From Wikipedia, the free encyclopedia
Mattíasarklaustrið er þekktur pílagrímsstaður í þýsku borginni Trier. Þar hvílir postulinn Mattías síðan á tímum Rómverja. Þar er einnig að finna flís úr krossi Jesú.
Klaustrið er orðið mjög gamalt, en reglan hófst seint á 5. öld eða snemma á 6. öld. Ekki er vitað hvenær fyrsta klaustrið var reist, en það mun hafa verið áður en Rómverjar yfirgáfu borgina. Helena, móðir Konstantínusar mikla keisara, lét flytja líkamsleifar postulans Mattíasar til Trier og voru þau sett í klaustrið. Mattías tók við postuladómi í stað Júdasar. Í klaustrinu voru einnig ýmsir biskupar í Trier lagðir til hvíldar, þar á meðal Eucharius, en hann var fyrsti biskupinn í Trier og þar með fyrsti biskupinn í Þýskalandi. Snemma á 12. öld var ákveðið að rífa gamla klaustrið og byggja nýtt. Núverandi klaustursbygging var vígð 1148. Helgiskrín Mattíasar var þá sett til sýnis og síðan þá hefur klaustrið verið mikill pílagrímsstaður. Klaustrið skemmdist ekki í neinum stríðum sem hrjáð hafa borgina Trier. En það voru Frakkar sem lokuðu klaustrinu 1802. Þeir létu rífa niður hin ýmsu klaustur. Mattíasarklaustrið fékk þó að standa, þar sem því var breytt í íbúðarhús. Klaustrið var ekki endurstofnað fyrr en 1922. Nasistar lokuðu því hins vegar aftur, en strax 1945 fluttu munkar þangað inn á nýjan leik. Klausturkirkjan er sóknarkirkja í dag.
Postulinn Mattías hvílir í kirkjunni, enda ber hún nafn hans. Í upphafi var kista hans ekki til sýnis. Það var ekki fyrr en núverandi bygging var reist 1148 að steinkista postulans var sett upp til sýnis. Þá hóf fólk að sækja þangað í stórum stíl, en Mattíasarklaustrið var ákaflega vinsæll pílagrímsstaður. Þegar Frakkar lögðu klaustrið niður, var kista Mattíasar sett í grafhvelfingu. Hún var sett upp til sýnis í kórinn þegar klaustrið var endurstofnað. En 2007 var kista Mattíasar sett í grafhvelfinguna á ný. Í kórnum var þess í stað sett upp steingröf og á henni hvílir steinstytta í fullri lengd sem tákna á postulann Mattías. Klausturkirkjan er enn sótt af pílagrímum, en í miklu minni mæli en áður.
Ekki er nákvæmlega vitað hvernig flís úr krossi Jesú barst til Trier, en nokkrar flísar eru um víð og dreif í þýskum kirkjum. Flísin hvílir innan í miklu listaverki sem smíðað var á 13. öld, en fyrir miðju þess er gullkross alsettur gimsteinum. Þar í gullkrossinum hvílir flísin sjálf. Listaverkið og flísin eru til sýnis í leiðsögn um klaustrið.
Fyrirmynd greinarinnar var „Benediktinerabtei St. Matthias“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.