From Wikipedia, the free encyclopedia
Hertogadæmið Mílanó var hertogadæmi undir Heilaga rómverska ríkinu sem stóð á Pósléttunni austan við Monferrato. Það átti landamæri að Savoja í vestri, Sviss í norðri, Feneyjum í austri og Genúu í suðri. Höfuðborg hertogadæmisins var borgin Mílanó.
Hertogadæmið var stofnað árið 1395 þegar Gian Galeazzo Visconti lávarður Mílanó keypti skipunarbréf af Venseslás 4. af Bæheimi fyrir 100.000 flórínur. Skipunarbréfið gerði Visconti að hertoga yfir Mílanó og greifa yfir Pavíu. Hertogadæmið náði yfir 26 bæi, þar á meðal alla þá sem höfðu tekið þátt í Langbarðabandalaginu 1167. Þegar Filippo Maria Visconti lést árið 1447 án karlkyns erfingja var lýst yfir stofnun Gullna Ambrósíusarlýðveldisins. Lýðveldið stóð í þrjú ár en þá giftist málaliðinn Francesco Sforza laundóttur Viscontis og gerðist sjálfur hertogi. Þar með komst Sforza-ættin til valda. Þegar hertoginn af Orléans varð Loðvík 12. Frakkakonungur átti hann tilkall til hertogadæmisins Mílanó í gegnum ömmu sína, Valentinu Visconti. Hann réðist inn í hertogadæmið 1499 og steypti brátt Lodovico Sforza af stóli. Næstu ár börðust Frakkar, Svisslendingar og Austurríkismenn um yfirráð yfir hertogadæminu í Ítalíustríðunum. Að lokum náði Karl 5. keisari völdum og lét son sinn, Filippus, fá það að léni. Frakkar samþykktu yfirráð Spánar með friðarsamningunum í Cateau-Cambrésis árið 1559.
Eftir Spænska erfðastríðið fengu Austurríkismenn hertogadæmið í sinn hlut 1714. Í Frönsku byltingarstríðunum lagði Napoléon Bonaparte það undir sig 1796 og gerði að hluta af Cisalpínska lýðveldinu. Á Vínarþinginu 1814 var hertogadæmið ekki endurreist heldur gert að hluta Konungsríkisins Langbarðalands-Feneyja sem Konungsríkið Ítalía innlimaði árið 1866.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.