From Wikipedia, the free encyclopedia
Bardaginn við Bláfótunga (franska: Alerte aux Pieds Bleus) eftir belgíska teiknarann Maurice de Bevere (Morris) er tíunda bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1958, en sagan sem hún hefur að geyma birtist í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árinu 1956.
Í byrjun bókarinnar lendir Lukku Láki í útistöðum við vafasaman náunga, Mexíkóann Pedró Pamfíl, sem féflettir menn með því að svindla í pókerspili í bænum Skröltormagili (e. Rattlesnake Valley) í Arísóna. Á flótta undan Lukku Láka lendir Pedró í klóm indíána (Bláfótunga). Höfðingja þeirra, Birninum síþyrsta, þykir sopinn góður og með því að lofa honum ómældum birgðum af wiskuvatni (viskíi) fær Pedró Bláfótungana til að ráðast á Skröltormagil. Bæjarbúar ("Skröltarar") búast til varnar undir forystu Lukku Láka og hins hjátrúarfulla skerfara Brynjólfs Brýna. Skyndiáhlaupi Bláfótunga er hrundið og aðrar tilraunir þeirra til að ná valdi á bænum, m.a. með því að senda Pedró Pamfíl í dulargervi til bæjarins, mistakast. Gamanið kárnar þegar Bláfótungum dettur í hug að svelta bæjarbúa til uppgjafar, en Lukku Láka tekst að útvega matvæli með því að fæla heila vísundahjörð rakleitt inn í bæinn. Þegar Bláfótungum berst liðsstyrkur frá fleiri indíánum ná þeir loks að rjúfa varnarmúr Skröltara, en á síðustu stundu berst hjálp frá riddaraliðinu og indíánarnir sjá þann kost einan að gefast upp og "rispa pappír með bleiknefjum" (undirrita friðarsamning). Lukku Láki klófestir síðan Pedró Pamfíl á flótta og kemur honum í hendur skerfarans.
Bardaginn við Bláfótunga var gefin út af Fjölva árið 1983 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 33. bókin í íslensku ritröðinni og sú síðasta sem Fjölvi gaf út.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.