Remove ads
Trú Forn-Grikkja From Wikipedia, the free encyclopedia
Grísk goðafræði fjallar um þá trú sem Forn-Grikkir höfðu og var stór þáttur í andlegu lífi þeirra á fornum tíma. Grikkir áttu fjöldann allan af guðum og gyðjum sem þeir tilbáðu og sögðu margar sögur af. Hið alþjóðlega orð yfir goðsögu, myþa, er af grískum uppruna en það sama má segja um alþjóðlega heitið á goðafræði, myþologia. Goðafræðin fjallar um sköpun heims og manna, útskýringar á náttúrufyrirbærum, hvað verður um menn eftir dauðann og hvers vegna lífið er eins og það er.
Grísk goðafræði hjálpar okkur að skilja hugsunarhátt Forn-Grikkja og sóttu skáld, málarar og myndhöggvarar innblástur í fræðin, sérstaklega á 15. og 16. öld. Ýmsar heimildir eru til um goðafræði hins forna tíma og teljast sum rit mikilvægari heimildir en önnur. Hómerskviður frá 8. öld f.Kr. geyma t.a.m. fjölmargar sögur af guðunum. Einnig notuðu ýmis fræg ljóðskáld efni úr goðsögum í miklum mæli, t.d. til að hylla sigurvegara á Ólympíuleikum. Þess má einnig geta að Rómverjar tóku guðaheim Grikkja nær óbreyttan inn í trú sína.
Samkvæmt grískum goðsögnum var í upphafi gapandi tóm, sem nefndist Kaos... Upp úr því tómi spruttu m.a. Gaia, móðir jörð og Tartaros hinn myrki undirheimur. Gaia gat af sér Úranos, himininn, og áttu þau síðan ýmis afkvæmi, heldur tröllsleg, fyrst svonefnda kýklópa, sem höfðu eitt auga á enni, og síðan tólf títana. Þegar kýklóparnir uxu úr grasi, ógnuðu þeir veldi föður síns, en þá steypti Úranos þeim niður til undirheima. Þetta líkaði Gaiu illa og hvatti hún títana til uppreisnar gegn Úranosi. Tók yngsti þeirra, Krónos, þeirri áeggjan, steypti Úranosi föður sínum í undirheima og gerðist nýr drottnari heimsins.
Úranos hafði þó spáð því fyrir Krónosi að hann yrði einnig að víkja fyrir syni sínum. Krónos greip þá til þeirra varúðarráðstafanna að gleypa börn sín, sem hann átti með systur sinni, Rheu, um leið og þau fæddust. Þegar Rhea hafði horft á eftir fimm börnum ofan í gin bónda síns, ákvað hún að bjarga sjötta barni sínu, Seifi. Vafði hún steini í reifar og ginnti Krónost til að gleypa hann en kom Seifi í skjól til Krítar þar sem hann ólst upp hjá dísum. Fullvaxta, sneri Seifur aftur til heimkynna sinna og fékk föður sinn til að gleypa uppsölumeðal. Spjó þá Krónos fyrst steininum sem þeyttist alla leið til Delfí og settist í sprunguna sem talin var vera miðja heimsins en næst komu systkini Seifs upp eitt af öðru; Hades, Póseidon, Demeter, Hestía og Hera. Undir forystu Seifs hófu systkinin uppreisn gegn Krónosi og hinum títununum. Seifur leysti kýklópana úr undirheimum sem færðu honum og bræðrum hans gjafir í þakklætisskyni. Seifur fékk þrumur og eldingar, Póseidon þrífork og Hades huliðshjálm. Eftir harða orustu sigruðu systkinin og var títununum steypt niður í undirheima þar sem kýklóparnir gættu þeirra. Einstaka títan slapp, t.a.m Ókeanos hinn mikli útsær sem umflýtur jörðina og hinn öflugi Atlas sem heldur uppi himinhvelfingunni. Eftir stríðið sættust þeir bræður á að skipta veröldinni á milli sín; Seifur fékk himininn, Póseidón hafið og Hades undirheima.
Til eru margar sögur af upphafi mannanna en ein þeirra er frægust. Þar segir frá títanssyninum Prómeþeifi sem var allra goðmagna kænastur og mjög handlaginn. Prómeþeifur hafði staðið með Seifi í orustunni miklu og fékk að launum að dvelja á jörðinni. Í leiðindum sínum datt honum í hug að búa til verur úr leir sem líktust guðunum og tókst það eftir nokkrar tilraunir og gaf gyðjan Aþena þeim lífsanda. Seifi þótti lítið til þessara fyrstu mannvera koma, en fyrstu mennirnir áttu erfitt með að verjast náttúruöflunum í köldum og dimmum hellum jarðarinnar. Prómeþeifi þótti svo vænt um þetta sköpunarverk sitt að hann stal eldneista frá Seifi og gaf mönnunum.
