Sassanídar
From Wikipedia, the free encyclopedia
From Wikipedia, the free encyclopedia
Sassanídar eða Sassanídaveldið er nafn yfir þriðju írönsku konungsættina eða aðra persnesku konungsættina. Þessi ætt stjórnaði Persíu í 425 ár, frá 226 til 651. Nafnið Sassanídar og Persar er notað jöfnum höndum. Þeir eru nefndir svo vegna forföður ættarinnar sem hét Sassan og var valdamikill klerkur í Persíu. Stjórn Sassanída hófst þegar Ardasjir 1., sem hafði haslað sér völl innan Persíu, sigraði parþneska konunginn Artabanus 4. og batt þar með enda á stjórn Parþa í Íran. Veldi Sassanída endaði árið 651 með innrás íslamskra Araba. Ardashir tók sér titilinn shahanshah eða konungur konunganna (keisara) og gerðu allir eftirmenn hans hið sama. Keisarinn réð yfir fjölda annarra kónga sem hver um sig réð hluta konungdæmisins. Keisararnir voru alls 30 á þessum 425 árum. Sassanídar voru að því leyti öðruvísi en fyrri persneskar stjórnir að þeir hættu að nota grísku eða latínu og tóku upp persnesku sem ríkismál og komu upp sterku miðstýrðu embættismannakerfi.
Erjur Parþa við Rómverja veiktu ríki hinna síðarnefndu svo mikið að það riðaði til falls. Árið 222 lýsti Ardasjir sjálfan sig konung yfir sýslunni Fars. Brátt þandi hann út ríki sitt, en það gat Artabanus Parþakonungur ekki liðið og ætlaði að bæla uppreisn Ardasjirs niður. Það fór ekki betur en svo að Ardashir felldi Artabanus, hertók höfuðborgina Ktesifon árið 226 og lét krýna sig konung yfir allri Persíu. Ardasjir ríkti í fimmtán ár og Persía blómstraði undir stjórn hans. Fyrstu fjögur ár stjórnar hans átti hann talsvert undir högg að sækja hjá parþneskum konungi Armeníu og málaliðum Skýþa, auk Rómverja í vestri og Kúsjana í austri. Ardasjir var harðskeyttur herforingi og náði að reka alla óvini af höndum sér. Hann mótaði stefnu Sassanída og efldi innviði ríkisins, kom upp öflugri miðstjórn með fjölskipuðu embættismannakerfi í valdapýramída. Innan þessa kerfis máttu einungis innfæddir Persar starfa.
Árið 240 lagði Ardasjir niður völd og sonur hans Sjapur tók við völdum. Sjapur 1. gerðist voldugur herkonungur. Hann hélt austur, réðist á ríki Kúsjana og lagði undir sig mikinn hluta landa þeirra. Því næst snéri hann sér að Rómverjum. Hinn 19 ára rómverski keisari Gordíanus 3. sneri vörn í sókn og í fyrstu varð honum nokkuð ágengt. Samkvæmt rómverskum heimildum var Gordíanus veginn af eigin hermönnum en samkvæmt persneskum heimildum var hann veginn af Sjapur 1. Burtséð frá því hvernig hann dó þurfti næsti keisari, Filippus Arabi, að ganga að smánarlegum samningi þar sem hann þurfti að borga Sassanídum 500 þúsund denara auk árlegra skatta. Síðar, er Rómverjar stóðu ekki í skilum, sendi Sjapur son sinn í refsileiðangur. Valeríanus keisari kom á móti með voldugan her, en með svikum og bellibrögðum króaði Sjapur 1. Valeríanus, hershöfðingja hans og 70 þúsund manna lið inni í borginni Edessa. Sumar heimildir herma að Sjapur 1. hafi m.a. notað Valeríanus sem fótaskemil auk annarra niðurlæginga meðan hann var fangi Sjapurs. Sjapur var svo veginn af arabískum úlfaldasveitum sem sátu fyrir honum á leið sinni heim úr herferð um Sýrland árið 272.
Árin eftir dauða Sjapurs 1. einkenndust af átökum um keisaratignina. Keisarar komu og fóru og fæstir sátu mikið lengur en 2-3 ár. Þegar Horsmid 2. dó árið 309 drap aðallinn alla þrjá syni hans og krýndi ófæddan son hjákonu hans konung.
