From Wikipedia, the free encyclopedia
Snjóhús er lítill skáli byggður úr snjó. Á eskimótungumálum heitir snjóhús iglu en það orð á rætur að rekja til orðsins igdlu, sem þýðir „hús“. Bygging á snjóhúsi krefst reynslu en byggja má þau á stuttum tíma ef rétti snjórinn er tiltækur. Hvolfþakið á snjóhúsi er myndað með því að setja saman röð útskorinna snjókubba í spíralmynstri. Flest snjóhús eru með niðurgröfnum inngangsgöngum og snjóbekkjum inni til að sitja eða sofa á. Veggirnir eru þaktir innan með skinnum og vatn, sem frýs í þunnt yfirlag heldur þeim saman og styrkir alla bygginguna. Stundum getur hitastigið inni í snjóhúsi náð allt að 20° í réttum aðstæðum og þar að auki koma snjóhús að miklu gagni í illviðrum. Snjóhús hafa verið notuð um aldir sem bráðabirgðaskýli, en stærri snjóhús hafa Inúítar, bæði á Grænlandi og í Ameríku notað sem íveruhús á vetrum.
Hjá Inúítum var að finna þrjár mismunandi gerðir snjóhúsa sem voru notaðar á mismunandi hátt. Smæstu gerðina notaði fólk sem tímabundið skýli þegar það var á veiðum langt frá næstu mannabyggð. Slíkt snjóhús var aðeins notað í einn eða tvo daga. Stærri gerð gat hýst eina eða tvær fjölskyldur til lengri tíma. Þau snjóhús voru oftast reist mörg saman í eins konar litlum þorpum. Stærsta gerðin var svo tímabundnar byggingar sem voru notaðar fyrir sérstaka atburði, veislur, dansa og samkomur af öðru tagi. Oftast voru þau gerð úr nokkrum samtengdum rýmum.
Snjórinn sem er notaður við byggingu snjóhúss á að vera nægilega samanbarinn til að hægt sé að skera hann í kubba og að þeir haldist saman í spíralmynstrinu. Hentugasti snjórinn er sá sem myndast hefur í skafrenningi, því sá er oft samþjappaður og endingargóður því snjókristallarnir krækjast saman. Einnig þarf að vera nóg loft í snjónum til þess að hann einangri húsið frá kuldanum úti. Holan sem verður til þegar snjókubbarnir eru skornir upp er notuð sem grunnur fyrir húsið. Niðurgrafinn inngangur tryggir að kalt loft sogist ekki inn í húsið og að hlýtt loft komist ekki út. Stundum er þunn ísrúða sett í vegg sem eins konar gluggi.
Meginreglurnar á bak við byggingu snjóhúsa eru þaulhugsaðar. Snjóhúsið er byggt með því að raða æ smærri snjókubbum saman í spíral sem heldur sjálfum sér uppi og, þegar byggingu er lokið, stenst vel utanaðkomandi álag. Til dæmis getur hvolfþakið haldið uppi þunga einnar manneskju án þess að hrynja. Þegar hiti er kominn í húsið bráðnar ísinn á veggjunum að innanverðu, en frýs svo aftur í þunnt yfirlag, sem styrkir alla bygginguna.
Snjóskýli eru svipuð snjóhúsum og eru grafin inn í stóra snjóskafla sem skafið hefur í, en þau eru ekki eins sterk og snjóhús.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.