Hið íslenska bókmenntafélag er íslenskt bókaforlag sem var stofnað árið 1816. Félagið hefur gefið út mörg rit frá stofnun, þá helst íslensk en helst er það þekkt fyrir fræðiritið (áður fréttamiðill) Skírni sem hefur verið gefið út síðan 1827. Skírnir er elsta tímarit á Norðurlöndum.
Hið íslenska bókmenntafélag var upphaflega stofnað af Bjarna Thorarensen, Bjarna Thorsteinssyni, Árna Helgasyni og Rasmusi Kristjáni Rask. Hið íslenska lærdómslistafélag var formlega sameinað hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1818.
Um skeið var Jón Sigurðsson (f. 1811, d. 1879) forseti þess og festist það við hann og er hann þess vegna jafnan kallaður Jón forseti.
Saga Bókmenntafélagsins
Stofnun Hins íslenska bókmenntafélags
Árið 1813 kom danski málfræðingurinn Rasmus Kristján Rask til Íslands. Eftir veru sína á landinu taldi hann ljóst að ekki yrði talað íslenskt orð í Reykjavík að hundrað árum liðnum og tungan útdauð með öllu í landinu eftir 200 ár. Taldi hann vænlegast að stofna félag meðal Íslendinga, sem skyldi efla og styðja bókmenntir þeirra, vera til varnar og viðhalds íslenskrar tungu og styrkja almenna menntun. Í samráði við biskup samdi Rask boðsbréf árið 1815, þar sem gerð er grein fyrir hversu hinu fyrirhugaða félagi skuli vera háttað, það var síðan sent til allra prófasta landsins. Áður en Rasmus Kristján Rask fór af landinu hafði hann mælst til þess við séra Árna Helgason að hann tæki að sér að verða forseti félagsins.
Eftir að Rasmus Kristján Rask kom aftur til Kaupmannahafnar, átti hann frumkvæðið að því að stofnað væri sams konar félag og hið íslenska, sem bæði Íslendingar í Kaupmannahöfn og Danir gengju í. Á fundi í Þrenningarkirkjunni í Kaupmannahöfn, hinn 30. mars 1816 var félagið formlega stofnað í Danmörku. Eftir að forsvarsmenn félagsins á Íslandi, einkum séra Árni Helgason, spurðu af stofnun félagsins í Danmörku kölluðu þeir menn til fundar í Reykjavík 1. ágúst 1816. Þar var lagt fram lagafrumvarpið sem komið fram á fundinum í Kaupmannahöfn en ályktun um það var frestað til næsta fundar. Sá fundur var haldinn 15. ágúst 1816 í Reykjavík og þar var samþykkt lagafrumvarpið og um leið ákveðið að félögin skyldu sameinast og vera tvær deildir í einu félagi er heita skyldi Hið íslenska bókmenntafélag. Þá fyrst er unnt að segja að félagið væri að fullu stofnað, þótt ekki væri endanlega frá lögum gengið fyrr en árið 1818. [1].
Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags
Frá árinu 1970 hefur bókmenntafélagið gefið út ritröðina Lærdómsrit Hins íslenzka bókmenntafélags. Í ritröðinni eiga að vera sígild fræðirit, „tímamótaverk í sögu mannlegrar hugsunar“ og önnur fræðileg rit sem þykja framúrskarandi góð og „sem hlotið hafa skýlaust lof“. Þótt ætlunin með ritröðinni hafi ekki verið að geyma fagurbókmenntir hefur eigi að síður myndast hefð fyrir því að gefa út þýðingar á ýmsum bókmenntum fornaldar sem lærdómsrit, enda teljast þau oftar en ekki tímamótaverk í sögu mannlegrar hugsunar. Flest eru ritin þýðingar úr erlendum málum en einnig eru nokkur rit íslensk. Ritin eru nú orðin 103 talsins, og verða þremur fleiri, eða 106, þegar að ritin Andkristur eftir Friedrich Nietzsche, Skynsemin í sögunni eftir Georg Wilhelm Friedrich Hegel og Öld gensins eftir Evelyn Fox Keller verða gefin út í árslok 2023.
Lærdómsritin voru um margt nýlunda í íslenskri bókaútgáfu, ekki síst vegna ritstjórnar ritraðarinnar og þeirrar ritstjórnarstefnu að hver þýðing skyldi unnin af sérfróðum manni og lesin yfir af minnst tveimur öðrum sérfróðum mönnum. Ítarlegur inngangur er að hverju riti og skýringar aftanmáls.
Stofnandi ritraðarinnar var Þorsteinn Gylfason sem ritstýrði henni til ársins 1997. Þorsteinn Hilmarsson aðstoðaði við ritstjórn lærdómsritanna frá 1985 og var aðstoðarritstjóri 1989 – 1997. Vilhjálmur Árnason tók við ritstjórninni 1997 en núverandi ritstjórar eru Ólafur Páll Jónsson og Björn Þorsteinsson. Núverandi forseti er Sigurður Líndal lagaprófessor.
Forsetar Hins íslenska bókmenntafélags
Reykjavíkurdeild:
- Árni Helgason, stiftsprófastur (1816 – 1848)
- Pétur Pétursson, prófessor, síðar biskup (1848 – 1868)
- Jón Þorkelsson, rektor (1868 – 1877)
- Magnús Stephensen, yfirdómari, síðar landshöfðingi (1877 – 1884)
- Jón Þorkelsson (2) (1844)
- Björn Jónsson, ritstjóri (1884 – 1894)
- Björn M. Ólsen, rektor (1894 – 1900)
- Eiríkur Briem, prófessor (1900 – 1904)
- Kristján Jónsson, dómsstjóri (1904 – 1909)
- Björn M. Ólsen (2) (1909 – 1912)
Kaupmannahafnardeild:
- Rasmus Kristján Rask, prófessor (1816)
- Bjarni Þorsteinsson, fulltrúi, síðar amtmaður (1816 – 1819)
- Finnur Magnússon, prófessor (1819 – 1820)
- Bjarni Þorsteinsson (2) (1820 – 1821)
- Finnur Magnússon (2) (1821 – 1827)
- Rasmus Kristján Rask (2) (1827 – 1831)
- Þorgeir Guðmundsson, yfirkennari, síðar prestur (1831 – 1839)
- Finnur Magnússon (3) (1839 – 1847)
- Brynjólfur Pétursson, stjórnardeildarforseti (1848 – 1851)
- Jón Sigurðsson, alþingismaður (1851 – 1879)
- Sigurður L. Jónasson, skrifari (1880 – 1885)
- Ólafur Halldórsson, skrifstofustjóri (1885 – 1904)
- Valtýr Guðmundsson, dósent (1904 – 1905)
- Þorvaldur Thoroddsen, prófessor (1905 – 1911)
Eftir sameiningu deilda:
- Björn M. Ólsen (3) (1912 – 1918)
- Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörður (1918 – 1924)
- Guðmundur Finnbogason, landsbókavörður (1924 – 1943)
- Matthías Þórðarson, þjóðminjavörður (1943 – 1961)
- Einar Ól. Sveinsson, prófessor (1961 – 1967)
- Sigurður Líndal prófessor emeritus. (1967 – 2015)
- Jón Sigurðsson, fv. seðlabankastjóri og ráðherra (2015 – 2022 )
- Ármann Jakobsson, prófessor og rithöfundur (2022 – )
[2].
Tilvísanir
Tenglar
Wikiwand in your browser!
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.