Bardaginn við Bláfótunga (franska: Alerte aux Pieds Bleus) eftir belgíska teiknarann Maurice de Bevere (Morris) er tíunda bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1958, en sagan sem hún hefur að geyma birtist í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árinu 1956.
Söguþráður
Í byrjun bókarinnar lendir Lukku Láki í útistöðum við vafasaman náunga, Mexíkóann Pedró Pamfíl, sem féflettir menn með því að svindla í pókerspili í bænum Skröltormagili (e. Rattlesnake Valley) í Arísóna. Á flótta undan Lukku Láka lendir Pedró í klóm indíána (Bláfótunga). Höfðingja þeirra, Birninum síþyrsta, þykir sopinn góður og með því að lofa honum ómældum birgðum af wiskuvatni (viskíi) fær Pedró Bláfótungana til að ráðast á Skröltormagil. Bæjarbúar ("Skröltarar") búast til varnar undir forystu Lukku Láka og hins hjátrúarfulla skerfara Brynjólfs Brýna. Skyndiáhlaupi Bláfótunga er hrundið og aðrar tilraunir þeirra til að ná valdi á bænum, m.a. með því að senda Pedró Pamfíl í dulargervi til bæjarins, mistakast. Gamanið kárnar þegar Bláfótungum dettur í hug að svelta bæjarbúa til uppgjafar, en Lukku Láka tekst að útvega matvæli með því að fæla heila vísundahjörð rakleitt inn í bæinn. Þegar Bláfótungum berst liðsstyrkur frá fleiri indíánum ná þeir loks að rjúfa varnarmúr Skröltara, en á síðustu stundu berst hjálp frá riddaraliðinu og indíánarnir sjá þann kost einan að gefast upp og "rispa pappír með bleiknefjum" (undirrita friðarsamning). Lukku Láki klófestir síðan Pedró Pamfíl á flótta og kemur honum í hendur skerfarans.
Fróðleiksmolar
- Bardaginn við Bláfótunga er fyrsta Lukku Láka bókin (og ein af tiltölulega fáum) þar sem indíánar eru í aðalhlutverki. Morris fór ekki varhluta af gagnrýni á að teikningar hans af öðrum en hvítum mönnum, t.d. indíánum og Mexíkóum, einkenndust af staðalímyndum eða jafnvel kynþáttaandúð. Víst er að Bardaginn við Bláfótunga dregur ekki upp sérstaklega jákvæða mynd af frumbyggjum nýja heimsins; höfðingi indíánanna stjórnast af áfengisfíkn og sýnir allt annað en hugrekki í skærunum við bæjarbúa. Svipuð gagnrýni kom fram á teikningar af þeldökkum í bókinni Fúlspýt á Fúlalæk sem kom út árið 1961, en sú bók hefur ekki verið þýdd á íslensku og var ekki þýdd á ensku fyrr en árið 2021. Í eftirmála íslensku útgáfunnar af Bardaganum við Bláfótunga kemur fram að Fjölvi hafi ekki treyst sér til að gefa út Fúlspýt á Fúlalæk.
- Atriðinu þar sem höfðingi Gulfótunga tjáir sig með merkjamáli við höfðingja Bláfótunga svipar mjög til atriðis í Ástríksbókinni Ástríki heppna þar sem Ástríkur og Steinríkur reyna að gera sig skiljanlega við indíána með látbragði. Ástríksbókin kom út löngu síðar eða árið 1975.
- Á bls. 7 í íslenskri útgáfu bókarinnar má sjá skilti við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó sem vísar veginn til Arísónafylkis ("U.S.A. state of Arizona"). Arisóna varð þó ekki fullgilt sambandsríki í Bandaríkjunum fyrr en árið 1912.
- Indíánaþjóðflokkur Bláfótunga er tilbúningur í sögunni, en vera kann að fyrirmynd hans sé þjóðflokkur Svartfótunga (e. Blackfoot tribe) sem lifði á vísundaveiðum á sléttunum miklu í Montana í Bandaríkjunum.
- Bardaginn við Bláfótunga er síðasta Lukku Láka bókin sem Morris samdi sjálfur og raunar eina bókin sem hann samdi eftir að samstarf hans við René Goscinny hófst með útgáfu Þverálfujárnbrautarinnar árið 1957.
Íslensk útgáfa
Bardaginn við Bláfótunga var gefin út af Fjölva árið 1983 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 33. bókin í íslensku ritröðinni og sú síðasta sem Fjölvi gaf út.
Heimildir
- Lucky Luke. Nouvelle Intégrale 4. Dupuis. 2022.
Wikiwand in your browser!
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.