Seifur varð ævareiður út í Prómeþeif og ákvað að hefna sína á honum og mönnunum. Hann lét smíðaguðinn Hefaistos gera fallega stúlku úr mold og vatni og gáfu allir guðirnir henni gjafir. Hagleiksgyðjan Aþena kenndi henni vefnað og aðrar kvenlegar íþróttir, ástargyðjan Afródíta veitti henni ómótstæðilegan þokka og mælskuguðinn Hermes gaf henni tungulipurð. Hlaut stúlkan nafnið Pandóra (algjöf) og var síðan send til jarðarinnar. Prómeþeifur var að heiman en hafði varað bróður sinn Epimþeif (hinn eftirhyggjusami) við að veita viðtöku nokkru sem kæmi frá guðunum. Epimþeifur lofaði öllu fögru um það en gleymdi hann öllu um loforð sitt þegar hann sá hina fögru Pandóru og gekk að eiga hana. Pandóra hafði með sér kerald frá Seifi sem ekki mátti opna. Af forvitni opnaði hún það þó og flugu úr því allskyns sóttir og mein sem hafa hrjáð mennina síðan. Seifi tókst hinsvegar að klófesta Prómeþeif og batt hann við klett austur í Kákasus. Þar reyndi Seifur að fá Prómeþeif til að afneita mönnunum en það vildi hann ekki og þurfti því að líða þjáningar daglega, en örn kom og kroppaði í lifrina á honum sem óx aftur á nóttinni, svo að leikurinn gat endurtekið sig næsta dag. Um síðir kom hetjan Herakles á sáttum með þeim Seifi og Prómeþeifi.
Goðafræðin myndaðist snemma á öldum og endurspeglaði því takmarkaða þekkingu manna á umheiminum.
Samkvæmt goðafræðinni var jörðin talin kringla sem flaut á sjónum, en umlukin jarðarstraumnum Ókeanosi á alla vegu. Vesturmörk jarðar voru Gíbraltarsund og lengst í austri var Kákasus en Delfí var talin miðja alheimsins. Yfir jörðinni var hvolfþak himinsins, Úranosar, en Atlas hélt himninum uppi og um hvolfið ferðuðust hinir ýmsu himinhnettir, þ.á.m. sól og máni. Undir jarðkringlunni voru svo undirheimar eða Hadesarheimar. Ýmsir trúðu því að hinn illi staður Tartaros væri sérstakt svæði innan Hadesarheima, neðst í þeim. Svo mikil fjarlægð átti að vera frá himni til jarðar að það tæki eirsteðja níu daga að falla þaðan.
Helstu guðir Grikkja voru Ólympsguðir, en þeir bjuggu á Ólympusfjalli sem lá nyrst í Grikklandi, á mörkum Þessalíu og Makedóníu. Fjallið er 3000 metra hátt og var ókleift á fornum tíma. Oft eru tindar fjallsins huldir þoku svo ekki er hægt að sjá að þar er alltaf snjór. Þessa tinda töldu Grikkir ná til himins og að þar byggju helstu guðirnir, Seifur og hirð hans.
Venjulega eru Ólympsguðirnir taldi vera tólf og í hópi þeirra eru fjögur þeirra sex systkina sem tóku völdin af títönunum við upphaf heimsins. Þau voru Seifur, Hera, Póseidon og Demeter. Hestía, gyðja arins og heimilis, þótti ekki nógu merkileg til að falla í þennan hóp, því Grikkir voru litlir heimilismenn, og Hades hélt sig í undirheimum og kom aldrei upp á Ólympsfjall. Við systkinin fjögur bættust átta guðir sem eru yfirleitt talin börn Seifs með hinum ýmsu konum. Aðeins tveir af yngri kynslóð guðanna töldust synir Seifs og Heru, en það voru Ares og Hefaistos en hin voru þau Aþena, Apollon, Artemis, Afródíta, Hermes og Díonýsos.
Póseidón dvaldist hins vegar oftast í höll sinni á sjávarbotni, Artemis og Díonýsos héldu til í fjöllum og skógum og Hermes var stöðugt í sendiferðum.
Sérhver guð átti sitt verksvið og sín einkenni, þó að oft hafi starfssviðið verið fjölbreytt og einkennistáknin mörg.
Hinn síðskeggjaði og mikilúðugi Seifur var æðstur Ólympsguðanna. Himininn var hans yfirráðasvæði og var hann talinn veðraguð en hann gat safnað skýjum og sent regn og snjó, eða hent eldingum til jarðar. Seifur var æðsti vörður laga og reglna meðal manna. Hann var talinn verndari ættatengsla, vináttubanda og borgríkjasamfélagsins. Seifur varð óskaplegur á að líta þegar hann reiddist og refsaði af mikilli hörku.
Réttlætisgyðjan Dike var helsta fylgigoð Seifs og var hann hels dýrkaður í Ólympíu.
Seifur átti nokkur einkennistákn en þau algengustu voru eldingin;Ægisskjöldur sem gerður var úr geitarskinni og hrukku af honum eldingar þegar hann var hristur; og örninn, konungur fuglanna.
Margir helstu kappar grískrar goðafræði taldir synir hins mikla guðs, svo sem Herakles, Perseifur og Mínos. Seifur heimsótti ástkonur sínar í hinum ýmsu gervum, t.d. birtist hann Ledu í svanslíki, Evrópu sem naut og Danáu sem gullregn.
Hera var eiginkona Seifs og því drottning himnanna. Grikkir hugsuðu sér hana sem virðulega og þokkafulla konu, mikileyga og fagurlokkaða. Hera var verndargyðja hjónabandsins en hefur einnig verið ákölluð sem fæðingargyðja. Heru líkaði ekki sérstaklega vel við ástarbrölt bónda síns og átti til að ofsækja ástmeyjar hans og hin óskilgetnu börn hans.
Helsta einkenni Heru var páfuglinn. Í fyrstu fegurðarsamkeppninni tapaði Hera fyrir fegurðargyðjunni Afródítu. Studdi hún Grikki ákaft í stríðinu gegn Trójumönnum. Helstu afkomendur hennar eru Ares, Eris, Hefaistos og Hepa.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.