Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Hjólastóll er stóll á hjólum og gerir fólki sem á í erfiðleikum með gang eða er ófært um gang vegna fötlunar, sjúkdóma eða áverka af völdum slyss, kleift að komast leiðar sinnar.
Hjólastólar eru til í ýmsum gerðum og tekur hönnun þeirra gjarnan mið af persónulegum þörfum notenda, til dæmis hvað varðar setu, stólbak, fótskemla og stýringarmöguleika. Einnig eru til hjólastólar sem einkum eru notaðir við sérstakar aðstæður eins og til dæmis við íþróttaiðkun eða til notkunar á sólarströnd. Hjólastólar eru gjarnan aðgreindir í tvo flokka, annars vegar hjólastól sem knúinn er áfram með handafli hjólastólanotandans eða annars einstaklings sem ýtir stólnum að aftanverðu og hins vegar rafmagnshjólastól sem knúinn er áfram með rafgeymi eða rafmagnsmótor.
Elstu heimildirnar sem fundist hafa um húsgögn á hjólum eru myndir sem voru hoggnar í stein í Kína og mynd á grískum vasa frá sjöttu og fimmtu öld fyrir krist. Elstu heimildir um stól á hjólum sem notaður var í þeim tilgangi að flytja fatlað fólk eru taldar vera frá því þremur öldum síðar í Kína en Kínverjar notuðu snemma hjólbörur til þess að flytja fólk sem skorti getu til gangs.
Í Evrópu er talið að fyrsti hjólastólinn hafi verið smíðaður fyrir Filippus 2. Spánarkonung árið 1595. Stóllinn hafði bæði arma og fótskemil en bjó ekki yfir þeim kosti að notandinn gæti sjálfur knúið hann áfram heldur þurfti aðstoð við að ýta stólnum. Árið 1655 hannaði ungur lamaður maður að nafni Stephan Farffler hjólastól sem gerði notandanum kleift að knýja stólinn áfram með eigin handafli.
Árið 1933 hönnuðu verkfræðingarnir Harry C. Jennings og Herbert Everest fyrsta hjólastólinn sem var léttur stálstóll sem auðvelt var að leggja saman og ferðast með. Everest var sjálfur fatlaður og nýtti reynslu sína við hönnun stólsins og sáu þeir félagar viðskiptatækifæri í uppfinningu sinni og urðu í raun þeir fyrstu sem hófu að fjöldaframleiða hjólastóla.
Hjólastólar eru fjölbreyttir að gerð og stólarnir hafa ólíka eiginleika allt eftir því við hvaða aðstæður þeir eru ætlaðir og taka mið af þörfum og færni notandans. Sumir hjólastólar eru hannaðir til almennrar daglegrar notkunar og miða að því gera notandanum kleift að komast ferða sinna á sem þægilegastan hátt en aðrir hjólastólar eru ætlaðir við sérstök tilefni líkt og við íþróttaiðkun. Nýsköpun innan hjólastólaiðnaðarins er tiltölulega algeng en margar nýjungar ná þó ekki inn á almennan markað, oft vegna þess að þær þykja of dýrar.
Hefðbundinn handknúinn hjólastóll samanstendur af grind, sæti, einum eða tveimur fótskemlum og fjórum hjólum; yfirleitt tvö lítil hjól að framan og tvö stærri hjól að aftan. Í sætinu er oft laus sessa sem hönnuð er með tillitil til hvers notanda. Stærri hjólin á hjólastólnum hafa áfasta hringi sem gera notendanum kleift að stýra stólnum með eigin handafli. Handknúnir hjólastólar hafa yfirleitt einnig handföng aftan á stólnum svo aðrir en notandinn eigi einnig kost á því að ýta stólnum ef notandinn óskar þess eða hefur ekki tök að stýra stólnum sjálfur.
Rafknúinn hjólastóll eða rafmagnshjólastóll er knúinn áfram af rafgeymi eða rafmagnsmótor. Yfirleitt stýrir notandi stólsins honum með litlum stýripinna sem oft er staðsettur við stólarminn og hægt er að aðlaga að þörfum notandans. Rafmagnshjólastólar gera notendum með litla og eða enga hreyfigetu í höndum og handleggjum kleift að stýra stólnum án aðstoðar. Ef notandi hefur ekki hreyfigetu til að nota stýripinna með höndum eru til ýmsar aðrar útfærslur við að stýra stólnum, til dæmis er hægt að staðsetja stýribúnað stólsins í höfuðpúðanum, hafa stýripinna sem stjórnað er með hökunni eða stýra stólnum með munnstykki.
Rafmagnshjólastólar eru einnig búnir þeim kosti að í stýribúnaði stólsins getur notandinn hækkað og lækkað stólinn, hallað aftur baki og breytt stöðu setunnar. Þetta er mikilvægur eiginleiki fyrir notendur sem hafa litla eða enga hreyfigetu í efri hluta líkamans og þurfa því ekki að leita eftir aðstoð við að breyta setstöðu og þar með er hægt að minnka líkur á þrýstingssárum sem oft fylgja löngum setum í hjólastól.
Á síðustu árum hefur snjalltækni gjarnan orðið hluti af rafmagnshjólastólum og hægt er að festa snjalltæki á stólinn og þannig gera notendum með litla eða enga hreyfigetu í höndum og handleggjum kost á því að stýra snjalltækjum svo sem síma og spjaldtölvu í gegnum stýribúnað hjólastólsins.
Fyrirmynd greinarinnar var „Wheelchair“ á ensku útgáfu Wikipedia. Skoðað 26. október 2019.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.