Remove ads
forsætisráðherra Lettlands From Wikipedia, the free encyclopedia
Evika Siliņa (f. 3. ágúst 1975) er lettneskur lögfræðingur og stjórnmálakona sem hefur verið forsætisráðherra Lettlands frá 15. september 2023. Hún er önnur konan til að gegna því embætti.[2] Frá 2022 til 2023 var hún velferðarmálaráðherra Lettlands í annarri ríkisstjórn Krišjānis Kariņš.[3][4] Hún er meðlimur í stjórnmálaflokknum Einingu.
Evika Siliņa | |
---|---|
Forsætisráðherra Lettlands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 15. september 2023 | |
Forseti | Edgars Rinkēvičs |
Forveri | Arturs Krišjānis Kariņš |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 3. ágúst 1975 Ríga, lettneska sovétlýðveldinu (nú Lettlandi) |
Stjórnmálaflokkur | Eining[1] |
Maki | Aigars Siliņš |
Börn | 3 |
Háskóli | Háskóli Lettlands |
Siliņa er fædd í Ríga[5] þann 3. ágúst 1975.[6] Hún nam lögfræði við Háskóla Lettlands frá 1993 til 1997 og útskrifaðist með BA-gráðu í lögfræði. Hún hlaut síðar mastersgráðu í félagsvísindum, þjóðarétti og Evrópurétti við Framhaldslagaskóla Ríga.[7]
Frá 2003 til 2012 vann Siliņa sjálfstætt sem lögmaður og sérhæfði sig í alþjóðlegum og innlendum viðskiptarétti.[6] Á þessum tíma vann Siliņa jafnframt við lögfræðiþjónustu hjá opinberum fjarskiptastofnunum og við ráðgjöf hjá óháðum samtökum.[6]
Í þingkosningum Lettlands árið 2011 gaf Siliņa kost á sér fyrir Umbótaflokkinn í Ríga en náði ekki kjöri.[8] Hún starfaði sem lögfræðiráðgjafi við lettneska innanríkisráðuneytið frá 2011 til 2012.[1]
Siliņa var þingritari í innanríkisáðuneytinu frá janúar 2013 til 23. janúar 2019.[9] Sem þingritari hlaut hún lof fyrir hreinskilni gagnvart blaðamönnum, meðal annars með því að útskýra afstöðu innanríkisráðuneytisins í ýmsum málum, og fyrir baráttu hennar gegn tilbúnu kannabisefni og dreifingu þess í Lettlandi.[10][11] Hún var jafnframt fulltrúi ráðuneytisins við nokkrar alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, Interpol og CEPOL.[12]
Eftir að ríkisstjórn Krišjānis Kariņš var staðfest þann 23. janúar 2019 varð Siliņa þingritari forsætisráðherrans.[13][14] Siliņa bauð sig fram á þing í kosningum árið 2022 fyrir stjórnmálabandalagið Nýja einingu og náði kjöri.[15]
Þann 6. desember 2022 var tilkynnt að Siliņa yrði velferðarmálaráðherra í ríkisstjórn Krišjānis Kariņš.[16] Nýja ríkisstjórnin var staðfest 14. desember.[17]
Eitt helsta markmið Siliņa sem ráðherra var hækkun lágmarkstekna í Lettlandi.[18]
Þann 23. febrúar 2023 útnefndi forsætisráðherra hana í nýstofnaða Þemanefnd um fjármagn frá Evrópusambandinu.[19] Þann 4. júlí 2023 lagði ráðuneyti hennar Istanbúlsamninginn til samþykktar lettneska þingsins með nokkrum fyrirvörum.[20][21]
Eftir að Krišjānis Kariņš forsætisráðherra sagði af sér 16. ágúst 2023 tilnefndi Ný eining Siliņa til að taka við af honum.[22] Þann 24. ágúst veitti Edgars Rinkēvičs forseti henni umboð til að mynda stjórn.[23]
Þann 29. ágúst neitaði lettneski Einingarlistinn að taka þátt í stjórnarmyndun með Siliņa.[24] Í byrjun september gaf Siliņa til kynna að hún hygðist mynda nýjan þingmeirihluta ásamt Bandalagi græningja og bænda (ZZS) og Framsóknarflokknum (P).[25] Tólf dögum síðar kynnti hún nýju stjórnina, þar sem Ný eining fékk sjö ráðuneyti, ZZS fjóra og P þrjá. Arturs Krišjānis Kariņš tók við embætti utanríkisráðherra.[26]
Stjórn Siliņa vann traustsyfirlýsingu á þingi þann 15. september 2023 með 53 atkvæðum.[27] Siliņa sagðist ætla að tryggja þátttöku rússneskumælandi minnihlutans í Lettlandi en efla lettneskukennslu fyrir menntakerfi á lettneska tungumálinu.[5] Stjórnin sagðist jafnframt ætla að auka fjárframlög til hernaðarmála og ljúka við byggingu tálma á landamærum Lettlands við Rússland og Belarús.[5] Stjórn Siliņa fundaði í fyrsta sinn síðar sama dag.[28] Siliņa er önnur konan sem hefur orðið forsætisráðherra Lettlands á eftir Laimdotu Straujuma árin 2014–2016.[29]
Siliņa er gift Aigars Siliņš og á með honum þrjú börn.[1][5]
Auk móðurmáls síns, lettnesku, talar Siliņa ensku og rússnesku reiprennandi.[6]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.