Club Atlético de Madrid eða Atlético Madrid er spænskt knattspyrnufélag frá Madríd sem spilar í spænsku úrvalsdeildinni. Atlético Madrid er þriðja sigursælasta félagið í spænskri knattspyrnu með ellefu meistaratitla og tíu bikarmeistaratitla. Félagið hefur í þrígang leikið til úrslita í Meistaradeild Evrópu án þess að ná að vinna og fjórum sinnum unnið sigur í öðrum Evrópukeppnum.
Club Atlético de Madrid | |||
Fullt nafn | Club Atlético de Madrid | ||
Gælunafn/nöfn | indios, Los Colchoneros, Los Rojiblancos | ||
---|---|---|---|
Stytt nafn | Atlético de Madrid | ||
Stofnað | 1903 | ||
Leikvöllur | Wanda Metropolitano | ||
Stærð | 67.703 | ||
Stjórnarformaður | Enrique Cerezo | ||
Knattspyrnustjóri | Diego Simeone | ||
Deild | La Liga | ||
2023-24 | 4. (La Liga) | ||
|
Saga
Stofnun og upphafsár
Atlético Madrid var stofnað 26. apríl árið 1903 af þremur Böskum sem búsettir voru í Madríd. Stofnendurnir litu á félagið sem nokkurs konar Madrídar-deild uppeldisfélags þeirra Athletic Bilbao sem skömmu áður hafði unnið spænsku bikarkeppnina í höfuðborginni. Árið eftir efldist félagið til muna þegar óánægðir félagar í Real Madrid gengu til liðs við það. Félagið tók þegar upp einkennisliti Athletic Bilbao, hvítan og bláan og breytti því síðar í rauðan og hvítan til samræmis við baksneska félagið. Hin nánu tengsl félaganna tveggja voru undirstrikuð í spænsku bikarkeppninni árið 1911 þegar Athletic Bilbao fór með sigur af hólmi með lánsmenn frá Atlético Madrid innanborðs.
Fyrsti heimavöllurinn var Ronda de Vallecas í einu af verkamannahverfunum í sunnanverðri Madrídarborg. Árið 1919 festi Compañía Urbanizadora Metropolitana, sem rak lestakerfi borgarinnar, kaup á landi undir nýjan völl og árið 1921 hóf félagið leik á nýjum heimavelli Estadio Metropolitano de Madrid og rauf þar með tengslin við móðurfélagið Athletic Bilbao. Þetta var heimavöllur Atlético til ársins 1966.
Á hinum nýja velli, sem tók rúmlega 35 þúsund áhorfendur, varð Atlético sigursælt í héraðsmótum í Kastilíu og komst tvívegis í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar á þriðja áratugnum en tapaði í bæði skiptin. Leiktíðina 1928-29 var það eitt af keppnisliðunum þegar Spænska deildarkeppnin fór fram í fyrsta sinn. Árangurinn var þó takmarkaður fyrstu árin.
Atlético og flugherinn (1939-1947)
Eftir spænsku borgarastyrjöldina hófst keppni í La Liga að nýju árið 1939. Spænsk stjórnvöld höfðu lofað sveit lofthersins, Aviación Nacional, sem staðsett var í Zaragoza sæti í keppninni. Þegar til átti að taka reyndist knattspyrnusambandið ekki reiðubúið til að standa við loforðið. Málamiðlunin varð sú að steypa saman vængbrotnu liði Atlético, sem misst hafði fjölda lykilmanna í átökunum og flughersins. Útkoman varð liðið Athletic Aviación de Madrid.
Hið nýja lið fékk úthlutað sæti í La Liga fyrir leiktíðina 1939-40 og keppti þar undir stjórn hins Ricardo Zamora. Félagið vann sinn fyrsta meistaratitil þetta ár og varði hann árið 1941. Að kröfu Francisco Franco, sem var andsnúinn erlendum nafngiftum íþróttafélaga var nafninu breytt í Atlético Aviación de Madrid. Árið 1947 var svo ákveðið að fella hernaðartenginguna úr nafninu og hlaut það þá núverandi heiti sitt, Club Atlético de Madrid. Sama ár bar það helst til tíðinda að Atlético vann 5:0 sigur á nágrönnum sínum í Real og er það enn í dag stærsti sigur þeirra á erkiféndunum.
Í skugga þeirra hvítklæddu (1947-1965)
Undir stjórn Helenio Herrera varð Atlético meistari á ný árin 1950 og 1951, með fransk/marokkóska leikmanninum Larbi Benbarek í broddi fylkingar. Eftir brotthvarf Herrera árið 1953 minnkaði stríðsgæfa félagsins á sama tíma og Real Madrid og Barcelona festu sig í sessi sem tvö sterkustu félagsliðin á meðan Atlético mátti sætta sig við að berjast um þriðja sætið við gamla systurfélagið Athletic Bilbao.
