From Wikipedia, the free encyclopedia
Hannibal Sehested (1609 – 23. september 1666) var ríkisstjóri Noregs og rentumeistari Danakonungs. Hann giftist 6. nóvember 1642 Christiane, dóttur Kristjáns 4. og Kirsten Munk.
Sehested var sonur Claus Maltesen Sehested, hirðstjóra á Eysýslu og fæddist þar í Arensborg (Kuressaare). Þegar faðir hans lést 1612 fylgdi hann móður sinni til Jótlands. Hann gekk í skóla á Sórey og ferðaðist til Englands, Hollands, Frakklands, Þýskalands og Spánar. Hann gerðist síðan hirðmaður konungs og varð meðlimur í danska ríkisráðinu 1640. 1642 var hann gerður að ríkisstjóra Noregs með Akurshús að léni.
Sem ríkisstjóri reyndi Sehested að gera Noreg, og þar með sjálfan sig, eins óháðan Danmörku og hægt var. Hann hófst þegar handa við umbætur á innheimtu skatta, dómskerfinu og landvörnum. Í Torstensonófriðnum (sem í Noregi nefnist Hannibalfeiden) sótti hann tvisvar gegn Gautaborg en varð að snúa aftur í bæði skiptin.
Eftir stríðið hélt hann áfram umbótatilraunum og reyndi að skapa Noregi aukið sjálfræði gagnvart stjórninni í Kaupmannahöfn. Honum tókst að fá leyfi til stofnunar norsks flota með þrjátíu skipum og fékk meira vald til að ráðstafa tekjum konungs af landinu. 1646 samþykkti konungur að hann fengi að halda helming tekna til að standa straum af kostnaði. Hluta fésins nýtti hann til að afla sjálfum sér eigna í Noregi. Þessar aðgerðir öfluðu honum margra óvina í danska ríkisráðinu, einkum í hópnum kringum Corfitz Ulfeldt.
Í nóvember 1647 kom til uppgjörs þar sem Sehested laut í lægra haldi fyrir Ulfeldt, sem fékk það í gegn að norskir hirðstjórar skyldu hér eftir greiða tekjur sínar beint til rentukammersins í Kaupmannahöfn. Þegar Friðrik 3. tók við embætti, gerði Sehested allt sem í hans valdi stóð til að tryggja sér stuðning hins nýja konungs. Enn var mikil andstaða við hann í ríkisráðinu og upp kom kvittur um að ekki væri allt með felldu í reikningshaldi stjórnarinnar í Akurshúsum. Í ágúst 1650 setti Anders Bille fram klögubréf gegn honum og í kjölfarið var reikningshaldið rannsakað. Rannsóknin leiddi í ljós að yfir 90.000 ríkisdali vantaði upp á uppgefnar skatttekjur. Sehested gekkst við ásökununum og bauðst til þess að greiða bætur. Hann missti embætti sitt, öll lén og stöðu sína í ríkisráðinu.
Þrátt fyrir þessar yfirsjónir, fékk Sehested leyfi til að ferðast frá Danmörku, og næstu ár flakkaði hann um Evrópu og reyndi meðal annars að komast í þjónustu Spánar. Vorið 1657 reyndi hann aftur að ná eyrum konungs, vegna Svíastríðsins, en konungur neitaði að veita honum áheyrn. Sumarið 1658, eftir lát Kirsten Munk, hlaut hann aftur náð fyrir augum konungs og var í Kaupmannahöfn þegar Karl 10. Gústaf gekk á land við Korsør. Hann yfirgaf borgina til að sækja konu sína, en var handtekinn af Svíum í Hróarskeldu. Hann reyndi að miðla málum við Carl Gustav, með litlum árangri. Hann sór þá Svíakonungi trúnað. Þessar athafnir hans urðu til þess að honum var vantreyst bæði af Svíum og Dönum, en þó náði hann að koma sér aftur í mjúkinn hjá Friðriki 3. og átti stóran þátt í friðarsamkomulaginu 26. maí 1660.
Þegar einveldið var tekið upp í Danmörku studdi hann konung eindregið í því máli, gegn sínum gömlu fjendum í ríkisráðinu. Að launum hlaut hann stöðu ríkisskattstjóra, sæti í ríkisstjórn og við hæstarétt, auk stöðu í ríkisráðinu. Enn var hann skuldum vafinn og tilraunir konungs til að aðstoða hann fjárhagslega mistókust. Hann áleit bandalag við Frakkland réttu leiðina fyrir Danmörku, móti Christan Rantzau sem vildi bandalag við keisarann. Hann lést í sendiför í París.
Fyrirrennari: Christopher Knudsson Urne |
|
Eftirmaður: Gregers Krabbe |
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.