Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Alþjóðasamband jafnaðarmanna (enska: Socialist International eða SI) er alþjóðasamtök stjórnmálaflokka sem aðhyllast lýðræðislega jafnaðarstefnu.[1] Flestir aðildarflokkar sambandsins eru sósíaldemókrataflokkar, sósíalistaflokkar eða verkamannaflokkar.
Alþjóðasamband jafnaðarmanna | |
---|---|
Ríki þar sem aðildarflokkar SI starfa. | |
Skammstöfun | SI |
Stofnun | 1951 |
Gerð | Alþjóðleg félagasamtök |
Höfuðstöðvar | London, Bretlandi |
Meðlimir | 147 |
Aðalritari | Benedicta Lasi |
Forseti | Pedro Sánchez |
Vefsíða | www.socialistinternational.org |
Alþjóðasambandið var stofnað árið 1951 og var ætlað að taka við af Alþjóðasambandi sósíalískra verkamanna (SAI) en uppruna þess má rekja til síðhluta 19. aldar. Í dag telur sambandið til sín 147 aðildarflokka[2] og stofnanir í rúmlega 100 löndum. Aðildarflokkarnir hafa setið í ríkisstjórn í mörgum löndum, meðal annars flestum löndum Evrópu.
Núverandi aðalritari samtakanna er Benedicta Lasi frá Gana. Forseti sambandsins er Pedro Sánchez, núverandi forsætisráðherra Spánar.[3] Þau voru bæði kjörin a síðasta þingi Alþjóðasambandsins í Madríd á Spáni í nóvember árið 2022.
Alþjóðasamtök verkalýðsins, eða fyrsta alþjóðasambandið, voru fyrstu alþjóðasamtökin sem reyndu að sameina stjórnmálaöfl verkalýðsins þvert á landamæri.[4] Samtökin voru stofnuð þann 28. september árið 1864 að undirlagi sósíalískra, kommúnískra og anarkískra stjórnmálahópa og stéttarfélaga.[5] Togstreita á milli hófsemismanna og byltingarsinna innan samtakanna leiddi til þess að þau voru leyst upp árið 1876 í Philadelphiu.[6]
Annað alþjóðasambandið var stofnað í París þann 14. júlí árið 1889 sem samband sósíalistaflokka.[7] Ágreiningur um fyrri heimsstyrjöldina leiddi til þess að sambandið var leyst upp árið 1916.
Alþjóðanefnd jafnaðarmanna (e. International Socialist Commission eða ISC) var stofnuð á fundi í Bern í febrúar árið 1919 að undirlagi flokka sem vildu endurlífga annað alþjóðasambandið.[8] Í mars árið 1919 stofnuðu kommúnistaflokkar Komintern (Þriðja alþjóðasambandið) á ráðstefnu í Moskvu.[9]
Flokkar sem ekki vildu ganga í ISC eða Komintern stofnuðu með sér Alþjóðasamband lýðsins (sem einnig var kallað Vínarsambandið[10]) á ráðstefnu í Vín þann 27. febrúar 1921.[11] ISC og Vínarsambandið sameinuðust í Alþjóðasamband sósíalískra verkamanna í maí árið 1923 eftir ráðstefnu í Hamborg.[12] Það samband lognaðist út af árið 1940 vegna uppgangs nasisma og byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar.
Alþjóðasamband jafnaðarmanna var stofnað í júlí árið 1951 í Frankfurt til að koma í stað Alþjóðasambands sósíalískra verkamanna.[13]
Á eftirstríðsárunum styrkti Alþjóðasambandið jafnaðarflokka sem þurftu að hasla sér völl á ný þegar fasískt einræði leið undir lok í Portúgal (1974) og á Spáni (1974). Fyrir þing sitt árið 1976 í Genf áttu fáir stjórnmálaflokkar utan Evrópu aðild að Alþjóðasambandinu og sambandið átti engin ítök í Rómönsku Ameríku.[14] Á níunda áratugnum lýstu flestir aðildarflokkar sambandsins yfir stuðningi við Þjóðfrelsisfylkingu sandínista þegar Bandaríkjastjórn reyndi að fella lýðræðislega kjörna vinstristjórn hennar í Níkaragva. Það mál leiddi til Íran-kontrahneykslisins í Bandaríkjunum þegar stjórn Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta hélt áfram í laumi að styðja kontraskæruliða gegn sandínistum þrátt að Bandaríkjaþing hefði lagt bann við því.
