From Wikipedia, the free encyclopedia
Vestribyggð nefndu Grænlendingar hinir fornu þá byggð sem var í innfjörðum þess sem nú er nefnt Nuuk-hérað. Milli Vestribyggðar og meginbyggðar norrænna manna á Grænlandi, Eystribyggðar, var 600 - 700 km fjarlægð og samkvæmt miðaldaheimildum var talinn sex daga róður byggðanna á milli.
Mun minna er vitað um Vestribyggð en Eystribyggð, engar samtímalýsingar eru til og kemur hún lítt fyrir í Íslendingasögum þeim sem fjalla um Grænlendinga. Einu öruggu nafngiftir sem hægt er að staðsetja eru Lýsufjörður sem nú heitir Ameralik-fjörður en þar var þéttust byggð, kirkjustaðurinn Sandnes innst í Lýsufirði og kirkjustaðurinn Ánavík þar sem nú heitir Ujarassuit innst í núverandi Nuuk-firði.
Fundist hafa rústir af 95 norrænum bæjarstæðum í Vestribyggð, þó sumar hafi kannski fremur verið sel eða önnur útihús. Áætlað er að um 500 íbúar hafi búið í byggðinni þegar fjölmennast var. Fornleifafræðingar hafa gert miklar rannsóknir í Vestribyggð. Þekktasti fundurinn er hinn svokallaði Bærinn undir sandinum (sem í alþjóðaritum er oftast nefndur Gården under sandet - GUS). Þessi bær hefur verið kallaður Pompei Grænlands, enda afar vel varðveittur og þaðan koma helstu heimildir um líf og störf hinna norrænu Grænlendinga. Meðal annars fannst stór vefstofa með mörgum vefstólum þar sem hægt var að vefa klæði upp í 140 cm breidd.
Samkvæmt C-14 aldursgreiningum stóð landnám yfir frá 1000 til 1050 og er það samtímis og landnám í Eystribyggð. Vestribyggð fór þó í eyði fyrr en Eystribyggð, yngstu fornleifafundir eru frá seinni hluta 14. aldar.
Loftslag í Vestribyggð er nánast meginlandsloftslag og ólíkt Eystribyggð, mun kaldara að vetrarlagi og þurr sumur. Lifnaðarhættir hafa verið svipaðir í báðum byggðunum, landbúnaður með sauðfé, geitum, svínum og kúm og svo veiðiskapur. Þó eru fjós mun minni í Vestribyggð, einungis fyrir eina eða tvær kýr (en á stórbæjum í Eystribyggð gátu þau hýst allt að 60 til 100 gripi), sennilega hefur heyskapur verið rýrari og innistöðutími lengri. Einnig er áberandi að íbúar í Vestribyggð veiddu og átu miklu minna af sel og meira af hreindýrum en sunnar í landinu.
Hreindýr (Rangifer tarandus groenlandicus) voru veidd í nágrenninu, enda mjög algeng enn við innfirði Nuuk-héraðs. Mögulegt er að reynt hafi verið að temja hreindýr, við uppgröft á Bænum undir sandinum fannst trépinni sem á var rist mynd af dýri sem taumi hafði verið hnýtt upp í. Dýrið á myndinni er óefað hreindýr.
Selir hafa sennilega verið veiddir við vorgöngur frá Labrador og Nýfundnalandi og ekki á ís eins og inuítar gerðu. Í Vestribyggð voru einkum veiddir vöðuselir (Pagophilus groenlandicus) og landselir (Phoca vitalina) en einnig kampselir (Erignathus barbatus).
En fyrir utan heimaslóðirnar voru mikilvæg veiðisvæði í norðri þar sem nú heitir Diskóflói en sem Grænlendingar hinir fornu nefndu Norðursetu.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.