From Wikipedia, the free encyclopedia
Ashraf Marwan (أشرف مروان, 2. febrúar 1944 - 27. júní 2007) var egypskur kaupsýslumaður sem njósnaði fyrir ísraelsku leyniþjónustuna, Mossad, í og fyrir Jom kippúr-stríðið árið 1973 með því að gefa henni upplýsingar um herstarfsemi Egypta.
Marwan var tengdasonur fyrrverandi forseta Egyptalands, Gamal Abdel Nasser, og var náinn aðstoðarmaður Anwar Sadat, sem tók við forsetaembættinu eftir andlát Nasser.[1]
Marwan fæddist inn í fjölskyldu háttsettra embættismanna árið 1944. Hann lærði efnaverkfræði í háskólanum í Kaíró og útskrifaðist þaðan 21 árs gamall. Hann kynntist tilvonandi eiginkonu sinni, Mona Gamal Abdel Nasser, sama ár og þau giftu sig ári síðar. Árið 1968 flutti Marwan með eiginkonu sinni og nýfæddum syni til London þar sem hann fór í mastersnám í efnafræði. Marwan og tengdaföður hans, Gamal Abdel Nasser, kom ekki sérlega vel saman, en Nasser hafði víst meðal annars óbeit á fjárhættuspilum Marwans. [2]
Marwan starfaði við forsetaembættið á árunum 1968 til 1976. Undir Nasser sá Marwan oftast um frekar lítilvæg verkefni, en þegar Nasser lést í september 1970 réði Anwar Sadat Marwan sem náinn aðstoðarmann sinn, til að sýna fram á að hann hefði stuðning frá fjölskyldu Nassers. Marwan var útsendari Sadats og sá um samband Egypta við Sádi-Arabíu og Líbíu.[3]
Marwan hafði aðgang að nánast öllum hernaðarleyndarmálum Egyptalands vegna stöðu sinnar og deildi þessum leyndarmálum með ísraelsku leyniþjónustunni gegn greiðslum. Upplýsingarnar sem Marwan deildi með Ísrael voru meðal annars hernaðaráætlun Egypta í heild sinni, heræfingar egypska hersins, skjöl frá fundum efstu manna innan hersins og frásagnir af fundum Egyptalandsforseta við aðra háttsetta höfðingja Arabaríkja. Háttsettur maður innan ísraelsku leyniþjónustunnar sagði eitt sinn að með því að deila þessum upplýsingum með Ísraelum hafi Marwan gert heimaland sitt, sem Ísrael taldi sinn helsta óvin á þessum tíma, að opinni bók.[4]
Fimmtudaginn 4. október hringdi Marwan í mann að nafni Dubi, sem var umsjónarmaður Marwans innan ísraelsku leyniþjónustunnar, og sagði honum að hann þyrfti nauðsynlega að tala við forstjóra Mossad. Fundurinn átti sér stað kvöldið eftir þar sem Marwan tjáði ísraelskum yfirvöldum að Egyptaland myndi hefja stríð daginn eftir. Vegna þessara upplýsinga gat ísraelski herinn byrjað að undirbúa sig nokkrum klukkutímum áður en stríðið hófst, sem leiddi til þess að Ísrael tapaði mun færri mannslífum og landsvæðum en það hefði gert ef árás Egypta hefði verið óvænt.[5]
Marwan hélt áfram að vinna fyrir Mossad til ársins 1988. Anwar Sadat Egyptalandsforseti var ráðinn af dögum árið 1981 og eftir það flutti Marwan aftur til London og hóf þar feril í viðskiptum. Árið 2002 var leyndarmáli Marwans ljóstrað upp af sagnfræðingnum Ahron Bregman.[2]
Einhverjir hafa haldið því fram að Marwan hafi verið gagnnjósnari, og hafi í raun verið að gefa Ísraelum rangar upplýsingar um hernaðaráætlanir Egypta. Engar sannanir hafa þó fengist fyrir því.
Marwan féll til dauða síns af svölum sínum á 5. hæð þann 27. júní árið 2007. Ekkja hans, Mona Nasser, heldur því staðfastlega fram að hann hafi verið myrtur af útsendurum ísraelsku leyniþjónustunnar. Hún segir Marwan hafa sagt sér stuttu fyrir dauða sinn að einhverjir væru á eftir honum og ætluðu sér að drepa hann. Mona Nasser segir að árið 2003 hafi hún spurt eiginmann sinn um hlutverk hans í Jom kippúr-stríðinu og að hann hafi neitað öllum ásökunum um samstarf sitt við ísraelsku leyniþjónustuna.[6]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.