íslenskur rafveituvirki From Wikipedia, the free encyclopedia
Guðmundur Felix Grétarsson (f. 25. maí 1972) er íslenskur rafveituvirki. Guðmundur Felix slasaðist alvarlega við störf sín árið 1998 og missti m.a. báða handleggi. Guðmundur vakti mikla athygli í kjölfar slyssins og setti meðal annars stefnuna á að fá grædda á sig nýja handleggi. Í janúar árið 2021 fór aðgerðin fram í Lyon í Frakklandi og þykir hún marka tímamót í læknavísindum.
Guðmundur Felix fæddist í Reykjavík. Foreldrar hans eru Grétar Felixson og Guðlaug Þórs Ingvadóttir.[1] Hann lauk námi í rafveituvirkjun árið 1997 og hóf í kjölfarið störf hjá Rafveitu Reykjavíkur. Kona Guðmundar Felix er Sylwia Gretarsson. Guðmundur á tvær dætur úr fyrra sambandi, fæddar 1993 og 1997.[heimild vantar]
Guðmundur Felix starfaði sem rafveituvirki hjá Rafveitu Reykjavíkur og vann að viðgerð á háspennulínu við Hafravatn í janúar árið 1998. Guðmundur virðist hafa farið upp í rangan staur og snert línu sem straumur hafði ekki verið tekinn af. Í kjölfarið fellur hann átta metra niður úr staurnum. Við slysið hryggbrotnaði Guðmundur Felix á þremur stöðum, brákast í hálsliðum, rifbein losnuðu frá hryggjarsúlunni og það kviknaði í handleggjum hans. Guðmundur Felix komst til meðvitundar tæpum þremur mánuðum síðar. Hann lá á sjúkrahúsi í 7-8 mánuði eftir slysið og fór þaðan í 14 mánaða endurhæfingu á Reykjalund. Við tóku erfið ár hjá Guðmundi og m.a. þurfti hann tvisvar sinnum að fara í lifrarígræðslu árið 2002.[2]
Árið 2018 kom út heimildarmyndin Nýjar hendur - innan seilingar um sögu Guðmundar Felix.[3]
Guðmundur Felix fluttist til Lyon í Frakklandi sumarið 2013 og stóðu vonir til þess að þar yrði skömmu síðar gerð á honum handleggjaágræðsla. Ferlið var hins vegar langt og strangt og mun lengra en búist hafði verið við í upphafi. Sjö og hálfu ári eftir flutning til Frakklands og tuttugu og þremur árum eftir slysið, gekkst Guðmundur Felix undir aðgerðina í Lyon í Frakklandi þann 13. janúar árið 2021 þar sem framkvæmd var flókin handleggja- og axlarágræðsla. Um 50 læknar frá fjórum sjúkrahúsum tóku þátt í aðgerðinni en hún tók um 15 klukkustundir. Aðgerðin þótti takast vel og nokkrum dögum síðar sagðist Guðmundur ekki lengur vera handlangari nú væri hann orðinn handhafi.[4] Við tekur þó langt bataferli og endurhæfing en ekki er hægt að meta árangur aðgerðarinnar að fullu fyrr en að þremur árum liðnum.[heimild vantar]
Guðmundur Felix tilkynnti þann 3. apríl 2024 að hann hygðist gefa kost á sér í forsetakosningum Íslands síðar sama ár.[5] Hann náði samt sem áður ekki tilskyldum meðmælendum og vantaði um 200 undirskriftir upp á.[6]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.