Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Þörungar eru lauslega skilgreint samheiti yfir margvíslegar, oftast frumbjarga, lífverur í sjó, vötnum og á landi. Þörungum í sjó og vötnum má skipta í tvo hópa, annars vegar plöntusvif og hins vegar botnþörunga. Plöntusvif er örsmár svifgróður sem berst með straumum í yfirborðslögum sjávar eða vatna, en botnþörungar vaxa á botninum eins og nafnið gefur til kynna. Þörungar nýta ljósorku sólarinnar til að byggja upp lífræn efni úr ólífrænum og byggir nær allt líf í sjónum tilveru sína beint eða óbeint á þessari framleiðslu þeirra. Megnið af framleiðslunni kemur frá plöntusvifinu í efstu lögum sjávar, en botnþörungarnir taka einnig þátt í nýmyndun lífrænna efna. Þörungarnir nýta birtuna við yfirborðið, þeir nýta áburðarefni eða næringarsölt sem berast upp í yfirborðslögin og eru auk þess háðir straumum og uppblöndun eða stöðugleika sjávar. Þeir eru því mjög háðir umhverfisaðstæðum í hafinu.[1]
Næstum allir þörungar hafa blaðgrænu og eru því frumbjarga. Blaðgræna þörunga er í sérstökum grænukornum nema hjá bláþörungum þar sem hún er jafndreifð um allt frymið. Oft hylja ýmis litarefni, sem gera þörungana gula, brúna eða rauða, blaðgrænuna í þeim og hafa þörungar frá fornu fari verið flokkaðir eftir lit. Allir þörungar nema bláþörungar eru heilkjörnungar, þ.e. hafa kjarna í frumum sínum, og erfðaefni þeirra myndar litninga við frumuskiptingu. Æxlun þörunga er margvísleg, allt frá einfaldri frumuskiptingu (kynlaust) til flókinnar kynæxlunar. Margir þörungar eru einfrumungar, oft með 1-2 þráðum (svipum) sem þeir slá til og frá í vatninu og hreyfa sig þannig. Slíkir þörungar eru kallaðir svipuþörungar. Margir svipuþörungar hafa ljósnæman rauðlitaðan augndíl. Algengt er að einfrumuþörungar myndi sambú (colonia) sem geta orðið svo stór að þau sjást með berum augum. Fjölfrumungar meðal þörunga eru vanalega þráðlaga og geta orðið allt að nokkrum sentimetrum lengd, þótt breiddin sé aðeins ein frumubreidd. Því sjást þeir ekki með berum augum nema þeir komi margir saman og myndi slý eða slavak. Þráðlaga þörungar geta líka myndað sambú. Sumir þörungar, eins og brún- og rauðþörungar, hafa frumuvef sem líkist vefjum æðplantna og mynda líkama sem er á stærð við blómplöntur, en líkamsvefurinn er einsleitur og ekki sérhæfður eins og hjá æðplöntum. Áður var hefðbundið að skipta þörungum í plöntu- og dýraríki, en nú er þeim skipt í tvö veldi sem eru dreifkjörnungar (Procaryota) og heilkjörnungar (Eucaryota). Bláþörungar eru dreifkjörnungar og eru nú oft taldir með gerlum og nefndir blágerlar (Cyanobacteria). Allir aðrir þörungar eru heilkjörnungar. Samkvæmt nýjum rannsóknum virðast ýmsar heilkjarna þörungafylkingar lítið skyldar og eru taldar hafa þróast eftir aðskildum þróunarlínum. Einfruma þörungar og sambú þeirra eru yfirleitt á reki og svífa um við og á yfirborði vatna eða sjávar. Þeir kallast svifþörungar og mynda plöntusvif (phytoplankton). Stærri þörungar eru oftast fastir á steinum eða klettum eða hafsbotni og geta fest sig með rótum. Þeir kallast botnþörungar. Sumir þörungar festa sig á aðrar lífverur og kallast þeir ásætuþörungar eða ásætur. Nokkrar tegundir þörunga geta fjölgað sér mjög mikið við hagstæð skilyrði og þakið vatnsyfirborðið þannig að það fær ákveðinn lit grænan, brúnan eða rauðan. Slíkt kallast vatnamor eða vatnablómi. Stundum litast sjór rauður af þessum sökum og kallast þá blóðsjór. Þörungar mynda sæþörungabelti á ströndum vatns og sjávar. Þang og grænþörungar eru efst og á stöðum sem eru þurrir á fjöru en þar fyrir neðan tekur við þarabelti og eftir það rauðþörungabelti. Þarinn er stórvaxnastur þörunga á norðlægum slóðum og er oft um 2 m eða meira á lengd og myndar oft þaraskóga á nokkurra metra dýpi. Rauðþörungar finnast niður á allt að 100 m dýpi. Meðal þörunga eru einnig landþörungar (e. aerial/terrestrial algae) sem búa ekki í sjó heldur á landi þar sem er hæfilega rakt. Þeir geta vaxið í rökum jarðvegi eða mosa, hellum og gjám og á stofnum trjáa. Nokkrar tegundir þrífast í jarðhitavatni, allt að 65 gráðu heitu. Ýmsir þörungar mynda sambýli með sveppum og kallast þau fléttur. Þá er þörungurinn umlukinn sveppavef sem hindrar útgufun og veitir steinefnanæringu til þörungsins en sveppurinn fær kolvetni frá þörungnum, sem oft veldur því að fléttan verður græn á lit. [2]
Þörungar eins og söl og marinkjarni hafa verið nýttir til manneldis á Íslandi. Fjörugrös, klóþang og hrossaþari hafa einnig verið nýtt. Fjörubeit hefur tíðkast öldum saman en sauðfé er sólgið í þang og þara. Þang sem rekur á fjöru hefur verið notað til eldiviðar og áburðar og líka brennt til að vinna úr því joð og salt og önnur steinefni. Hlaupefnið agar er unnið úr rauðþörungum. Kísilgúr er unninn úr skeljum kísilþörunga sem orðið hafa að botnseti í vötnum. Margir þörungar eru notaðir í ýmis lífræn efni. Brúnþörungar eru ríkir af fjölfenólum (flórótannínum).
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.