Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Peter Sellers (fæddur Richard Henry Sellers; 8. september 1925 – 24. júlí 1980) var enskur leikari sem sló fyrst í gegn, ásamt Spike Milligan og Harry Secombe, í gamanþáttaröðinni The Goon Show sem var send út á BBC Home Service frá 1951 til 1960. Á sama tíma lék hann í fjölda enskra gamanmynda. Í sumum þeirra sýndi hann hæfileika til að þróa og leika margar persónur í sömu mynd. Á 7. áratugnum lék hann í nokkrum frægum bandarískum myndum, þar á meðal tveimur myndum eftir Stanley Kubrick: Lolita (1962) og Dr. Strangelove (1964), og hlutverk franska rannsóknarlögreglumannsins Jacques Clouseau í myndaröð Blake Edwards um Bleika pardusinn, sem hann er líklega þekktastur fyrir.
Árið 1964 kynntist hann annarri eiginkonu sinni (af fjórum), sænsku leikkonunni Britt Ekland. Þau skildu fjórum árum síðar. Árið 1968 lék hann í nýrri mynd eftir Edwards, Villt veisla (The Party), og 1970 lék hann í myndinni Hæpinn happafengur (There's a Girl in My Soup) á móti Goldie Hawn sem líka sló í gegn, en næstu myndir hans gengu síður vel. Hann átti endurkomu í þremur Bleika pardusmyndum á 8. áratugnum, þrátt fyrir erfiðleika í sambandi þeirra Edwards og versnandi heilsufar Sellers. Hann fékk sitt annað alvarlega hjartaáfall árið 1977. Árið 1979 lék hann á móti Shirley McLaine í Fram í sviðsljósið (Being There), en fyrir það hlutverk hlaut hann fjölda verðlauna og tilnefningu til Óskarsverðlauna sem leikari í aðalhlutverki. Síðasta myndin sem hann lék í var Fólskubrögð dr. Fu Manchu sem hlaut mun síðri viðtökur. Sellers lést úr hjartaáfalli á hótelinu The Dorchester í London. Þá hafði hann leikið í um 65 kvikmyndum á 30 ára ferli.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.