Remove ads
enskur stærðfræðingur og eðlisfræðingur (1642-1727) From Wikipedia, the free encyclopedia
Sir Isaac Newton (25. desember 1642 – 20. mars 1727)[a] var enskur stærðfræðingur, eðlisfræðingur, stjarnfræðingur, náttúruspekingur og gullgerðarmaður. Hann bar höfuð og herðar yfir flesta samtímamenn sína og gjörbylti stærðfræði og eðlisfræði 17. aldar. Framlög hans til þessara fræða voru meðal annars örsmæðareikningur, aflfræðin, þyngdarlögmálið, lögmálið um hreyfingu reikistjarna á braut, tvíliðuröðin (binomial series), aðferð Newtons í tölulegri greiningu auk mikilla fræða um lausnir jafna og fleira. Hann var mikilvægur boðberi upplýsingarinnar.
Newton sagðist þola illa gagnrýni og þess vegna birti hann ekki niðurstöður rannsókna sinna fyrr en seint og um síðir og sumar aldrei. Sem dæmi um þetta er sagt að Edmund Halley, sem halastjarna Halleys er kennd við, hafi árið 1684 stungið upp á því við Newton að hann kannaði hvernig það aðdráttarlögmál væri, sem leiddi af sér niðurstöður Keplers um hreyfingar reikistjarnanna. Þá svaraði Newton því til, að þetta væri hann búinn að leiða út fyrir mörgum árum. Það væri lögmálið um andhverfu fjarlægðarinnar í öðru veldi. Halley var undrandi á að Newton skyldi ekki hafa gefið þetta út, og skoraði á hann að birta niðurstöður rannsókna sinna. Newton lét loks af því verða árið 1687, er hann gaf út höfuðrit sitt Philosophiae Naturalis Principia Mathematica. Hin frægu þrjú lögmál Newtons, sem hann setti fram í bókinni, leggja grunninn að klassískri aflfræði, en 2. lögmálið gefur tengsl krafts og hröðunar á þann veg að kraftur sé jafn margfeldi massa og hröðunar, það er . Lögmál Newtons stóðu óhögguð í rúm 200 ár, en afstæðiskenningin sýndi að breyta þurfti þeim þegar fengist var við hluti sem fara með hraða, sem er nærri ljóshraða.
Meint viðkvæmni Newtons fyrir gagnrýni kom líka í veg fyrir að hann birti niðurstöður sínar í örsmæðareikningi þar til eftir að Leibniz hafði gert grein fyrir sínum niðurstöðum. Nú þykir nokkuð víst að Newton gerði uppgötvanir sínar á undan Leibniz, en lokaði þær niðri í skúffu. Leibniz hafði aldrei heyrt um þær getið er hann gerði sínar uppgötvanir fáum árum síðar og birti niðurstöðurnar strax. Þá loks dreif Newton sig í að koma sínum útreikningum á framfæri. Af þessum sökum eru þeir báðir taldir upphafsmenn örsmæðareiknings og er ekki gert upp á milli þeirra hvað það varðar.
Newton smíðaði fyrsta nothæfa spegilsjónaukann og þróaði litafræði með athugunum sínum á því hvernig hvítt ljós brotnar í litróf sýnilegs ljóss þegar það fer gegnum glerstrending. Hann gerði grein fyrir tilraunum sínum með ljós í bókinni Opticks sem kom út árið 1704. Hann setti einnig fram reynslulögmál um kælingu, gerði fyrstu fræðilegu útreikningana á hljóðhraða og setti fram hugmyndina um newtonskan vökva. Auk vinnu sinnar við örsmæðareikning lagði stærðfræðingurinn Newton framlög til rannsókna á veldaröðunum, leiddi tvíliðuregluna út fyrir aðrar tölur en heiltölur, þróaði aðferð til að námunda núllstöðvar falls og flokkaði flesta ferla þriðja stigs margliða.
Newton kenndi við Trinity College og var annar Lucas-prófessor í stærðfræði við Cambridge-háskóla. Hann var kristinn en hafði óhefðbundnar trúarskoðanir og hafnaði í laumi þrenningunni. Hann neitaði að vígjast til ensku biskupakirkjunnar líkt og flestir kennarar við skólann gerðu á þeim tíma. Fyrir utan rannsóknir sínar á sviði stærðfræði fékkst Newton við gullgerðarlist og rannsóknir á tímatali Biblíunnar, en verk hans á þeim sviðum voru ekki gefin út fyrr en löngu eftir að hann lést. Hann var nátengdur Viggum í pólitík og sat tvisvar um stutt skeið á þingi sem þingmaður Cambridge-háskóla, 1689-1690 og 1701-1702. Anna Bretadrottning sló hann til riddara árið 1705. Síðustu þrjá áratugina sem hann lifði bjó hann í London þar sem hann starfaði sem umsjónarmaður (1696-1699) og síðan meistari (1699-1727) Konunglegu myntsláttunnar. Hann var líka forseti Konunglega breska vísindafélagsins 1703 til 1727.
SI-mælieining krafts, njúton, var nefnd í höfuðið á honum.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.