From Wikipedia, the free encyclopedia
Höskuldur Þráinsson Hvítanessgoði var sonur Þráins Sigfússonar og Þorgerðar Glúmsdóttur á Grjótá í Fljótshlíð. Telja má hann fæddan nálægt 980 til 985 og dáinn um vorið 1010. Hann var bóndi og goði í Ossabæ í Austur-Landeyjum, kona hans var Hildigunnur Starkaðardóttir frá Svínafelli, bróðurdóttir Flosa Þórðarsonar, goða á Svínafelli. Höskuldur hét eftir langafa sínum, Höskuldi Dala-Kollssyni á Höskuldsstöðum í Laxárdal, sem dó skömmu áður en hann fæddist, og réð Hallgerður langbrók, amma hans, nafninu.
Þegar Höskuldur var barn að aldri drap Skarphéðinn Njálsson Þráin föður hans, við Markarfljót, eftir að hafa stokkið frægasta langstökk Íslandssögunnar yfir ál Markarfljóts á milli höfuðísa. Eftir það var hann í fóstri um hríð hjá föðurbróður sínum, Katli Sigfússyni í Mörk undir Eyjafjöllum og konu hans, Þorgerði Njálsdóttur frá Bergþórshvoli. Hét þá Ketill því að hann skyldi annast hann eins og sinn eigin son og hefna hans ef hann yrði veginn. Er hann var líklega um 10-12 ára aldur bauð Njáll honum til fósturs með sér á Bergþórshvoli og óx hann þar upp við mikið ástríki Njáls og sona hans.
Njáll kenndi honum lög og gerði hann að goða til þess að útvega honum göfugt gjaforð. Mikill samgangur var á milli Höskuldar og Njálssona eftir að Höskuldur fór að búa í Ossabæ og fór vel á með þeim uns rógtungan Mörður Valgarðsson sáði ósætti á milli þeirra, sem varð til þess að Njálssynir, Kári og Mörður sjálfur fóru að Höskuldi og drápu hann er hann vann að sáningu um vorið. Hildigunnur, ekkja Höskuldar, tók skikkjuna sem hann var í og geymdi, þar til Flosi kom að austan. Þá lét hún búa honum öndvegi og steypti síðan yfir hann blóðugri skikkjunni. Þar með var blóð Höskuldar komið yfir hann og hann gat ekki skorast undan því að hefna drápsins. Leiddi þetta til Njálsbrennu. Ketill í Mörk, tengdasonur Njáls, var einn brennumanna vegna heitsins sem hann hafði unnið, að hefna Höskuldar ef hann yrði veginn.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.