From Wikipedia, the free encyclopedia
James Keir Hardie (15. ágúst 1856 – 26. september 1915) var skoskur verkalýðsleiðtogi og stjórnmálamaður. Hann var einn af stofnendum breska Verkamannaflokksins og var fyrsti þingflokksleiðtogi hans frá 1906 til 1908.
Keir Hardie | |
---|---|
Fæddur | 15. ágúst 1856 |
Dáinn | 26. september 1915 (59 ára) |
Flokkur | Verkamannaflokkurinn |
Maki | Lillias Balfour Wilson (g. 1880) |
Börn | 4 |
Keir Hardie fæddist árið 1856 í Lankarshire. Foreldrar hans voru of fátækir til að geta sent hann í skóla og frá því að hann var tíu ára gamall þurfti hann um skeið að vinna fyrir fjölskyldunni. Foreldrar Hardie fluttu árið 1867 með hann til námubæjarins Newarthill.[1] Hann vann í námum og notaði tómstundir sínar til að lesa og mennta sig. Hardie varð brátt einn af framámönnum í námumannafélaginu og var því á endanum rekinn úr vinnunni.[2] Árið 1886 var Hardie kjörinn ritari námumannafélagsins í Ayrshire og ári síðar varð hann ritstjóri mánaðarritsins The Miner.[1]
Hardie varð þeirrar skoðunar að verkamenn yrðu að hafa eigin fulltrúa á þingi. Á þessum tíma voru flestir þingmenn úr verkalýðsstéttinni meðlimir í Frjálslynda flokknum en Hardie taldi ekki að sá flokkur gæti unnið að hagsmunum verkamanna þar sem hann væri fjármagnaður af auðkýfingum og stórjarðeigendum. Árið 1888 bauð Hardie sig fram á neðri málstofu breska þingsins sem óháður frambjóðandi í kjördæmi í Mið-Lankarshire en náði ekki kjöri.[2]
Hardie bauð sig aftur fram að fjórum árum liðnum með stuðningi námuverkamanna í Ayrshire, í kjördæminu Suðvestur-Ham, og náði í þetta sinn kjöri. Hann var fyrsti óháði þingmaður Bretlands úr verkalýðsstétt. Hardie var vanur að mæta á þingið klæddur í verkamannsföt til að leggja áherslu á að hann væri enn verkamaður og myndi ekki klæðast búningi annarrar stéttar.[2]
Árið 1893 stofnaði Hardie Óháða verkamannaflokkinn ferðaðist um Bretland til að vinna nýja flokknum fylgi. Í þingkosningum Bretlands árið gáfu 27 frambjóðendur flokksins kost á sér en enginn þeirra, þar á meðal Hardie, náði kjöri. Hardie var aftur kjörinn á þing árið 1900 með stuðningi námumanna í Wales og átti eftir að sitja á þingi það sem hann átti eftir ólifað.[2]
Hardie tókst smám saman að fá bresk verkalýðsfélög á sitt band um að verkamenn yrðu að hafa sinn eigin óháðan flokk á þingi með jafnaðarstefnu að leiðarljósi.[2] Afraksturinn varð sá að árið 1899 samþykkti breska verkalýðsráðið að nauðsynlegt væri að fulltrúum verkamanna á þingi fjölgaði og að stofnuð yrði fulltrúanefnd verkalýðsfélaganna. Sú nefnd tók við störfum árið 1900 og það ár er því jafnan talið stofnár breska Verkamannaflokksins.[1] Þegar kosið var á breska þingið árið 1906 náðu 29 fulltrúar flokksins kjöri.[2]
Hardie var ötull stuðningsmaður kosningaréttar kvenna og mótmælti því þegar Verkamannaflokkurinn neitaði að setja málefnið á stefnuskrá sína árið 1906.[3]
Sem þingmaður mæti Hardie gegn hernaði Breta í seinna Búastríðinu kringum aldamótin. Hann talaði jafnframt fyrir hlutleysi Breta í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar. Byrjun stríðsins árið 1914 olli Hardie miklum vonbrigðum þar sem hann hafði vonast til þess að verkalýðshreyfingar um alla Evrópu myndu taka höndum saman og koma í veg fyrir stríð milli þjóðanna með allsherjarverkföllum.[2] Hardie sýktist af lungnabólgu sumarið 1915 og lést þann 26. september sama ár. Aðeins níu árum síðar myndaði Verkamannaflokkurinn fyrstu ríkisstjórn sína.[1]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.