borg á Filippseyjum From Wikipedia, the free encyclopedia
Davaó (tagalog: Lungsod ng Dabaw; enska: Davao City) er þriðja stærsta borg Filippseyja með um 1,8 milljónir íbúa og er ört vaxandi.
Innsigli | Myndir |
---|---|
Upplýsingar | |
Borg: | Davaó |
Flatarmál: | 293,58 km² |
Mannfjöldi: | 1.776.000 (2020) |
Þéttleiki byggðar: | 593/km² |
Vefsíða: | Geymt 4 október 2006 í Wayback Machine |
Davaó er hafnarborg við Davaóflóa sunnarlega á eyjunni Mindanaó. Hún er fjölmennasta borgin á eyjunni, en hvað landrými snertir er hún stærsta borg Filippseyja. Fljótið Davaó rennur í gegnum stórborgina. Eldfjallið Apó, hæsta fjall landsins, er aðeins 40 km til vesturs og gnæfir ógnandi í fjarlægð. Sökum þess að borgin er mjög stór að flatarmáli er helmingur hennar græn svæði, bæði skógar og landbúnaðarsvæði. Hitastigið rokkar milli 20 og 32°C. Davaó er utan við leið fellibyjla, þannig að stormar valda þar engum skaða.
Fræðimenn telja að Davaó sé samsett úr orðum þriggja tungumála. Obo-fólkið kallaði fljótið Davoh, Guiangan-fólkið kallaði það Davau og Bagobo-fólkið kallaði það Dabu. Öll þrjú heitin hafa sína ólíku merkingu en samsett fæst úr þeim heitið Davaó.
Svæðið sitthvoru megin við Davaó-fljótið var í höndum innfæddra ættbálka allt fram að á miðja 19. öldina. Spánverjar, sem voru nýlenduherrar í landinu, byggðu upp bæði á Lúson og nærliggjandi eyjum en komu ekki til Davaó fyrr en 1848 er fyrstu hópur landnema settist þar að. Þeir lentu í útistöðum við innfædda ættbálka þar til spænskt herlið kom til staðarins skömmu síðar. Það sigraði höfðingjann Datu Bago og eftir það stóð Spánverjum ekkert í vegi. Þeir reistu bæ sem hlaut heitið Nueva Guipúzcoa, eftir heimabæ herforingjans á Spáni. Síðar var heitinu breytt í Davao City. 1868 komu fyrstu jesúítarnir til Davaó og hófst þá kristniboð hjá innfæddum fyrir alvöru. Þeim var svo ágengt að jafnvel margir múslímar létu skírast.
Skömmu eftir að Bandaríkjamenn urðu nýlenduherrar landsins 1898, fóru margir þeirra að setjast að í Davaó. Þeir endurbættu landbúnaðinn til muna. Þeir komu upp plantekrum þar sem ræktað var gúmmí, hampur og kókoshnetur í stórum stíl. Erfitt reyndist að fá starfsfólk, þannig að þeir réðu vinnufólk frá öðrum eyjum, einnig Japana. Japanarnir komu sér brátt sjálfir upp plantekrum og hófu mikla rækt. Japanskir innflytjendur voru svo margir að í heilu hverfin voru í raun japönsk og voru kölluð Litla Japan. Þar voru japanskir skólar, eigin blaðaútgáfa, shinto-hof og jafnvel eigið sendiráð. Höfnin var endurbætt og var notuð til útflutnings landbúnaðarafurða, bæði til innanlands og til útlanda, svo sem til Bandaríkjanna, Japans og Ástralíu. Borgin stækkaði ört á fyrstu þremur áratugum 20.aldar. Manuel Quezon veitt Davaó formleg borgarréttindi 16. október 1936 og varð hún jafnframt héraðshöfuðborg. Íbúar voru þá orðnir 68 þúsund.
1941 réðust Japanar inn í Filippseyjar og hernámu einnig Davaó. Japanskir íbúar borgarinnar voru þegar orðnir nær 80%. Í borginni var sett upp japönsk herstöð og bækistöðvar yfirmanna hersins. Margir óttuðust Japana, enda stjórnuðu þeir með grimmd. Ástand þetta varaði í fjögur ár. Um vorið 1945 voru Bandarískar hersveitir komnar til Mindanaó. 3. mars komu þær til Davaó, sem var síðasta borgin á Filippseyjum enn undir stjórn Japana. Þar brutust út bardagar, bæði í borginni og á plantekrunum fyrir utan, og tókst Bandaríkjamönnum að hertaka borgina. Japanar höfðu áður eyðilagt hana eins mikið og mögulegt var.
Eftir brotthvarf Japana hrundi íbúatala Davaó. Því fluttu þangað margir frá Lúson og öðrum eyjum, þannig að uppvöxtur borgarinnar hélt áfram. Hún varð að stærstu borg á Mindanaó, ásamt því að vera miðstöð landbúnaðar og efnahags. Ræktun á hampi minnkaði en við tóku harðviður, kókos og bananar. 1967 var hið risavaxna borgarsvæði skipt í þrennt og búnar til þrjár sýslur. Frá 1986 til 2010 var Rodrigo Duterte borgarstjóri í Davaó og setti ótvíræð mark sitt á borgina. 2010 varð dóttir hans, Sara Duterte-Carpio, kosin arftaki hans en hún er fyrsta konan sem gegnir borgarstjórastöðu í Davaó og jafnframt er hún yngsti borgarstjóri borgarinnar (32 ára við kosningu). Síðustu áratugi hefur borgin vaxið mjög. Við síðasta manntal 2010 voru þeir 1,4 milljónir en talið er að þeir sú að komnir yfir 1,6 milljónir 2013.
Í Davaó býr fjöldi þjóðabrota, bæði innlendir og erlendir. Stærsti trúarhópur borgarinnar eru kaþólikkar (80%). Stór hluti menningarbragsins í borginni er því kristinn. Helsta sérhátíð þeirra (fyrir utan jól og páska) er Dabaw-hátíðin, en hún stendur yfir í heila viku. Innfæddir ættflokkar halda sínar eigin hátíðir. Stærst þeirra er sú sem Lumad-fólkið heldur en hún kallast Kadayawan-hátíðin. Það er nokkurs konar þakkargjörð fyrir gjafir náttúrunnar, fyrir hina árlegu uppskeru og fyrir hið einfalda líf. Kínverjar eiga sér kínverskt hverfi (Chinatown) í Davaó. Það er eina slíka á Filippseyjum sem er með eigin höfn. Borgin er með fleiri Japana en nokkur önnur borg á Filippseyjum. Þeir eru hins vegar taldir Filippseyingar í dag. Flestir búa í hverfunum Japantown og Little Tokio.
Davaó viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
Í Davaó er ýmsir áhugaverðir skemmti- og fjölskyldugarðar. Til dæmis arnargarðurinn þar sem filippínski örninn er alinn en hann er eingöngu að finna í Davaó og næsta nágrenni. Þar er einnig krókódílagarður, náttúrugarðurinn Eden, Paradise Island Park, leðurblökuhellir á smáeynni Samal og kóralgarðurinn við sjávarsíðuna.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.