Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Honoré de Balzac (20. maí 1799 – 18. ágúst 1850) var franskur rithöfundur. Hann skrifaði sögur í rómantískum anda en vann einnig í leikhúsi og í prentun og skrifaði lista- og bókmenntagagnrýni, ritgerðir og dagblaðagreinar. Hann samdi rúmar níutíu skáldsögur og smásögur frá 1829 til 1855 og er þeim jafnan safnað saman undir titlinum La Comédie humaine (Mannlegi gleðileikurinn).
Ljósmynd af Balzac eftir Louis-Auguste Bisson (1842). | |
Fæddur: | 20. maí 1799 Tours, Indre-et-Loire, Frakklandi |
---|---|
Látinn: | 18. ágúst 1850 (51 árs) París, Frakklandi |
Starf/staða: | Rithöfundur |
Virkur: | 1829–1850 |
Bókmenntastefna: | Raunsæi |
Frumraun: | Cromwell (1820) |
Þekktasta verk: | Mannlegi gleðileikurinn Evgenía Grandet (1833) Faðir Goriot (1835) |
Maki/ar: | Ewelina Hańska (g. 1850) |
Undir áhrifum frá: | Walter Scott |
Var áhrifavaldur: | Karl Marx, Friedrich Engels, Henry James, Gustave Flaubert, Marcel Proust |
Undirskrift: |
Balzac var fremstur meðal franskra skáldsagnahöfunda síns tíma og tók fyrir ýmsa sagnageira í verkum sínum; þ. á m. heimspekiskáldsögur, fantasíur og skáldsögur í bundnu máli. Hann skaraði fram úr öðrum höfundum í raunsæi, sérstaklega í bókunum Faðir Goriot og Eugénie Grandet. Raunsæi hans var þó blandað hugsjónahyggju sem kom sterkt fram fyrir tilstilli sköpunargáfu hans.
Balzac komst svo að máli í formála sínum fyrir Mannlega gleðileikinn að markmið hans væri að skrásetja hinar ýmsu tegundir fólks í samfélagi hans tíma líkt og fræðimenn hefðu skrásett tegundir dýra. Hann hafði fengið þá hugmynd er hann las verk Walter Scott að hann gæti miðlað heimssýn sinni með skáldsögum. Balzac vildi kanna ólíkar samfélagsstéttir og einstaklingana innan þeirra til þess að skrifa „söguna sem jafnvel sagnfræðingar gleyma; sögu hefða“.
Í verkum sínum lýsir Balzac þróun kapítalismans og því hvernig borgarastéttin ruddi úr vegi gamalli aðalsstétt sem ekki tókst að aðlagast breyttum tímum. Stjórnmálaskoðanir hans sjálfs voru óljósar: Að orðinu til var hann konungssinni, hollur einveldi gömlu Búrbónaættarinnar og andsnúinn júlíríki Loðvíks Filippusar Frakkakonungs. Þó hneigðist hann einnig í verki til frjálslyndishugmynda og kom verkamönnum gjarnan til varnar árin 1840 og 1848 þótt hann skrifaði lítið um þá í bókum sínum. Þótt hann hafi sagst vera íhaldssamur voru Karl Marx og Friedrich Engels miklir aðdáendur bóka hans og lásu í þær hugmyndir um stjórnleysishyggju og byltingaranda.
Fyrir utan skáldverk sín fékkst Balzac í senn einnig við blaðamennsku og greinaskrif. Hann var sannfærður um að hlutverk rithöfundarins væri að ríkja yfir hugsun mannanna og barðist því fyrir réttindum rithöfunda og stuðlaði að stofnun stéttarfélags þeirra.
Balzac var ötull rithöfundur og vann sér gjarnan til ólífis. Hann var eyðslusamur, lifði hátt og var stöðugt á flótta undan lánadróttnum sínum. Hann faldi sig gjarnan fyrir þeim með því að nota dulnefni og flytja oft milli húsnæða. Balzac var einnig kvensamur og átti í mörgum ástarsamböndum þar til hann kvæntist loks árið 1850 rússnesku greifynjunni de Hanska, sem hann hafði þá stigið í væng við í um sautján ár. Þar sem ritstörf hans nægðu ekki til að sjá fyrir honum rak Balzac sífellt ýmis misvel heppnuð hliðarverkefni eins og prentsmiðju, dagblað og jafnvel silfurnámu. Hann lést stórskuldugur í setri sínu í París.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.