From Wikipedia, the free encyclopedia
Friðrik Vilhjálmur 4. (Friedrich Wilhelm IV. á þýsku; 15. október 1795 – 2. janúar 1861) var konungur Prússlands frá 1840 til 1861. Hann var sonur Friðriks Vilhjáms 3. og bróðir Vilhjálms 1. Þýskalandskeisara. Friðrik Vilhjálmur var einnig kallaður „rómantíkurmaðurinn í hásætinu“ og er helst minnst fyrir fjölmargar byggingar sem hann lét reisa í Berlín og í Potsdam, og fyrir að ljúka byggingu gotnesku dómkirkjunnar í Köln. Hann var íhaldsmaður og hafnaði árið 1849 tilboði frá Frankfurt-þinginu um að gerast keisari Þýskalands þar sem hann taldi þingið ekki eiga rétt á því að veita þann titil. Árið 1857 fékk hann heilablóðfall og var lamaður til dauðadags.
| ||||
Friðrik Vilhjálmur 4. | ||||
Ríkisár | 7. júní 1840 – 2. janúar 1861 | |||
Skírnarnafn | Friedrich Wilhelm von Hohenzollern | |||
Fæddur | 15. október 1795 | |||
Berlín, Prússlandi | ||||
Dáinn | 2. janúar 1861 (65 ára) | |||
Potsdam, Prússlandi | ||||
Gröf | Friedenskirche, Sanssouci-garði, Potsdam[1] (Hjarta hans er í Charlottenburg-kastala í Berlín[2]) | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Friðrik Vilhjálmur 3. Prússakonungur | |||
Móðir | Lovísa af Mecklenburg-Strelitz | |||
Drottning | Elísabet Lúdóvíka af Bæjaralandi |
Eftir ósigur Prússa í orrustunni í orrustunni við Jena-Auerstedt árið 1806 neyddist prússneska konungsfjölskyldan til að flýja til Königsberg. Árið 1810 varð Friedrich Ancillon, síðar utanríkisráðherra, kennari Friðriks Vilhjálms. Acillon átti eftir að hafa mikil áhrif á hann. Friðrik var með prússneska hernum sem hertók París árið 1815 og virðist snemma hafa tileinkað sér íhaldssamar skoðanir.
Þann 23. nóvember árið 1823 giftist Friðrik Vilhjálmur Elísabet Lúdóvíku af Bæjaralandi. Hjónabandið var af pólitískum toga en sambúð þeirra var ekki farsæl þar sem Elísabet var kaþólsk og vildi ekki skipta um trú. Friðrik Vilhjálmur 3. Prússakonungur vildi í fyrstu ekki samþykkja kaþólska krónprinsessu en syni hans tókst að telja honum hughvarf og fá hann til að samþykkja ráðahaginn. Elísabet tók upp mótmælendatrú árið 1830.
Friðrik Vilhjálmur 4. varð konungur Prússlands árið 1840. Fyrstu ríkisár hans einkenndust af sáttagerðum og frjálslyndi: Hann náðaði þá sem höfðu verið dæmdir fyrir landráð, frelsaði kaþólska erkibiskupa úr fangelsi og víkkaði fjölmiðlafrelsi. Hann hafnaði hins vegar beiðni prússnesku ríkjanna um nýja stjórnarskrá árið 1847 og reyndi í kjölfarið að miðla málum með frjálslyndisöflunum í stjórnarandstöðu með því að kalla saman ríkisþing. Þingið hlaut rétt til að setja skatta og fá lán en hins vegar mátti það ekki koma saman reglulega heldur aðeins að þóknun konungsins.
Ónægja með konunginn hélt áfram að aukast og þann 18. mars hófst uppreisn í Berlín. Þótt herinn hefði getað bundið enda á uppreisnina ákvað Friðrik Vilhjálmur að koma til móts við uppreisnarmennina með því stofna raunverulegt ríkisþing og setja stjórnarskrá. Hann sá hins vegar fljótt eftir þessu og leysti upp þingið með hjálp hersins strax næsta desember. Friðrik Vilhjálmur útbjó síðan nýja stjórnarskrá sem tók gildi árið 1850.
Árið 1849 kaus þýska þjóðþingið í Frankfurt að bjóða Friðrik Vilhjálmi að gerast keisari Þýskalands en hann hafnaði tilboðinu með þeim röksemdum að það væri ekki í valdi þingsins að veita slíkan titil, auk þess sem það hefði hugsanlega leitt til stríðs við Austurríki ef hann hefði þegið hann. Með Olmütz-samningnum árið 1850 féllst Friðrik Vilhjálmur á að leysa upp hið fyrirhugaða Erfurt-samband Prússlands og annarra þýskra ríkja og ganga þess í stað á ný inn í þýska ríkjasambandið undir forystu Austurríkis. Síðustu valdaár sín lét Friðrik Vilhjálmur afturhaldssömustu ráðgjafa sína, Otto Theodor von Manteuffel forsætisráðherra og Leopold von Gerlach hershöfðingja, um flestar ákvarðanatökur.
Vegna heilablóðfalls sem lamaði Friðrik Vilhjálm árið 1857 eftirlét hann bróður sínum, Vilhjálmi, flestar skyldur konungskrúnunnar. Vilhjálmur varð síðan ríkisstjóri árið 1858. Friðrik Vilhjálmur og Elísabet eignuðust engin börn[3] og því varð Vilhjálmur konungur Prússlands eftir dauða Friðriks Vilhjálms árið 1861. Vilhjálmur varð síðar fyrsti keisari alls Þýskalands.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.