Á sjöunda og áttunda áratugnum efldist Atlético Madrid á nýjan leik og gerði atlögu að stöðu Barcelona sem næstöflugasta félag Spánar. Leiktíðina 1958-59 keppti liðið í Evrópukeppni meistararliða og komst alla leið í undanúrslit, þar sem það tapaði fyrir Real Madrid í oddaleik. Árin 1960 og 1961 kom Atlético fram hefndum með því að sigra erkifjendurna í úrslitum spænska bikarsins í tvígang. Árið 1962 fór liðið svo með sigur af hólmi í Evrópukeppni bikarhafa og komst alla leið í úrslitaleikinn árið eftir.
Meistaratitlar og úrslitaleikur í Brüssel (1965-1980)
Segja má að blómaskeið Atlético hafi fallið saman við drottnunarskeið Real Madrid í sæpnskum fótbolta. Frá 1961-80 varð Real Madrid fjórtán sinnum meistari og var Atlético Madrid í raun eina liðið sem stóð uppi í hárinu á Real með því að vinna fjóra meistaratitla, árin 1966, 1970, 1973 og 1976. Þá hafnaði félagið þrívegis í öðru sæti. Þá varð liðið þrisvar bikarmeistari, 1965, 1972 og 1976.
Á þessum árum tefldi Atlético fram mörgum kunnum spænskum leikmönnum, en einnig voru alþjóðleg tengsl sterk. Má þar nefna austurríska þjálfarann Max Merkel sem stýrði liðinu til bikarmeistaratitils 1972 og meistaratitils árið eftir. Óheppileg ummæli hans utan vallar urðu þó til að kosta Merkel starfið og við af honum tók Argentínumaðurinn Juan Carlos Lorenzo, sem aðhylltist afar varnarsinnaðan en árangursríkan leikstíl sem löngum hefur verið aðalsmerki félagsins. Undir hans stjórn komst Atlético í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða árið 1974, sem fram fór í Brüssel. Mótherjarnir þar voru gríðarsterkt og stjörnuprýtt lið Bayern München. Atlético náði forystu en Vestur-Þjóðverjarnir jöfnuðu í lokin. Í aukaleiknum voru yfirburðir þýska liðsins miklir og lokatölur urðu 4:0.
Skömmu eftir úrslitaleikinn í Brüssel tók Luis Aragonés við þjálfun Atlético í frysta sinn. Hann átti eftir að gegna stöðunni fjórum sinnum á aldarfjórðungs tímabili og varð með tímanum einn áhrifamesti maður í sögu félagsins.
Árin með Aragonés (1974-1987)
Luis Aragonés átti langan feril að baki sem leikmaður Atlético þegar hann var gerður að knattspyrnustjóra, 36 ára að aldri. Hans fyrsti titill vannst þegar á fyrsta ári þegar Bayern München neitaði að taka þátt í keppni Evrópumeistara og Suður-Ameríkumeistara. Atlético lagði argentínska liðið Independiente í tveggja leikja einvígi og varð því heimsmeistari félagsliða í fyrsta og eina sinn.
Hann stýrði Atlético fyrst frá 1974-80 og aftur frá 1982-87. Síðar var hann kallaður til leiks frá 1991-93 og loks frá 2002-03. Undir hans stjórn varð liðið spænskur bikarmeistari og lék til úrslita í Evrópukeppni bikarhafa árið 1986. Árið eftir koms félagið í eigu stjórnmálamannsins og athafnamannsins Jesús Gil sem var við stjórnvölinn til ársins 2003. Gil þótti með afbrigðum litríkur eigandi og varð frægur fyrir að ráða og reka knattspyrnustjóra við minnsta mótlæti, auk þess að blanda sér meira í daglegan rekstur liðsins en eðlilegt þótti.
Utangarðsmenn (1987-2005)
Tíu ár voru liðin frá síðasta meistaratitli Atlético þegar Jesús Gil tók við stjórninni. Nýi eigandinn var staðráðinn í að slást við risana tvo og var litlu til sparað. Þar á meðal var Portúgalinn Paulo Futre fenginn til liðsins fyrir metfé. Þrátt fyrir þetta varð uppskeran einungis tveir bikarmeistaratitlar. Næst meistatitlinum koms Atlético veturinn 1990-91, þar sem liðið varð þó tíu stigum á eftir Barcelona. Ítrekuð vonbrigði urðu til þess að Gil rak hvern stjórann á fætur öðrum og gilti þar einu þótt um kunna kappa væri að ræða á borð við César Luis Menotti, Ron Atkinson, Javier Clemente og sjálfan Luis Aragonés.
