Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Blanka af Navarra (1331 – 5. október 1398) (franska: Blanche d'Évreux) var drottning Frakklands í skamma hríð um miðja 14. öld sem seinni kona Filippusar 6. og síðan ekkjudrottning í nærri hálfa öld.
Hún var dóttir Jóhönnu 2., drottningar Navarra, og Filippusar 3. konungs. Hún var talin fegursta prinsessa sinnar tíðar og var kölluð „Belle Sagesse“ eða Fagra viska. Upphaflega stóð til að hún giftist Pétri, síðar konungi Kastilíu, en úr varð að hún var heitbundin Jóhanni, krónprinsi Frakklands, sem var nýorðinn ekkjumaður. En faðir hans, Filippus 6., hafði einnig misst konu sína í Svarta dauða skömmu fyrr og hann hreifst svo af Blönku að hann giftist henni sjálfur þótt hann væri nærri fjörutíu árum eldri. Hjónabandið var þó skammvinnt, Filippus dó 22. ágúst 1350 og var sagt að hann hefði ofreynt sig í hjónasænginni. Í ljós kom að drottningin var þunguð og eignaðist hún dóttur, Jóhönnu, í maí 1351.
Blanka flutti til Neaufles-Saint-Martin í Normandí og settist þar að. Ekki leið á löngu bað Pétur af Kastilíu, sem nú var orðinn konungur, um hönd hennar en hún hafnaði honum og sagði að drottningar Frakklands giftust aldrei aftur. Hún lifði kyrrlátu lífi í Normandí til dauðadags og kom sjaldan til hirðarinnar.
Einkadóttir hennar, Jóhanna, var heitbundin Jóhanni, ríkisarfa Aragóníu, en dó á leið í eigið brúðkaup, 16. september 1371.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.