Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Úlfur Hjörvar (22. apríl 1935 – 9. nóvember 2008) var rithöfundur og þýðandi. Úlfur samdi leikrit, smásögur og ljóð og þýddi skáldsögur, leikrit og ljóð. Úlfur var fyrsti þýðandinn sem fékk inngöngu í Rithöfundasamband Íslands.
Úlfur Hjörvar fæddist í Fjalakettinum við Aðalstræti í Reykjavík. Eftir fjölbreytilegt nám starfaði hann í Alþingi í nokkur ár og var eftir það blaðamaður við Þjóðviljann um skeið, en stundaði líka margháttuð störf önnur til sjós og lands, bæði á Íslandi og í Danmörku.
Úlfur átti á yngri árum þátt í margháttaðri útgáfustarfsemi, kom til að mynda að útgáfu Birtings og var einn af útgefendum bókmenntablaðsins Forspils (1956 – 1957) ásamt þeim Ara Jósefssyni, Atla Heimi Sveinssyni, Degi Sigurðarsyni, Jóhanni Hjálmarssyni, Þorsteini frá Hamri og Þóru E. Björnsson; þá starfaði hann í leikfélaginu Grímu og var framkvæmdastjóri þess um skeið. Sem starfsmaður Samtaka Hernámsandstæðinga átti hann hlut að margskyns menningardagskrám, þar á meðal frumuppfærslu Sóleyjarkvæðis Jóhannesar úr Kötlum við tónlist Péturs Pálssonar. Árin 1961 (september) til 1962 (maí) var Úlfur við nám í alþjóðlegum blaðamannaskóla í Moskvu og ferðaðist eftir það vítt og breytt um Sovétríkin í tvo mánuði; hann ferðaðist líka um Evrópu þvera og endilanga, en auk þess til Austurlanda nær, Bandaríkjanna, Venesúela, (sem fulltrúi á þing ITI), og dvaldi, (tvo mánuði eða lengur), í ýmsum löndum, til að mynda Finnlandi, Búlgaríu, Frakklandi, Spáni, Ítalíu (Sikiley/Róm), Túnis og Nígeríu.
Á árunum 1969 til 1972 og 1992 til 1999 var Úlfur búsettur í Kaupmannahöfn, en frá 1999 og til 2005 í Þórshöfn (Tórshavn) í Færeyjum og þar eftir í Kaupmannahöfn til dauðadags 9. nóvember 2008.
Frá 1967 lagði Úlfur stund á bókmenntaþýðingar og þýddi meðal annar mikið af ljóðum, tugi leikrita og fjölda skáldsagna. Þar á meðal verk eftir Henrik Nordbrandt, Edward Bond, Ernst Bruun Olsen, Georges Schehadé, Ivan Malinowski, Georges Feydeau, Saki, Sam Shephard, William Heinesen, Knut Hamsun, Poul Vad, Nagíb Mahfúz, Toni Morrison, Karen Blixen, Shusaku Endo. Auk þess sem hann skrifaði smásögur og leikrit og orti ljóð, skrifað kvikmyndahandrit og samdi texta fyrir ýmsa myndlistarmenn.
Árið 1977 varð Úlfur félagi í Rithöfundasambandi Íslands, fyrstur þýðenda, og sat í stjórn þess 1981 til 1983. Á því tímabili átti hann frumkvæði að stofnun Bókasambands Íslands, sat í þriggja manna samninganefnd er gerði fyrstu þýðingasamninga RSÍ við FÍB og var fulltrúi RSÍ í fyrstu stjórn Þýðingasjóðs. Hann var fulltrúi sambandsins á alþjóðlegu rithöfundaþingi í Köln sumarið 1982, (”Interlit” ), og um haustið á alþjóðlegu rithöfundaþingi í Búlgaríu.
Hann átti sæti í Menntamálaráði Íslands 1987 – 1991, og jafnframt í stjórn Bókaútgáfu Menningasjóðs, sem á því tímabili sendi frá sér um eitt hundrað bókatitla. Frá árinu 1992 var hann félagi í danska rithöfundasambandinu, DFF, og var meðal annars fulltrúi þess á rithöfundaþingi í Islamabad í Pakistan 1995 og á þingi eistneskra þýðenda í Tallin 1997. Frá 2006 til 2008 sat Úlfur í stjórn Danska þýðendasambandsins (DOF).
Úlfur hlaut verðlaun fyrir hvoru tveggja, leikrit og smásögur. Hann hlaut 3. verðlaun í smásagnasamkeppni Listahátíðar 1986; 2. verðlaun í leikritasamkeppni RÚV 1987 og 1. verðlaun í smásagnasamkeppni Listahátíðar 2000; og 1987 deildi hann starfslaunum RÚV með Gylfa Gíslasyni, myndlistarmanni.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.