Fyrstu ár Sjapurs 2. stjórnuðu móðir hans og aðallinn ríkinu við góðan orðstír. Þegar Sjapur 2. hafði aldur til tók hann völdin af þeim og sýndi það fljótlega að hann var verkinu vaxinn. Sjapur ríkti til 379 og á þeim fimmtíu árum sem hann stjórnaði ríkinu stóð hann í linnulausum hernaði. Hann safnaði heilögum ritum sóróista og sameinaði öll ritin saman í eina bók, Avesda. Hann lagði blátt bann við kristni og ofsótti kristna sem vildu ekki snúast til ríkistrúarinnar. Undir stjórn Sjapurs stækkaði ríkið enn meira, varð enn ríkara og voldugra en það hafði verið áður. Algengt er að segja að undir stjórn hans hafi ríkt gullöld, því mikill stöðugleiki var innan ríkisins þó stöðug stríð hafi geisað. Á öldinni eftir dauða Sjapurs 2. hnignaði ríkinu hægt og rólega.
Þegar Kavad 1. komst í annað skipti til valda árið 498 er talað um að seinni gullöld Sassanída hefjist. Þessi gullöld hélst tiltölulega óbreytt til 622 þegar mjög tók að halla undan fæti. Þetta tímabil einkenndist af miklum stöðugleika. Þrátt fyrir það stóðu yfir nær stanslaus stríð milli Persa og Rómverja sem Rómverjar reyndu eins og þeir best gátu að kaupa sig frá. Khosraú 1. sonur Kavads stóð í miklum endurbótum í stjórnartíð sinni. Hann endurbætti úrelta stjórnsýslu Sassanída og byggði upp sterkt net skattheimtu innan ríkis síns.
Khosraú 2. átti í miklum styrjöldum við Rómverja og til að byrja með naut hann mikillar velgengni. Fljótlega fór þó að koma þreyta í ríkið. Khosraú lagði hart að hermönnum sínum og jók skattbyrði borgaranna gífurlega. Spilling og óánægja blossaði upp og herinn var orðinn þreyttur. Gagnárásir Rómverja urðu kröftugri um leið og persneski herinn átti í sífellt meiri erfiðleikum með að verjast. Í miðju alls þessa dó Khosraú 2. og borgarastríð blossaði upp. Á næstu fjórum árum voru mannaskipti á valdastóli tíð og vantraust almennings á yfirstéttinni óx. Þegar Arabar, innblásnir af hinni nýju Íslamstrú, réðust á suðurhéruð Persíu náðu Sassanídar ekki að halda uppi vörnum. Loksins þegar öflugur stjórnandi tók við 632 var það orðið of seint. Skaðinn var skeður. Árið 637 hertóku múslimarnir Ktesifon og keisarinn lagði á flótta. Árið 651 var Jasdegerd 3., síðasti konungur Sassanída, myrtur af bónda sem stal veskinu hans.
Rómverjar kölluðu Sassanída barbara en það var svo sannarlega rangnefni. Þeir voru hámenningarleg þjóð sem voru tæknilega framarlega. Rómverjar lærðu margt af þeim, m.a. um hernað.
Þegar Sassanídar komust til valda, var markmið þeirra að endurreisa hið forna persneska konungsveldi. Það var hægara sagt en gert þar sem yfir 500 ár voru liðin frá falli þess. Þegar til kastanna kom, voru þeir einfaldlega of illa upplýstir um menningu hins forna persneska konungsveldis. Niðurstaðan varð sambland af parþneskri og fornpersneskri menningu. Auk þess lifðu sterk hellensk áhrif enn í landinu eftir sigra og hersetu herja Alexanders hins mikla. Konungar Sassanída voru málsvarar lista, menningar og heimspeki og tónlist var þeim hugleikin. Lítið hefur varðveist af ritverkum þeirra, mest vegna þess að herir múslima brenndu háskólann í Gundishapur til grunna og með honum allar helstu ritheimildir Sassanída. Helstu heimildir okkar um menningu þeirra fer því aðallega að finna í fornleifum. Fornir peningar, hergögn, diskar og leirker hafa sagt okkur marga söguna.
