Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Jón skalli Eiríksson var biskup á Hólum 1358 – 1390, eða í 32 ár. Hann var fyrsti biskup á Íslandi með páfaveitingu, sjá páfabiskupar.
Jón skalli var Norðmaður eins og fyrirrennari hans, Ormur Ásláksson. Hann hefur líklega verið fæddur á árabilinu 1310–1320. Ekki er vitað um ætt hans eða uppruna, en hann virðist hafa verið af áhrifamönnum kominn. Gottskálk Eiríksson, bróðir hans, var forfaðir Hólabiskupanna Gottskálks Kenikssonar, Ólafs Rögnvaldssonar og Gottskálks Nikulássonar.
Jón skalli hlaut biskupsvígslu til Garða á Grænlandi árið 1343, en fór aldrei þangað. Við fráfall Orms Áslákssonar árið 1356 fór Jón til Avignon til þess að fá páfaleyfi fyrir biskupsembætti á Hólum, og hlaut viðhlítandi skilríki með fulltingi Ólafs erkibiskups í Niðarósi. Hlaut hann síðan staðfestingu erkibiskups, sem lýst var í kór Niðarósdómkirkju. Hann kom út til Íslands árið 1358 og tók við Hólastað. Var honum fyrst vel tekið, en brátt varð hann fyrir andstöðu ýmissa presta, sem báru því við að hann hefði ekki bréf upp á embætti sitt. Árið 1361 afsögðu prestar í Eyjafirði og meginhluta Þingeyjarsýslu hlýðni við hann. Jón biskup bannfærði þessa presta, en þeir sungu messur sem áður. Jón biskup fór utan 1362, sat í Niðarósi um veturinn og kom aftur heim til Hóla sumarið 1363. Andstæðingar Jóns biskups héldu áfram þverúð sinni, þó að þeir hefðu misst foringja sinn, Þorstein Hallsson á Hrafnagili. Jón skalli fór þá til Avignon 1369 og kom aftur sumarið 1370 með staðfestingu Úrbanusar 5. páfa á embættinu. Tóku prestar norðanlands hann þá í sátt.
Skiptar skoðanir hafa verið á því af hverju þessi andstaða prestanna stafaði. Sumir telja að þeir hafi verið á móti Jóni biskupi af því að hann var útlendur eins og Ormur Ásláksson, sem hafði verið illa þokkaður. Einnig var hann Grænlandsbiskup og án fullra skilríkja fyrir embætti á Hólum. Aðrir telja að Jón skalli hafi skipt sér meira af fjármálum og stjórn kirkjustaða en menn sættu sig við.
Óheil máldagabók Jóns skalla yfir kirkjur í Hólabiskupsdæmi er til í uppskrift frá 17. öld. Einnig eru elstu varðveittu ráðsmannsreikningar Hólastóls frá dögum hans, og bendir það til að hann hafi tekið fjármál biskupsstólsins föstum tökum.
Fyrirrennari: Ormur Ásláksson |
|
Eftirmaður: Pétur Nikulásson |
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.