Borgarastyrjöldin í Júgóslavíu var röð þjóðernisátaka og uppreisna sem hófust við upplausn Júgóslavíu 1991 og stóðu til 1995. Meginátök styrjaldarinnar voru Tíu daga stríðið í júní og júlí 1991, Sjálfstæðisstríð Króatíu 1991-1995 og Bosníustríðið 1992-1995. Átök við minnihlutahóp Albana, Kosóvóstríðið 1998-1999, Preševo-uppreisnin 1999-2001 og uppreisn Albana í Makedóníu 2001, sem fylgdu í kjölfarið eru oft talin með undir heitinu Júgóslavíustríðin.

Thumb
Serbnesk kona syrgir við gröf í Sarajevó 1992.

Átökin voru sérstaklega mannskæð og leiddu til gríðarlegrar eyðileggingar. Þeim lauk flestum með friðarsamningum sem fólu í sér viðurkenningu á sjálfstæði ríkja sem áður voru sameinuð innan Júgóslavíu. Í upphafi styrjaldanna reyndi Júgóslavneski alþýðuherinn að halda ríkinu saman og berjast gegn aðskilnaðarsinnum. Eftir því sem á leið varð herinn í vaxandi mæli her Serbíustjórnar undir forsæti Slobodan Milošević. Milošević var talsmaður serbneskra þjóðernissinna og sóttist eftir sameiningu allra landsvæða þar sem Serbar bjuggu. Í kjölfarið hurfu Króatar, Slóvenar, Albanar, Bosníumenn og Makedónar úr hernum og gengu til liðs við hersveitir aðskilnaðarsinna. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 1994 sóttust serbneskir þjóðernissinnar ekki eftir því að endurreisa Júgóslavíu, heldur stefndu að stofnun „Stór-Serbíu“ með hlutum úr fyrrum sjálfstjórnarhéruðum Króata og Bosníumanna. Aðrar landheimtuhreyfingar voru nefndar í tengslum við stríðið, eins og „Stór-Króatía“ og „Stór-Albanía“.

Borgarastyrjöldin í Júgóslavíu varð alræmd vegna mannréttindabrota sem framin voru, eins og þjóðernishreinsana, glæpa gegn mannkyni og nauðgana. Um 140.000 týndu lífi í átökunum sem oft eru talin þau mannskæðustu í Evrópu frá lokum Síðari heimsstyrjaldar. Þetta voru fyrstu átökin í Evrópu frá Síðari heimsstyrjöld þar sem talað var um þjóðarmorð. Margir þátttakendur voru í kjölfarið ákærðir fyrir stríðsglæpi. Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu var stofnaður af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árið 1993 til að takast á við þessi brot.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.

Wikiwand in your browser!

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.

Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.

Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.