From Wikipedia, the free encyclopedia
Hrútur Herjólfsson kemur bæði við Laxdælu og Njáls sögu og er einnig getið í Landnámabók. Móðir hans var Þorgerður dóttir Þorsteins rauðs Ólafssonar, sonar Auðar djúpúðgu. Hún giftist fyrst Dala-Kolli og átti með honum soninn Höskuld en þegar Dala-Kollur dó var hún enn ung. Hún fór þá til Noregs og giftist þar manni sem Herjólfur hét og átti Hrút með honum. Hann ólst upp í Noregi.
Eftir að Þorgerður varð ekkja öðru sinni sneri hún aftur til Íslands og dó hjá Höskuldi syni sínum, sem tók undir sig allt fé hennar. Hrútur kom svo til landsins og settist að á Kambsnesi. Þeir bræðurnir deildu um móðurarfinn og barðist Hrútur við húskarla bróður síns og felldi nokkra þeirra en að lokum sættust þeir. Hrútur flutti þá að Hrútsstöðum í Laxárdal og bjó þar síðan. Honum er svo lýst í Njálu að hann var „vænn maður, mikill og sterkur, vígur vel og hógvær í skapi, manna vitrastur, hagráður við vini sína en tillagagóður hinna stærri mála.“
Þeir bræður riðu til Alþingis og báðu þar Unnar, dóttur Marðar gígju, en áður en af brúðkaupi þeirra yrði fór Hrútur til Noregs að sækja arf eftir hálfbróður sinn. Hann var um veturinn í Konungahellu við hirð Haraldar gráfeldar og Gunnhildar móður hans og átti þá vingott við Gunnhildi. Var sagt að hún hefði lagt þau álög á hann að skilnaði að hann mætti ekki gagnast þeirri konu sem hann væri heitinn á Íslandi.
Hann fór svo heim og gekk að eiga Unni en samband þeirra var ekki gott og var álögum Gunnhildar kennt um. Svo fór að Unnur sagði skilið við Hrút eftir ráðum föður síns, fór heim til hans og kom aldei aftur í Dali. Á þingi sumarið eftir heimtaði Mörður aftur heimanfylgju dóttur sinnar, sem Hrútur hafði fengið, en Hrútur skoraði hann þá á hólm. Mörður var gamall og vildi ekki berjast. En löngu seinna fékk Unnur frænda sinn, Gunnar á Hlíðarenda, til að ná fé sinu og tókst honum það með ráðum Njáls vinar síns á Bergþórshvoli.
Hrútur kvæntist síðar Hallveigu dóttur Þórgríms úr Þykkvaskógi og átti með henni mörg börn en þau voru samkvæmt Landnámu: Þórhallur, Grímur, Már, Eindriði, Steinn, Þorljótur, Jörundur, Þorkell, Steingrímur, Þorbergur, Atli, Arnór, Ívar, Kárr og Kúgaldi, en dætur Bergþóra, Steinunn, Rjúpa, Finna og Ástríður.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.