From Wikipedia, the free encyclopedia
Brest-Litovsk-samningurinn var friðarsáttmáli sem undirritaður var þann 3. mars 1918 á milli hinnar nýju bolsévikastjórnar Rússlands annars vegar og Miðveldanna (Þýskalands, Austurríki-Ungverjalands, Búlgaríu og Tyrkjaveldis) hins vegar. Samningurinn batt enda á þátttöku Rússa í fyrri heimsstyrjöldinni með algerum ósigri þeirra. Samningurinn var undirritaður í borginni Brest-Litovsk (Brześć Litewski) sem í dag er hluti af Hvíta-Rússlandi. Bolsévikarnir féllust á sáttmálann til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar og Austurríkismenn hertækju enn meira land. Samkvæmt sáttmálanum slitu Rússar jafnframt öllum skuldbindingum sínum við bandamenn sína í stríðinu.
Í sáttmálanum létu Rússar af hendi Eystrasaltsríkin til Þjóðverja, sem ætluðu sér að stofna þar leppríki undir stjórn þýskra aðalsmanna.[1] Rússland lét einnig af hendi héraðið Kars Oblast í Suður-Kákasus til Tyrkja. Samkvæmt sagnfræðingnum Spencer Tucker hafði miðstjórn þýska hersins skrifað upp friðarsáttmála sem var svo strangur gagnvart Rússum að jafnvel samningamanni Þjóðverja var brugðið.[2] Alls glötuðu Rússar með sáttmálanum u.þ.b. fjórðungi þess íbúafjölda sem hafði búið í rússneska keisaradæminu fyrir stríðið og um níu tíundu af kolanámum sínum.[3] Rússum blöskruðu þessir skilmálar en samþykktu þá þó að endingu þar sem bolsévikar höfðu einkum komist til valda með því að lofa að draga sig út úr styrjöldinni og Lenín fannst nauðsynlegt að ná fram friði svo hægt væri að tryggja framgang byltingarinnar innan Rússlands. Auk þess vonuðust margir bolsévikar til þess að kommúnísk heimsbylting væri fyrir handan hornið og því myndi samningurinn ekki endast lengi.
Ekki var minnst á Pólland einu orði í sáttmálanum og Þjóðverjar hunsuðu pólska fulltrúa sem reyndu að sækja fundinn í Brest-Litovsk.[4] Þegar Þjóðverjar kvörtuðu eftir lokaósigur sinn á vesturvígstöðvunum yfir því að Versalasamningurinn væri of strangur í garð þeirra svöruðu bandamenn því að Brest-Litovsk-samningurinn hefði verið enn strangari og því hefðu Þjóðverjar ekkert erindi til að kvarta yfir sínum friðarskilmálum.[5]
Brest-Litosvk samningurinn var í reynd leystur upp í nóvember árið 1918 eftir að Þjóðverjar gáfust upp fyrir bandamönnum.[6] Þjóðverjar afsöluðu sér formlega öllu tilkalli til landsvæðis Sovétríkjanna með Rapallo-sáttmálanum árið 1922.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.