Júgóslavinn Radomir Antić stýrði félaginu í þrígang á árunum 1995-2000. Hann kom til liðsins vorið 1995 eftir að hafa vakið mikla athygli sem stjóri Real Oviedo, en þetta ár hafði Atlético átt í vök að verjast og ekki bjargað sér frá falli fyrr en í lokaumferðinni. Antić gerði talsverðar breytingar og tókst að byggja upp harðan kjarna með mönnum á borð við José Francisco Molina og Diego Simeone sem öllum að óvörum hafnaði Spánarmeistaratitlinum strax á fyrsta tímabili og varð liðið einnig bikarmeistari.
Ekki tókst að fylgja eftir þessum góða árangri leiktíðina 1996-97, en Atlético tók í fyrsta sinn þátt í Meistaradeildinni og féll þar út fyrir Ajax Amsterdam í vítaspyrnukeppni í fjórðungsúrslitum. Árið eftir hélt Jesús Gil áfram að eyða stórfé í leikmenn og festi t.d. kaup á Christian Vieri og Juninho. Þegar það bar ekki árangur var Radomir Antić sagt upp störfum.
Þjálfarahringekjan hélt áfram að snúast hratt hjá Atlético þar sem Arrigo Sacchi og Claudio Ranieri endust báðir í fáeina mánuði, auk þess sem Antić var fenginn aftur í skamma stund. Um svipað leyti tóku spænsk yfirvöld félagið til rannsóknar þar sem Jesús Gil var grunaður um að hafa farið á svig við lög og reglur í rekstri félagsins. Vandræðagangurinn náði hámarki sínu árið 2000 þegar Atlético Madrid féll úr efstu deild.
Búist var við að Atlético skytist beint upp í efstu deild á ný, en það tókst þó ekki fyrr en í annarri tilraun og þá undir stjórn gömlu goðsagnarinnar Luis Aragonés sem tók við liðinu í fjórða og síðasta sinn. Í liðinu sem komst aftur upp um deild vakti kornungur og efnilegur framherji, Fernando Torres, talsverða athygli.
Brotist í fremstu röð (2005-2011)
Frá því að Aragonés lét af þjálfun Atlético sumarið 2003 til ársloka 2011 voru níu manns við stjórnvölinn hjá félaginu, lengst allra Mexíkóinn Javier Aguirre frá 2006-09. Þrátt fyrir óstöðugleikann og titlaþurrðina á leikvellinum, voru mikilvæg skref fyrir uppbyggingu félagsins tekin utan hans.
Í júlí 2007 náðu stjórn Atlético og borgaryfirvöld í Madríd samkomulagi um sölu á landinu sem hýsti heimavöll félagsins, Vicente Calderón-leikvanginn, þess í stað mynd Atlético eignast frjálsíþróttaleikvang borgarinnar sem reistur hafði verið snemma á tíunda áratugnum. Ljóst var að ráðast þyrfti í gagngerar endurbætur á leikvangnum og opnaði hann loks árið 2017 undir nýju heiti, Estadio Metropolitano.
Veturinn 2007-08 náði liðið fjórða sæti í spænsku deildinni og komst í Meistaradeildina í fyrsta sinn í rúman áratug. Árið eftir endurtók liðið leikinn og var það ekki hvað síst að þakka markaskorun framherjans Diego Forlán frá Úrúgvæ sem hlaut gullskóinn sem markahæsti leikmaður Evrópu.
Veturinn 2009-10, undir stjórn Quique Sánchez Flores hóf Atlético leik í Meistaradeildinni en færðist síðan yfir í Evrópudeild UEFA þegar kom að 32-liða úrslitum. Fór liðið með sigur af hólmi í keppninni eftir að hafa unnið Liverpool FC í undanúrslitum og Fulham FC í úrslitaleiknum þar sem Diego Forlán gerði sigurmarkið í lok framlengingar.
Undir Simeone (2011-)
Í desember 2011 tók Diego Simeone við stjórn Atlético í kjölfar slaks gengis liðsins í spænsku deildinni mánuðina á undan. Þá um vorið hafði félagið með herkjum komist í Evrópudeildina. Undir stjórn Argentínumannsins vann Atlético keppnina í annað sinn á þremur árum, eftir sigur á Athletic Bilbao í spænskum úrslitaleik. Sigurinn veitti þátttökurétt í Evrópska ofurbikarnum þar sem Atlético vann Inter Milan 4:1.
