From Wikipedia, the free encyclopedia
Ljóðstafir skiptast í stuðla og höfuðstafi, og eru svipuð eða eins hljóð í upphafi atkvæða, sem eru endurtekin með reglulegu og taktföstu millibili til þess að tengja eina eða tvær ljóðlínur saman. Það fer eftir lengd ljóðlínu og hrynjandi hvar stuðlar eiga að vera. Stuðlar geta verið einn eða tveir (fer eftir bragarhætti) og standa ávallt saman í línu.
Höfuðstafur er ávallt einn og fylgir vanalega í næstu línu á eftir. Til eru bragarhættir þar sem tveir stuðlar og höfuðstafir eru saman í langri línu, t.d. braghenda og afhending, en þá er seinni hluti línunnar upphaflega ættaður frá stuttri annarri línu sem hefur runnið saman við þá fyrri svo úr verður ein löng.
Braglína skiptist í hákveður og lágkveður. Í venjulegri ferskeytlu er það regla að annar stuðullinn er í þriðju hákveðu. Hinn má vera á hvaða áhersluatkvæði sem er. Þrjú dæmi um mismunandi staðsetningu réttra stuðla í fyrstu braglínu (feitletrað):
Lína er úr ljóði ein ...
Hér er lína úr ljóði stök ...
Þetta er fyrsta lína ljóðs ...
Dæmi um heila, rétt stuðlaða vísu (stuðlar og höfuðstafir feitletraðir):
Það minn uggir þankabás,
það við stuggi mörgum,
að fara í muggu frá Laufás
fram að Skuggabjörgum.
(Gömul vísa úr Höfðahverfi, höfundur óþekktur og fallbeygir Laufás ekki skv. nútímavenju).
Sérhljóðar stuðla hver við annan og stundum líka við „j“ (einkum í fornum kveðskap) en samhljóðar stuðla saman (r-r, l-l o.s.frv.).
Vegna mismunandi framburðar eftir landshlutum þykir mörgum rangt/ljótt að stuðla „hv-“ saman við „kv-“ þótt flestir beri hljóðin eins fram. Þegar orð sem byrja á h- eru látin stuðla saman en næsti stafur á eftir h-inu er ekki sá sami, getur þurft að bera h-ið sérstaklega skýrt fram til að stuðlarnir komi fram í flutningnum. Sú skoðun er til, að slík stuðlasetning sé ljót eða hljómi illa, t.d. að orðin hlakka og hakka stuðli ekki fallega saman, en engin regla er til um það önnur en smekkur fólks.
Um orð sem byrja á „s“ gilda sérstakar reglur, og fer rétt stuðlasetning eftir hljóðunum sem á eftir koma þannig að orðin byrji á sams konar hljóðum. Einkum skiptir máli að sk- stuðlar eingöngu við sk-, sl- bara við sl-, sm- bara við sm-, sn- bara við sn-, sp- við sp- og st- við st-. Þetta kallast gnýstuðlar. Þannig stuðlar orðið „strákur“ við „stelpa“ eða „starf“ en ekki við t.d. „slæpingi“ eða „skíði“.
Til forna voru ljóðstafir notaðir í kveðskap víðsvegar um Norðurlönd, Bretlandseyjar og víðar. Snemma á miðöldum dró úr notkun þeirra og þeir hurfu nánast úr notkun í kveðskap, nema á Íslandi þar sem þeir eru enn notaðir í skáldskap í hefðbundnum stíl. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur rannsakað sögu og þróun stuðlasetningar í 1200 ár, frá norrænum fornkveðskap til íslensks nútímaskáldskapar og skrifað doktorsritgerðina Tólf alda tryggð: Athugun á þróun stuðlasetningar frá elsta þekktum norrænum kveðskap fram til nútímans (Hugvísindastofnun, Reykjavík 2010).
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.