aðalleiðirnar inn í borgina. Það var síðan klukkan 10 sama morgun að Vladimir Lenín lýsti yfir algjörum sigri byltingarsinna og því að stjórninn væri fallinn. Um 11 leytið skaut Aurora púðurskoti sem merki um allsherjar áhlaup á Vetrarhöllina síðasta vígi bráðabirgða stjórnarinnar. Klukkan 1:50 að morgni 26.október féll Vetrarhöllin án átaka og bráðabirgðastjórnin var handtekin.[5]
Októberbyltingin árið 1917 hafði í för með sér nýtt ríki byggt á nýjum hugmyndum og var strax farið í róttækar breytingar á stjórn landsins þar sem gamla kerfið var skipulagt rifið niður. Nýja kerfið byggðist á ráðum (soviet= rússneska yfir ráð) sem unnu saman með stórum samtökum vinnandi manna til dæmis verkalýðsfélögum. Aðalvaldhafinn var svo Rússneska þing ráðanna.
Markverðar breytingar sem komu í kjölfar hins nýja stjórnarfars voru meðal annars:
Þessar breytingar voru settar á aðeins nokkrum mánuðum eftir októberbyltinguna.[6]
Öll tímatöl sem hér koma fram eru aðlöguð að júlíanska tímatalið en Rússar höfðu á þessum tíma ekki skipt yfir í gregoríska tímatalið sem er víðast notað í dag.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.