Remove ads

Textafræði er fræðigrein sem rannsakar texta og tungumál í rituðum heimildum. Upphaflega merkti hugtakið ást (á grísku philo-) á orðum og bókmenntum (á grísku -logia af logos sem þýðir „orð“) og átti við um fræðigreinina sem í dag kallast klassísk textafræði. Innan akademískrar hefðar ýmissa þjóða merkir hugtakið „textafræði“ í víðum skilningi rannsókn á tungumáli og bókmenntum þess og því sögulega og menningarlega samhengi sem þarf til að skilja bókmenntaverk og aðra texta tungumálsins. Þannig felur textafræði í sér rannsókn á málfræði, mælskufræði og sögu tiltekins tungumáls auk þess að fela í sér túlkun á höfundum þess. En svo víður skilningur á hugtakinu er orðinn fremur sjaldgæfur nú um mundir og hugtakið „textafræði“ er einkum farið að merkja rannsókn á textum út frá sjónarhóli sögulegra málvísinda.

Thumb
Upphaf 1. bókar Um sálina eftir Aristóteles á frummálinu (forngrísku) í fræðilegri útgáfu textans. Neðanmáls eru textafræðilegar og handritafræðilegar skýringar í svonefndum apparatus criticus.

Upphaflega var hugtakið notað annars vegar um rannsókn á klassískum textum, þ.e. textum á klassísku málunum grísku og latínu, og hins vegar um rannsóknir á og ritskýringar við biblíuna. Síðar var farið að beita aðferðum textafræðinnar á þjóðtungurnar. Þannig vísar nú íslensk textafræði til textafræðilegra rannsókna á íslenskum textum en klassísk textafræði til textafræðilegra rannsókna á klassískum textum, þ.e. á grísku og latínu.

Klassísk textafræði er ein meginuppistaðan í menntun og þjálfun fornfræðinga.

Remove ads

Undirgreinar textafræðinnar

Samanburðarmálvísindi

Samanburðarmálvísindi eru sameiginleg undirgrein textafræðinnar og málvísinda. Þau rannsaka tengsl á milli ólíkra tungumála. Líkindi á milli sanskrít og evrópskra tungumála uppgötvuðust fyrst á 18. öld og gátu af sér hugleiðingar um tungumál sem væri sameiginlegt foreldri beggja. Nú nefnist það frumindóevrópska. Á 19. öld leiddi áhugi textafræðinga á fornum tungumálum þá til rannsóknar á tungumálum sem þá þóttu „framandi“ vegna þess að talið var að þau gætu aukið skilning okkar á eldri tungumálum.

Samanburður á málfræði og beygingarfræði grísku og latínu hefur aukið þekkingu okkar á sögu og þróun þessara tungumála svo mjög að segja má að við þekkjum gríska og latneska málsögu að vissu leyti betur en fornmenn sjálfir.

Textarýni

Textafræði felur einnig í sér textarýni að nokkru leyti, þ.e. tilraunir til að finna upphaflegan texta fornra höfunda með rannsóknum og samanburði á handritum. Rannsóknir á höfundi textans, ritunartíma hans, og útbreiðslu eru ómissandi fyrir textarýninn en byggja um leið á niðurstöðum textarýninnar.

Oft eru þessi atriði í textafræði og textarýni óaðskiljanleg spurningum um túlkun textans. Þess vegna eru mörkin á milli textafræði og bókmenntasögu og túlkunarfræði oft óljós. Því getur verið erfitt að komast að óhlutdrægri niðurstöðu þegar textinn fjallar um trúarbrögð, stjórnmál eða heimspeki enda veltur þá túlkunin oft að jafnmiklu leyti á þeirri heildarmynd sem við höfum eins og heildarmyndin veltur á einstökum túlkunum.

Remove ads

Ítarefni

  • Bagnall, Roger S., Reading Papyri, Writing Ancient History (London: Routledge, 1995).
  • Dickey, Eleanor, Ancient Greek Scholarship: A Guide to Finding, Reading, and Understanding Scholia, Commentaries, Lexica, and Grammatical Treatises, from Their Beginning to the Byzantine Period (Oxford: Oxford University Press/The American Philological Association, 2007).
  • Renehan, Robert, Greek Textual Criticism. A Reader (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1969).
  • Reynolds, L.D. og N.G. Wilson, Scribes and Scholars: A Guide to the Transmission of Greek & Latin Literature (3. útg.) (Oxford: Oxford University Press, 1991).
Remove ads

Tengt efni

Wikiwand in your browser!

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.

Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.

Remove ads