From Wikipedia, the free encyclopedia
Fjármálakreppan í Asíu var fjármálakreppa sem reið yfir Austur- og Suðaustur-Asíu í júlí 1997. Kreppan olli hruni á hlutabréfamörkuðum og gengi gjaldmiðla í mörgum Asíuríkjum. Hún olli afsögnum Suhartos í Indónesíu og Chavalit Yongchaiyudh í Taílandi. Fjármálakreppan í Rússlandi 1998 og endurheimt sjálfstæðis Austur-Tímor voru óbeinar afleiðingar kreppunnar.
Kreppan hófst í Taílandi þar sem stjórnin neyddist til að fleyta taílenska bahtinu sem áður var bundið Bandaríkjadal vegna skorts á erlendum gjaldeyri. Í kjölfarið hrundi gengi bahtsins. Erlendar skuldir ríkisins gerðu að verkum að Taíland var tæknilega gjaldþrota áður en gengisfellingin átti sér stað. Kreppan breiddist út á undraverðum hraða og var líkt við flensu. Gjaldmiðlar annarra Asíuríkja féllu ásamt hlutabréfamörkuðum og erlendar skuldir jukust hratt sem hlutfall af landsframleiðslu. Indónesía, Suður-Kórea og Taíland urðu verst úti, en kreppan hafði líka áhrif á Hong Kong, Laos, Malasíu og Filippseyjar. Áhrifin urðu minni í Víetnam, Tævan, Brúnei, Alþýðulýðveldinu Kína og Singapúr.
Kreppan varð vatn á myllu vaxandi gagnrýni á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Heimsbankann og hnattvæðingu viðskipta almennt í heiminum. Gjaldeyrissjóðurinn hafði brugðist við með aðstoð til Suður-Kóreu, Taílands og Indónesíu gegn því að löndin drægju úr opinberum framkvæmdum og hækkuðu vexti til að laða að erlent fjármagn. Þegar upp var staðið stóðu þessi lönd síst betur en lönd sem ekki höfðu fengið aðstoð.
Utan Asíu óttuðust margir að fleiri lönd fengju „Asíuflensuna“. Bandarísk fjárfesting í Asíu minnkaði mikið en fjárfesting frá Evrópu jókst. Asíukreppan tengist óbeint fjármálakreppunum sem riðu yfir nýmarkaðslöndin Brasilíu og Argentínu undir lok 10. áratugarins. Kreppan stóð í um tvö ár. Efnahagslíf í Taílandi hafði náð sér að fullu eftir kreppuna árið 2001.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.