Vorið 2013 bætti Simeone þriðja titlinum í safnið þegar Atlético sigraði Real Madrid í úrslitaleik spænska bikarsins og var það fyrsti sigur félagsins í borgarslagnum í heil fjórtán ár.
Leiktíðina 2013-14 tókst Atlético að vinna langþráðan meistaratitil, þann fyrsta frá árinu 1996. Viku eftir að titillinn var í höfn lék Atlético til úrslita í Meistaradeildinni í fyrsta sinn frá 1974. Andstæðingarnir voru Real Madrid og var þetta í fyrsta sinn sem tvö lið frá sömu borg mættust í úrslitum. Real hafði betur eftir framlengingu. Tveimur árum síðar mættust liðin á ný í úrslitum sömu keppni og aftur vann Real, í það skiptið eftir vítaspyrnukeppni. Árið 2018 hlaut Atlético sinn þriðja Evróputitil eftir 3:0 sigur á Olympique de Marseille í úrslitum Evrópudeildarinnar.
Vorið 2021 varð Atlético meistari í ellefta sinn eftir æsilega baráttu við Real Madrid, Barcelona og Sevilla sem lauk ekki fyrr en í síðustu umferð.
Leikmannahópur
3.nóvember 2020 Ath: Fánar eru tákn fyrir það þjóðerni sem skráð eru hjá FIFA. Leikmenn gætu haft fleiri en eitt ríkisfang.
|
|
Þjálfarar
Þessir þjálfarar unnu að minnstakosti einn titil sem þjálfarar Atlético Madrid:
Nafn | Tímabil | Titlar |
---|---|---|
Ricardo Zamora | 1939–46 | 2 La Liga, Supercopa de España |
Emilio Vidal | 1946–48 | Copa Presidente FEF |
Helenio Herrera | 1949–53 | 2 La Liga, Supercopa de España |
José Villalonga | 1960–62 | 2 Copa del Rey, Evrópukeppni bikarhafa |
Otto Bumbel | 1964–65 | 1 Copa del Rey |
Domènec Balmanya | 1965–66 | La Liga |
Marcel Domingo | 1969–72, 1979–80 | La Liga |
Max Merkel | 1971–73 | La Liga, Copa del Rey |
Luis Aragonés | 1974–80, 1982–87, 1991–93, 2001–03 | Intercontinental Cup, La Liga, 3 Copas del Rey, Supercopa de España, Iberian Cup, Segunda División |
Tomislav Ivić | 1990–91 | Copa del Rey |
Iselín Santos Ovejero | 1992–93, 1994–95 | Copa del Rey |
Radomir Antić | 1995–98 | La Liga, Copa del Rey |
Javier Aguirre | 2006–09 | UEFA Intertoto Cup |
Quique Flores | 2009–2011 | Evrópukeppni félagsliða,Evrópski ofurbikarinn |
Diego Simeone | 2011– | Evrópukeppni félagsliða, Evrópski ofurbikarinn, Copa del Rey, 2 La Liga, Supercopa de España |
Formenn
|
|
|
Titlar
Innanlands
- La Liga
- Sigrar (11): 1939–40, 1940–41, 1949–50, 1950–51, 1965–66, 1969–70, 1972–73, 1976–77, 1995–96, 2013–14, 2020–21
- Númer tvö (8): 1943–44, 1957–58, 1960–61, 1962–63, 1964–65, 1973–74, 1984–85, 1990–91
- Copa del Rey
- Sigrar (10): 1959–60, 1960–61, 1964–65, 1971–72, 1975–76, 1984–85, 1990–91, 1991–92, 1995–96, 2012–13
- Númer tvö (9): 1921, 1926, 1956, 1963–64, 1974–75, 1986–87, 1998–99, 1999-00, 2009–10
- Supercopa de España
- Sigrar (2): 1985, 2014
- Númer tvö (4): 1991, 1992, 1996, 2013
- Segunda División
- Sigrar (1): 2001–02
- Númer tvö (2): 1932–33, 1933–34
Alþjóðlegar Keppnir
- Meistaradeild Evrópu
- 2.sæti (3): 1973-1974, 2013-2014, 2015-2016
- Evrópukeppni félagsliða
- Sigrar (2): 2009-2010, 2011-2012
- Evrópski ofurbikarinn
- Sigrar (3): 1961-1962, 2010, 2012
- 2.sæti (2): 1962–63, 1985–86, 2014
- HM Félagsliða
- Sigrar (1): 1974
Þekktir fyrrum leikmenn
|
|
|
Wikiwand in your browser!
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.