From Wikipedia, the free encyclopedia
Hvalasafnið á Húsavík er safn á Húsavík, við Skjálfandaflóa á Norð-Austurlandi. Það var stofnað 1997 og er sjálfseignarstofnun sem ekki er rekin í hagnaðarskyni.
Upphaflega var lítil sýning í sal félagsheimilisins á efri hæð Hótels Húsavíkur. Ári seinna flutti safnið í um 200 m² rými á efri hæð „Verbúðanna“ við höfnina. Safnið hét þá Hvalamiðstöðin á Húsavík. Gestafjöldi óx jafnt og þétt og því var nauðsynlegt að flytja safnið í stærra húsnæði sem hentaði starfsemi þess betur. Árið 2000 keypti Hvalamiðstöðin gamla sláturhús Kaupfélags Þingeyinga (sem var byggt 1931 og hætt notkun á 9. áratugnum) og gerði það upp og opnaði svo nýtt safn í júní 2002.
Árið 2004 var nafni safnsins breytt í Hvalasafnið á Húsavík. Sýningin óx hratt, árið 2005 var líffræðisalnum bætt við en þar er að finna yfirgripsmiklar upplýsingar um vistfræði hafsins, líffræði og lífeðlisfræði hvaldýra. Sýningarsvæði safnsins er nú 1600 m².
Tilgangur safnsins er að fræða almenning um vistkerfi hafsins og tegundir hvaldýra, með áherslu á tegundir í Norður-Atlantshafinu. Í vísindahlutanum er að finna kynningu á rannsóknum safnsins sem hafa vaxið síðan 2001 og eru nú grunnur alþjóðlegrar samvinnu og útgáfu. Árið 2007 hlaut safnið formlega viðurkenningu Menntamálaráðuneytisins sem fræðastofnun.
Sýning Hvalasafnsins er á 1.400 m² svæði á tveimur hæðum. Áhersla er lögð á vandaða framsetningu efnis. Skýringarmyndir og náttúrulegir sýningargripir vekja áhuga gesta og ímyndunarafl og hvetja til lestrar fræðandi texta.
Á neðri hæðinni er að finna sýningu um vistkerfi hafsins sem kynnir gestum búsvæði og vistfræði hvala. Þar er líka að finna upplýsingar um þróun, líffærafræði og lífeðlisfræði hvaldýra. Aðrir hlutar sýningarinnar fjalla um tegundir hvala í Norður-Atlantshafi, náttúrusögu þeirra, hvalreka, hvalaskoðun og hvalveiðar Íslendinga fyrr og nú. Sérstakt herbergi er tileinkað höfrungum með áherslu á algengustu tegundir við Ísland. Háhyrningar fá sérstaka umfjöllun, þar á meðal frægasti íslenski háhyrningurinn, Keikó. Tvær heimildarmyndir um hvalveiðar og átökin milli hvalveiða og hvalaskoðunar eru til sýnis. Þar sem fjallað er um hljóð hvala og bergmálstækni er meðal annars gagnvirkur tölvuleikur sem nota má til að fræðast um hljóð hvala.
Á efri hæð safnsins er „hvala-galleríið“ en þar er að finna beinagrindur af níu tegundum hvala. Fyrsta beinagrindin sem sett var saman var af norðsnjáldra (Mesoplodon bidens) árið 1998, næstu grindur voru af hrefnu (Balaenoptera acutorostrata) og búrhval (Physeter macrocephalus). Aðrar beinagrindur eru af hnúfubak (Megaptera novaeangliae), háhyrningi (Orcinus orca), skugganefju (Ziphius cavirostris), andarnefju (Hyperoodon apmullatus) og grindhval (Globicephala melas). Árið 2004 fékk safnið að gjöf frá Grænlandi afar áhugaverða beinagrind af náhval (Monodon monoceros).
Safnið hefur frá upphafi staðið fyrir alþjóðlegu sjálfboðaliðaprógrammi sem á sinni tíð var nánast óþekkt á Íslandi. Sjálfboðaliðarnir hafa flestir verið háskólanemar í líffræði eða skyldum greinum. Sjálfboðaliðarnir eru daglegri starfsemi safnsins ómetanlegir, með þeim er unnt að halda safninu opnu allan daginn, alla daga sumarsins. Sjálfboðaliðarnir þýða kynningartexta, vinna að sýningunni sem stöðugt er verið að bæta og taka þátt í rannsóknarverkefnum safnsins. Þeir eiga möguleika á að fræðast um hvali og upplifa þá í sínu náttúrulega umhverfi. Þeir verða fljótt færir um að veita gestum sérfræðileiðsögn um safnið og geta oft veitt fræðslu og upplýsingar á mörgum tungumálum.
Sjálfboðaliðarnir taka þátt í rannsóknum safnsins á hvölum en þær hafa staðið yfir um árabil. Hvalaskoðunarbátar eru nýttir til að nálgast hvalina og fara sjálfboðaliðar í eina ferð á dag til að afla nauðsynlegra gagna vegna rannsókna. Gagnabanki safnsins er uppfærður jafn óðum og notaður af rannsakendum til áframhaldandi fræðistarfa.
Rannsókn Hvalasafnsins byrjaði árið 1998 en gögnin sem var aflað voru send til annarrar stofnunar. Nokkrum árum seinna ákvað safnið að gera sitt eigið gagnasafn. Í samráði við annað af hvalskoðunarfyrirtækjum bæjarins, Norðursiglingu, var ákveðið að starfsfólk Hvalasafnsins gæti farið í hvalaskoðunarferðir á sumrin til að safna gögnum. Safnið er einnig í samstarfi við bæði háskóla og aðra rannsakendur. Hingað til hefur rannsóknin aðallega snúist um svokallaða ljósmyndagreiningu, þar sem bornar eru saman myndir af hvölum og greindir í sundur einstaklingar innan tegundar. Einnig er kannað vistkerfi og öndunar mynstur hvalanna.
Hvalasafnið á Húsavík Geymt 15 nóvember 2018 í Wayback Machine
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.