Síðla á áttunda áratugnum og í byrjun níunda áratugarins átti Alþjóðasamband jafnaðarmanna í samræðum við leiðtoga risaveldanna tveggja í kalda stríðinu, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, í málefnum varðandi samskipti austurs og vesturs og vopnaeftirlit. Alþjóðasambandið studdi slökunarstefnu og afvopnunarsáttmála á borð við SALT-II, START og INF-samningana. Fulltrúar sambandsins funduðu í Washington, D.C. með Jimmy Carter Bandaríkjaforseta og George Bush varaforseta og í Moskvu með aðalriturunum Leoníd Brezhnev og Míkhaíl Gorbatsjov. Finnski forsætisráðherrann Kalevi Sorsa leiddi sendinefndir sambandsins í þessum viðræðum.[15]
Sambandið hefur upp frá því veitt æ fleiri flokkum frá Afríku, Asíu, Evrópu og Rómönsku Ameríku aðild.
Eftir byltinguna í Túnis árið 2011 var Lýðræðislega stjórnskipunarsamkundan, stjórnarflokkur Ben Ali forseta, rekin úr alþjóðasambandinu.[16] Síðar sama mánuð var Lýðræðisflokkur þjóðarinnar í Egyptalandi einnig rekinn.[17] Alþýðufylking Fílabeinsstrandarinnar var einnig rekin í samræmi við grein 7.1 í lögum sambandsins eftir hrinu ofbeldis á árunum 2010 til 2011.[18] Brottrekstrarnir voru staðfestir á þingi Alþjóðasambandsins í Höfðaborg árið 2012.[19]
Þann 22. maí árið 2013 klufu þýski Jafnaðarmannaflokkurinn og nokkrir fleiri aðildarflokkar sig úr Alþjóðasambandinu og stofnuðu sín eigin alþjóðasamtök jafnaðarflokka undir nafninu Framfarabandalagið. Klofningsflokkarnir bentu á það sem þeir töldu úrelt og ólýðræðislegt skipulag Alþjóðasambandsins[20][21][22][23] og gagnrýndu Alþjóðasambandið jafnframt fyrir að veita ólýðræðislegum stjórnmálahreyfingum aðild.[24][25]
Alþjóðasamband jafnaðarmanna hélt lengi ákveðna fjarlægð frá Rómönsku Ameríku þar sem litið var á álfuna sem áhrifasvæði Bandaríkjanna. Alþjóðasambandið gagnrýndi til dæmis ekki valdaránið í Gvatemala 1954 gegn sósíalíska forsetanum Jacobo Árbenz eða innrás Bandaríkjanna í Dóminíska lýðveldið árið 1965. Það var ekki fyrr en eftir valdaránið í Síle 1973 sem Alþjóðasambandið fór að standa með vinstrihreyfingum í Rómönsku Ameríku. Antoine Blanca, erindreki Alþjóðasambandsins úr franska Sósíalistaflokknum, skrifaði að eftir valdaránið í Síle hafi sambandið uppgötvað „heim sem við þekktum ekki“ og að samstaða með vinstrimönnum í Síle gegn Bandaríkjamönnum hafi verið fyrsta meiriháttar áskorun sambandsins. Sambandið átti síðar, sérstaklega á stjórnartíð François Mitterrand, eftir að styðja sandínista í Níkaragva og aðrar vinstrihreyfingar í El Salvador, Gvatemala og Hondúras í baráttu þeirra gegn hægrisinnuðum einræðisstjórnum sem nutu stuðnings Bandaríkjanna.[26]
Á tíunda áratugnum gengu ýmsir flokkar sem ekki voru sósíalískir í Alþjóðasambandið. Þessir flokkar hrifust af efnahagsstyrk Evrópuríkja þar sem aðildarflokkar sambandsins nutu áhrifa og reiknuðu með því að geta hagnast af aðild. Meðal þessara flokka má nefna Róttæka borgarabandalagið í Argentínu, Byltingarsinnaða stofnanaflokkinn í Mexíkó og Frjálslynda flokkinn í Kólumbíu. Margir vinstriflokkar sem komust til valda í Rómönsku Ameríku á fyrsta áratugi 21. aldar (í Brasilíu, Venesúela, Bólivíu, Ekvador og El Salvador) gengu því aldrei í sambandið.[26]
Alþýðuflokkurinn var aðili að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna frá árinu 1987 þar til hann rann inn í Samfylkinguna árið 2000.[27] Samfylkingin erfði aðild Alþýðuflokksins að alþjóðasambandinu en sagði sig úr sambandinu árið 2017.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.