From Wikipedia, the free encyclopedia
Jakob 1. (júlí 1394 – 21. febrúar 1437) var konungur Skotlands frá 4. apríl 1406 til dauðadags. Fyrstu átján ár valdatíma síns var konungurinn þó fangi eða gísl Englandskonungs.
Jakob var sonur hins valdalausa konungs Róberts 3. og konu hans Annabellu Drummond, en alla ríkisstjórnartíð Róberts voru völdin að mestu í höndum bróður hans, hertogans af Albany. Eldri bróðir Jakobs, Davíð hertogi af Rothesey, reyndi að styrkja stöðu sína gegn föðurbróðurnum en Albany hneppti hann þá í varðhald og þar dó hann 1402 og er sagt að hann hafi verið sveltur til bana eða verið myrtur.
Arabella drottning var þá látin og Róbert konungur óttaðist um líf yngri sonar síns. Árið 1406 hugðist hann senda drenginn til Frakklands og láta hann alast þar upp. En enskir sjóræningjar hertóku skipið og fluttu Jakob til Hinriks 4. Englandskonungs. Nokkrum dögum síðar dó Róbert og Jakob varð konungur að nafninu til. Hertoginn af Albany var landstjóri í Skotlandi, réði þar öllu og talaði jafnan um Jakob sem „son konungsins heitins“ en ekki sem konung, enda hafði hann sjálfur augastað á krúnunni. Þegar hann lést tók Murdoch sonur hans við hertogadæminu og landstjórninni.
Jakob naut góðrar meðferðar í fangavistinni í Lundúnaturni og Windsor-kastala og fékk ágæta menntun. Eftir 1419 var hann meðhöndlaður fremur eins og gestur við hirðina en gísl og á árunum 1420-1422 barðist hann með Hinrik 5. og enska hernum í Frakklandi, meðal annars gegn Skotum, sem studdu Frakka. Þegar Hinrik dó í Frakklandi 1422 sneri Jakob aftur til Englands. Hinrik 6. var ekki orðinn árs gamall og forráðamenn hans höfðu lítinn áhuga á að halda Jakob lengur í Englandi en vildu koma honum í skoska hásætið. Einnig höfðu tekist ástir með honum og Jóhönnu Beaufort, dóttur hertogans af Somerset og frænku Hinriks konungs, og þótti ættingjum hennar mikilsvert að þau gætu gifst og hún yrði drottning. Þótt hertoginn af Albany væri tregur að sleppa völdum átti Jakob öfluga bandamenn í Skotlandi, en þar á meðal var annar föðurbróðir hans, jarlinn af Atholl. Á endanum var samið um lausnargjald fyrir konunginn - en heimanmundur Jóhönnu gekk upp í það að hluta — og hann gat gifst og snúið heim.
Konungshjónin komu til Skotlands í apríl 1424. Komu þeirra var ekki fagnað mikið því margir treystu ekki konunginum vegna stuðnings hans við Englendinga í Hundrað ára stríðinu, auk þess sem lausnargjaldið sem greitt var fyrir hann jók skattbyrði manna. Konungurinn þótti þó koma vel fyrir, enda var hann mikill íþróttamaður, kunni að meta bókmenntir og tónlist og var raunar sjálfur fær tónlistarmaður og ljóðskáld. Hann var að ýmsu leyti umbótasinni og leitaðist við að styrkja völd konungs og þings gegn aðalsmönnum, sem lengi höfðu farið sínu fram eins og smákóngar í Skotlandi, þar sem konungsvaldið hafði verið mjög veikt um áratuga skeið.
Vegna þessa átti Jakob í átökum við ýmsa aðalsmenn, fyrstu árin einkum hertogann af Albany og ættmenn hans, en árið 1425 hafði hann styrkt stöðu sína svo mjög að hann lét handtaka Albany og tvo af þremur sonum hans snemma í mars 1425 og taka þá af lífi fyrir landráð skömmu síðar.
Jakob átti áfram í erjum við ýmsa skoska aðalsmenn og aflaði sér óvina, auk þess sem vopnahléssamningur við Englendinga rann út 1436 og Jakob hóf umsátur um Roxburgh-kastala, sem Englendingar höfðu á sínu valdi. Hann varð þó að hörfa þaðan og þótti hafa fengið háðuglega útreið. Frændi hans, jarlinn af Atholl, hafði nú snúist gegn honum og sonarsonur hans, Robert Stewart, fór fyrir hópi manna sem réðist að konungi þar sem hann dvaldist í klaustri í útjaðri Perth og drap hann.
Drottningin særðist en komst undan og gat komið boðum til Edinborgar, þar sem ríkisarfinn, Jakob 2., var og komið honum í öruggt skjól. Samsæri óvina konungs fór út um þúfur og jarlinn af Atholl, sonarsonur hans og fleiri voru handteknir og síðan teknir af lífi.
Jakob 2. var eini sonur konungshjónanna sem upp komst en á meðal margra dætra þeirra voru Margrét, sem giftist Loðvík krónprinsi Frakka, síðar Loðvík 11., Ísabella, sem giftist Frans 1. hertoga af Bretagne, og Elinóra, sem giftist Sigismund erkihertoga af Austurríki.
Fyrirrennari: Róbert 3. |
|
Eftirmaður: Jakob 2. |
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.