From Wikipedia, the free encyclopedia
Bergþórshvoll er bær í Vestur-Landeyjum sem stendur á vesturbakka Affalls á hæð sem rís hæst í svonefndum Floshóli austan við bæinn. Landið er marflatt en það er mjög víðsýnt þegar staðið er á toppi hólsins. Staðurinn er þekktastur fyrir hlutverk sitt í Íslendingasögunni Brennu-Njáls sögu en þar var heimili hjónanna Njáls og Bergþóru. Vegna sögunnar hafa verið gerðar ýmsar fornleifarannsóknir þar í gegnum tíðina. Bæjarstæðið á Bergþórshvoli er friðlýst.
Sagan á að gerast í kringum aldamótin 1000 og segir frá Njáli Þorgeirssyni, konu hans Bergþóru Skarphéðinsdóttur og sonum þeirra Helga, Grími og Skarphéðni. Sagan snýst um hefndaraðgerðir fram og til baka sem enda í bruna sem á að hafa gerst á Bergþórshvoli árið 1011. Synir Njáls höfðu drepið Höskuld Þráinsson Hvítanessgoða vegna rógburðar Marðar Valgarðssonar, sem leiddi til þess að Flosi Þorgeirsson kom með hundrað manna lið og brenndi Njál og fjölskyldu hans inni. [1].
Bæði fyrr og síðar hefur fólk reynt að átta sig á lýsingum Njáls sögu á brennunni og koma þeim heim og saman við staðhætti á Bergþórshvoli. Eldri rannsóknir (t.d. Kristians Kaalund sem kom þar 1877) miðuð fyrst og fremst að því að skýra atburðarásina eins og henni er lýst í sögunni en seinna fóru fræðimenn að leita að ummerkjum um brennuna sjálfa í bæjarhólnum. Þeir sem hafa gert uppgrefti á Bergþórhvoli eru Sigurður Vigfússon, Matthías Þórðarson og Kristján Eldjárn og Gísli Gestsson.[2]
Sigurður Vigfússon skráði fornleifar á vegum hins Hins íslenska fornleifafélags í lok 19. aldar þegar áhugi á sögustaðafornleifafræði var sem mestur. Rannsóknir hans miðuðu einkum að því að láta fornleifar varpa ljósi á sögurnar. Á Bergþórshvoli las Sigurður í landslagið og bar saman við Njás sögu og taldi sig meðal annars finna Dalinn sem getið er í sögunni. En hann gróf líka nokkra grunna skurði, fyrst 1883 og aftur 1885. Hann fann m.a. brenndar viðarleifar sem honum fannst augljóst að hlyti að koma úr brennunni og leifar af hvítu efi. Sigurður lét gera efnafræðilega rannsókn á hvíta efninu og niðurstaðan var að það væri einhverskonar mjólkumat. Sigurður ályktaði því sem svo að hann hefði fundið skyr Bergþóru[3].
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður (1907-1947) gerði umfangsmikinn uppgröft á Bergþórshvoli 1927, 1928 og 1931. Þegar hann fór að Bergþórhvoli var búið að slétta hólinn og túnið í kring þannig að ekki sást í leifarnar sem höfðu verið á yfirborði þegar Sigurður Vigfússon heimsótti staðinn. Matthías gróf í gegnum margar byggingar, samtals 50 hús eða herbergi sem spanna Íslandssöguna frá víkingaöld til 19. aldar. Við uppgröftinn komu í ljós um 800 gripir. Rannsókn Matthíasar á Bergþórshvoli var án efa langstærsti fornleifauppgröftur sem fram hafði farið á Íslandi til þess tíma og var í fyrsta skipti sem heill bæjarhóll var grafinn upp í heild sinni á öllu Norður Atlantshafssvæðinu. Engu að síður virðast niðurstöðurnar hafa valdið vonbrigðum því Matthías fann engar vísbendingar um að heill bær hafi brunnið og tók aldrei saman skýrslu um rannsóknina. [4]
Árið 1951 grófu Kristján Eldjárn og Gísli Gestsson aftur á Bergþórshvoli. Rannsókn þeirra var gerð í samhengi við fyrirhugaða útgáfu Njáls sögu á vegum Hins íslenska fornritafélags[5]. Þeir grófu á öðrum stað í hólnum en Matthías og fundu þar brunna húsrúst á miklu dýpi. Hún reyndist vera af stóru fjósi með lítilli hlöðu. Í skýrslu um uppgröftinn gerðu þeir einnig grein fyrir helstu niðurstöðum úr rannsókn Matthíasar og er sú samantekt eina fræðilega greinargerðin sem til er um hana[6]. Seinna lét Kristján gera kolefnisaldursgreiningu á sýni úr fjósinu og benti hún til seinni hluta víkingaaldar[7].
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.