Sassanídum var margt til lista lagt. Þeir unnu ýmislegt úr málmi, stunduðu leirkerasmíði, hjuggu út höggmyndir, ófu silki og steyptu mósaíkmyndir. Arkitektúr Sassanída var blanda af parþneskri og rómverskri byggingarlist. Byggingarstíl sinn notuðu þeir til að sýna fram á mikilleika sinn. Byggingarlist Parþa einkenndist einnig af stórum, glæsilegum byggingum en Sassanídar fóru þó langt fram úr þeim hvað varðar stærð og umfang bygginga. Það sést hvað best á höllunum sem einvaldar Sassanída bjuggu í. Eitt frægasta dæmi um sassaníska byggingarlist er hvelfing sem reist var í Ktesiphon. Hún var 40 m há og haf hennar 25 metrar. Þessi smíði hefur valdið undrun og lotningu æ síðan. Hallirnar voru skreyttar öllu því sem dýrast og fegurst var að finna innan hins þekkta heims. Þar má helst nefna margra metra háar mósaíkmyndir og glæsileg málverk.
Ýmsar íþróttir voru stundaðar innan konungsdæmisins og var póló einna vinsælust þeirra. Póló er boltaíþrótt stunduð á hesti og er enn nokkuð vinsæl í Bretlandi og í gömlum nýlendum þess. Á fjórðu öld stofnuðu Sassanídar háskólann Gundishapur, eina helstu menntastofnun heimsins á miðöldum. Til Gundishapur streymdu nemendur og kennarar frá öllum heimshornum hins þekkta heims.
Sassanídar höfðu mikil áhrif á rómverska siðmenningu. Yfirbragð rómverska hersins varð fyrir áhrifum frá persneskum hernaðaraðferðum. Að breyttu breytanda var einræðisstjórnin í Róm viss stæling konunglegu hirðarinnar í Ktesiphon. Þangað sóttu svo miðaldahirðir Evrópu hefðir sínar. Uppruna formlegra samskipta evrópskra erindreka má rekja til diplómatískra samskipta Persa og Rómverja. Notkun þungbrynjaðs riddaraliðs, sem og riddaramennsku í Evrópu á miðöldum má einnig rekja til Sassanída í gegnum Rómverja.
Persía Sassanída var einveldi undir stjórn keisara. Efstur var keisarinn sem hafði úrslitavald og réði öllu sem hann vildi ráða. Síðan var landinu skipt í furstadæmi sem prinsar og aðrir aðilar úr sassanísku keisarafjölskyldunni ríktu yfir, en heyrðu beint undir stjórn keisarans. Undir keisaranum var ráð ýmissa fræðimanna sem ráðlögðu um ákvarðanir og sáu um ýmis mál sem keisarinn hafði ekki áhuga á. Stjórnkerfi Sassanída einkenndist af þó nokkurri miðstýringu, metnaðarfullu borgaskipulagi og framþróun í landbúnaði og tækni. Keisaratignin gekk í erfðir og oftast tók elsti sonur keisara við völdum þegar keisarinn dó.
Her Sassanída var mjög vel skipulagður og agaður. Hershöfðingjar þeirra voru vel menntaðir í hernaðarfræðum og –skipulagi. Sassanídar skrifuðu margar bækur um efni tengd hernaðarfræðum en lítið eða ekkert af því hefur varðveist. Í persneska hernum voru menn af mörgum kynstofnum, bæði frá herteknum löndum sem og erlendir málaliðar. Burðarás Persahers var þungbrynjað riddaralið, sem innihélt persneska aðalsmenn sem höfðu verið þjálfaðir í það frá unga aldri. Auk þeirra voru léttvígari bogliðar á hestum. Aðgangur að þeirri sveit var flestum opinn. Fótgangandi bogmenn og herfílar voru síðan notaðir til að gera riddaraliðinu auðveldara fyrir, meðal annars með því að brjótast gegnum fylkingar óvinarins. Persar höfðu einnig í her sínum léttbrynjað fótgöngulið og náðu frábærum árangri með notkun umsáturvopna í her sínum. Einnig þekktust þess dæmi að þeir notuðu þungbrynjaðri fótgönguliða með mjög góðum árangri.
Ríkistrú Sassanída var sóróismi. Einnig fengu búddatrúarmenn, gyðingar og kristnir að stunda trú sína í ríki Sassanída að mestu óáreittir, en það var þó nokkuð mismunandi eftir konungum. Trú Sassanída var samt ólík því sem Avesta, höfuðtrúarrit sóróista, lagði út frá. Klerkar Sassanída löguðu trúarkenningarnar til þannig þær þjónuðu betur hagsmunum þeirra.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.